Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 17:37:26 (5379)

1997-04-17 17:37:26# 121. lþ. 105.5 fundur 411. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[17:37]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um þátttöku Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Texti tillögunnar er svohljóðandi:

,,Alþingi samþykkir að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að Ísland verði aftur aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Mótmæli Alþingis við banni við hvalveiðum yrðu hluti þeirra ráðstafana.``

Herra forseti. Ísland gerðist aðili að alþjóðasáttmálanum um skipan hvalveiða árið 1948 en sagði aðildinni upp, sem jafngilti úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu, árið 1991 á þeim forsendum að ráðið starfaði ekki í samræmi við sáttmálann. Árið 1982 samþykkti Alþjóðahvalveiðiráðið tímabundna veiðistöðvun á hvalveiðum í atvinnuskyni frá ársbyrjun 1986. Það bann skyldi síðan endurskoðast í ljósi þess hvaða mat lægi fyrir á ástandi hvalastofna árið 1990. Vísindaveiðar okkar voru í raun framlag til þess að slíkt mat gæti orðið sem áreiðanlegast og lauk okkar þætti árið 1989. Síðan þá hefur ekki verið veiddur hvalur við Ísland því að þrátt fyrir að vísindanefnd ráðsins samþykkti á grundvelli rannsóknanna að tilteknir hvalastofnar þyldu takmarkaðar veiðar ákvað meiri hluti ráðsins að endurskoða ekki veiðibannið.

Þetta er í raun forsaga þess að Ísland segir sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu.

Herra forseti. Þrátt fyrir að Ísland hafi sagt sig úr ráðinu á þeim forsendum að vera í ráðinu kæmi í veg fyrir sjálfbæra nýtingu hvalastofna og þrátt fyrir tilraun til að skapa möguleika á að hefja að nýju hvalveiðar í samtökum með Norðmönnum, Grænlendingum og Færeyingum, samtökunum NAMMCO, hafa hvalveiðar ekki hafist enn, nú fimm árum síðar. Þrátt fyrir að vísindamenn okkar telji að hvalastofnar við Ísland fari vaxandi, enginn sé í útrýmingarhættu og einhverjir þola í raun sambærilegar veiðar við það sem var fram að gildistöku hvalveiðibannsins, hefur sjútvrh. ekki treyst sér til að heimila hvalveiðar að nýju.

Það kom fram í greinargerð með þingsályktunartillögu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar frá 1994 um hvalveiðar að ef Íslendingar hæfu aftur hvalveiðar tækju eftirlitsreglur óhjákvæmilega mið af þeirri umfjöllun sem ætti sér stað innan hvalveiðiráðsins og þeim ákvörðunum sem þar væru teknar. Bæði í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna og framkvæmdaáætlun Ríó-ráðstefnunnar er mælt fyrir um skyldu ríkja til samstarfs í þessum efnum og 65. gr. hafréttarsamningsins fjallar sérstaklega um þessar skyldur hvað varðar sjávarspendýr. Þar segir að ríkið skuli, með leyfi forseta, ,,starfa saman með verndun sjávarspendýra í huga og skuli hvað hvali snertir einkum starfa á vettvangi viðeigandi alþjóðastofnana að verndun og stjórnun þeirra og rannsóknum á þeim.``

