Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 18:05:53 (5382)

1997-04-17 18:05:53# 121. lþ. 105.5 fundur 411. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:05]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. 1. flm. þessarar þáltill. hefur gert mjög vel grein fyrir rökum fyrir því að hún verði samþykkt. Það kom mjög skýrt fram í ræðu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur að öll rök hníga að því að ráðstafanir verði gerðar til að við verðum aftur aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu, en það er tekið til þess í tillgr. að mótmæli Alþingis við banni við hvalveiðum yrði hluti þeirra ráðstafana. Ég ætla ekki að fara að endurtaka öll þau rök.

Mig langar til að koma aðeins inn á þátt ferðamálanna en hv. þm. Kristín Halldórsdóttir vék að því í máli sínu að það væri áhyggjuefni þeirra sem starfa að ferðaþjónustu að ef við hæfum hvalveiðar að nýju þá hefði það áhrif á aðsókn ferðamanna hingað. Ég hef í dag haft samband við nokkra ferðamálafulltrúa í Noregi til að spyrjast fyrir um það hvort hvalveiðar Norðmanna hefðu haft áhrif á ferðaþjónustuna, en eins og kemur fram í grg. með þál. og kom reyndar fram í máli manna á undan mér stunda Norðmenn hvalveiðar, hrefnuveiðar. Það kom fram í svörum að þeir telja að svo sé ekki, a.m.k. sé það að mjög litlu leyti sem það hafi haft áhrif á ferðaþjónustuna. Sjálfbær nýting sjávarfangs hvort sem það eru sjávarspendýr eða annað sjávarfang gæti verið hluti af sjálfbærri ferðaþjónustu. Ég get ekki séð að þetta ætti að trufla að einu eða neinu leyti ferðaþjónustuna hér.

Ég tók eftir því þegar þetta mál var lagt fyrst fram í þinginu var leitað álits hjá ýmsum fulltrúum í ferðaþjónustu, m.a. þeirra sem eru að sinna hvalaskoðun. Það kom fram hjá þeim að þeir töldu þessa þáltill. sem hér er til umræðu vera mjög þarfa og voru henni hlynntir. Ég held að það séu óþarfaáhyggjur sem menn hafa af því að þetta geti haft einhverjar afleiðingar á ferðaþjónustuna hér á landi. Ég tel jafnvel að þetta gæti haft frekar jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna heldur en hitt þannig að ég hefði gjarnan viljað að þetta kæmi inn í umræðuna um þá tillögu sem við ræðum, enda ekki þar með sagt að við hefjum hvalveiðar þótt þessi þáltill. verði samþykkt.