Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 18:09:27 (5383)

1997-04-17 18:09:27# 121. lþ. 105.5 fundur 411. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:09]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. 18. þm. Reykv. hefur ekki trú á því að þetta hafi áhrif og vitnaði til samtala við ferðamálafulltrúa í Noregi sem hún sagði að hefðu sagt sér að þetta hefði ekki áhrif nema að mjög litlu leyti eins og það var orðað. Það er mála sannast að menn geta ekki mikið sagt um það og greinir verulega á um það. Ég get alveg eins vitnað í sérfræðing í hvalaskoðunarferðum sem hér var á ferð á síðasta ári. Hann heitir Mark Crawardine og ég er með útskrift af viðtali við hann í Morgunblaðinu þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Hann telur að hvalveiðar muni hafa slæm áhrif á ferðaþjónustuna hér í heild. ,,Ef Íslendingar hefja hvalveiðar gæti landið orðið vænlegri skotspónn en Noregur og Japan,`` segir hann, og bætir við að hann mæli ekki með að Íslendingar hefji hvalveiðar aftur vegna hættunnar á harkalegum viðbrögðum.

Hvalaskoðun getur hinsvegar ekki haft nema góðar afleiðingar, að hans mati, og gróðinn af þeim bæti fyrir tapið vegna banns við hvalveiðum.``

Svo segir aðeins aftar í þessari frétt, með leyfi forseta:

,,Mark segist ekki stilla hvalaskoðun og hvalveiðum hvorri á móti annarri, rökin hnígi bara að því að Íslendingar tapi meira í heild en þeir græði á veiðunum.``

Þannig held ég að við getum leitt til vitnis bæði með og móti og við verðum auðvitað bara að taka afstöðu út frá okkar eigin heilbrigðu skynsemi.