Herra forseti. Á sínum tíma þegar Ísland sagði sig úr ráðinu var álitið að fleiri ríki mundu fylgja fordæmi okkar. Það gerðist ekki og NAMMCO hefur því ekki orðið sá vettvangur sem vonir voru bundnar við. Noregur sem er eina fullvalda ríkið ásamt okkur í NAMMCO hefur haldið áfram að starfa innan Alþjóðahvalveiðiráðsins og hefur nú í skjóli þess hafið hrefnuveiðar. Ekki eru líkur á að Noregur yfirgefi Alþjóðahvalveiðiráðið, enda virðast þeir telja að staða sín til veiða væri mun verri utan ráðsins. Þeir hafa m.a. bent á það sem merki um breytingar á afstöðu innan ráðsins að þeir skuli komast upp með að hefja hvalveiðar að nýju. Sé litið til stöðu Norðmanna virðist einsýnt að hagsmunum okkar væri betur borgið með því að vera einnig innan ráðsins. Japanir stunda einnig veiðar í vísindaskyni. Þær veiðar fara fram þrátt fyrir veru þeirra í Alþjóðahvalveiðiráðinu og eru löglegar samkvæmt sáttmálanum rétt eins og vísindaveiðar okkar á sínum tíma. Og það er ekki nóg að veiða, það þarf líka að selja og það er allt óljóst um sölu hvalaafurða.

Í utandagskrárumræðu sl. vor kom fram í máli hæstv. sjútvrh. að það væri því miður staðreynd að eins og sakir stæðu væri ekki kostur á að flytja hvalaafurðir úr landi en það hefur lengi legið fyrir að við gætum ekki selt Japönum hvalaafurðir þó að við hæfum veiðar á meðan við stöndum utan ráðsins. Samþykkt ráðsins frá áttunda áratugnum bannar að lönd innan ráðsins kaupi hvalaafurðir af ríkjum utan þess, ríkjum eins og Íslandi.

Herra forseti. Þrátt fyrir að við stöndum nú utan ráðsins og séum þar með ekki formlega bundin af ákvörðunum þess um veiðibann, þrátt fyrir að vísindamenn okkar telja að líffræðilegar forsendur séu ákjósanlegar varðandi veiðar og sjálfbæra nýtingu hvalastofnanna og þess vegna hægt að hrinda stefnu Íslands í framkvæmd, þrátt fyrir skýrslur á skýrsur ofan með fyrirheitum um hvalveiðar, ef ekki í ár, þá á næsta ári og þrátt fyrir umræður og heitingar á Alþingi, þá veiðum við ekki hval. Það segir mér að þrátt fyrir meinta ástæðu úrsagnar okkar úr Alþjóðahvalveiðiráðinu, sem var sú að afstaða ráðsins til hvalveiða væri ekki byggð á vísindalegum forsendum heldur pólitískum, þá höfum við fljótlega áttað okkur á því að hin pólitíska afstaða ráðsins réð einnig ákvörðunum og gerðum okkar utan ráðsins. Annað er ekki hægt að álykta af aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda í fimm ár.

Rökin fyrir því að standa utan ráðsins eru því harla léttvæg orðin þegar við verðum við allar okkar ákvarðanir að taka tillit til þeirrar stefnumótunar sem þar fer fram, hversu óvísindaleg sem okkur kann að finnast hún. Við erum bundin af ákvörðunm ráðsins hvort sem við erum utan þess eða innan. Möguleikar okkar til að hafa áhrif á þá stefnumótun sem þar fer fram eru mestir ef við eigum þar sæti, því ráðið er og verður um fyrirsjáanlega framtíð helsti vettvangur umræðu um hvalveiðar, og þá einnig baráttu fyrir því að hvalveiðar verði hafnar á ný. Þar sitja enn fulltrúar helstu hvalveiðiþjóða og einnig þeirra sem hafna hvalveiðum í atvinnuskyni. Þar fer þessi barátta fram.

Herra forseti. Alþingi samþykkti með naumum meiri hluta árið 1983 að nýta ekki rétt landsins til að gera fyrirvara við samþykkt Alþjóðahalveiðiráðsins um tímabundna stöðvun veiða í atvinnuskyni, svokallaðan núllkvóta, en slíkur fyrirvari hefði þýtt að Ísland hefði ekki verið bundið af samþykktum ráðsins. Sem lið í þeirri ákvörðun að ganga aftur í ráðið yrði Alþingi að samþykkja að gera slíkan fyrirvara, að mótmæla banni við hvalveiðum, og yrði það liður í þeim ráðstöfunum sem samþykkt þessarar ályktunar felur í sér. Það liggur ekki fyrir með óyggjandi hætti hvort unnt er að ganga í alþjóðasamtök með fyrirvara. Á það yrði að reyna og þá í leiðinni á vilja þeirra þjóða sem vilja sjá okkur aftur í ráðinu eða hafa skilning á stöðu okkar.

Í svari við fyrirspurn minni frá því í haust um hvort kannað yrði með inngöngu í ráðið við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hefja hvalveiðar að nýju svaraði hæstv. sjútvrh. því til að það væri sjálfstætt athugunarefni þegar kæmi að ákvörðunum í þessu hvort við styrktum betur stöðu okkar með því að ganga aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið með mótmælum gagnvart samþykktinni frá sínum tíma. Miðað við skoðanakannanir og samþykktir ýmissa almannasamtaka virðist vera yfirgnæfandi meiri hluti fyrir því að við hefjum hvalveiðar að nýju. Stefna Íslands er að nýta beri þær endurnýjanlegu auðlindir sem sannanlega þola nýtingu án þess að þeim sé stefnt í voða, að nýting auðlindanna sé sjálfbær. Einnig að til þess liggi ákveðnar menningarlegar forsendur að Íslendingar veiði hval og við viljum varðveita fjölbreytilega menningu. Rök okkar hafa einnig verið þau að undirstrika rétt fullvalda ríkis til að nýta auðlindir sínar á vísindalegum forsendum.

En þó að þessi stefna okkar og röksemdir séu í fullu samræmi við rétt lands til sjálfsákvörðunar, bæði samkvæmt hafréttarsamningnum, Ríó-samkomulaginu og samþykkt Sameinuðu þjóðanna um fjölbreytilega menningu, er núverandi staða okkar til að hefja hvalveiðar afar þröng. Hún er þröng vegna þess að afstaða okkar helstu viðskiptaþjóða er neikvæð gagnvart hvalveiðum og staða okkar gæti orðið mjög erfið ef stjórnvöld þeirra ríkja kysu að beita sér gegn okkur undir slíkum kringumstæðum. Við verðum að fara afar varlega og taka tillit til þess að afstaða umheimsins er fjandsamleg hvalveiðum og við megum ekki einangrast á alþjóðavettvangi. Við höfum takmarkaða fjármuni og getu til að standa ein í stríði og því kynningarstarfi sem fylgdi því stríði til að verja aðra stóra hagsmuni okkar. Og við þurfum á því að halda að ímynd okkar út á við sé sú að við viljum umgangast auðlindir hafsins í samræmi við stefnu þeirra alþjóðasamtaka sem mark er tekið á á hverju sviði, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Samningar okkar um veiðar íslenskra skipa á úthafinu og í lögsögum annarra ríkja byggja m.a. á því.

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín undir þessum dagskrárlið að ræða almennt um hvalveiðar okkar Íslendinga. Það sem ég hef dregið hér fram er fyrst og fremst gert til að undirstrika nauðsyn þess að við gerum ráðstafanir til að Ísland gangi aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið, því hvort sem við hefjum hvalveiðar á ný eða ekki verðum við að taka tillit til þess sem gerist á vettvangi ráðsins og allt bendir til þess að ef við ákveðum að hefja hvalveiðar að nýju yrði staða okkar gagnvart öðrum þjóðum og náttúruverndarsamtökum einnig mun betri ef við værum innan ráðsins. Þar getum við kynnt og varið okkar málstað líkt og Norðmenn gera, þar eiga sæti okkar helstu viðskiptaþjóðir og þótt við treystum okkur ekki til að hefja veiðar á næstunni værum við einnig betur sett til að koma sjónarmiðum okkar á framfæri og hafa áhrif á þróun mála. Sú pattstaða sem málið er í núna er óþolandi. Því telja flutningsmenn rétt að gerðar séu ráðstafanir til að Ísland gangi aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.