Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 18:21:58 (5388)

1997-04-17 18:21:58# 121. lþ. 105.5 fundur 411. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:21]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli mínu áðan held ég að það sé afar óverulegur ágreiningur ef nokkur um þau markmið sem við stefnum að eða þá stefnu sem við viljum fylgja fram í auðlindamálum. Ég held að það sé nokkuð góð samstaða með þjóðinni um það. Það eina sem getur ógnað þeirri samstöðu eða spillt henni er algjört aðgerða- og árangursleysi af hálfu stjórnvalda í málinu, þ.e. ef þeir sem vilja fylgja málinu fram af sem mestu kappi verða æ ofan í æ fyrir vonbrigðum og finnst þeir dregnir á asnaeyrum með hálfgerðum loforðum um að nú verði teknar ákvarðanir og hafnar veiðar á næsta ári, þar næsta ári o.s.frv. Gallinn við ræðu hæstv. ráðherra, sem var snotur að venju, er bara sá að við höfum heyrt hana fimm sinnum áður. Þetta er sama ræðan og hann flutti í fyrra og í hittiðfyrra, að það væru örðugleikar á málinu, að það væri ekki alveg eins einfalt eins og haldið væri fram, að það væri svolítið flókið og það væri svolítið vandmeðfarið. Það er allt saman satt og rétt.

En það er langt síðan ráðinn var til starfa erlendur sérfræðingur til þess að leggja á ráðin með okkur um það hvernig við hönnuðum þennan fyrirvara og í framhaldi af því var um það rætt að sjálfsögðu að fylgja því eftir með viðtölum við aðildarþjóðir til að ganga úr skugga um það að við yrðum tækir inn í Alþjóðahvalveiðiráðið á ný með þessum fyrirvara. Það kallar ekki á að fyrir fram liggi samþykki allra aðildarþjóða hvalveiðiráðsins um að þau viðurkenni þann lagaskilning að fyrirvarinn hafi gildi. Ef við ætlum að bíða eftir því, þá tökum við aldrei neina ákvörðun, þá verður aldrei nein niðurstaða, þá verður aldrei neinn gjörningur. Um það snýst ekki málið. Málið snýst um að tryggja það með samvinnu við vinveittar þjóðir og meiri hluta þjóða hugsanlega, að við getum farið þá leið að fara aftur inn með þessum fyrirvara. Málið er þá raunverulega í sama stað og það var í byrjun ef það hefur ekki verið unnið að því að afla okkur stuðnings við þá leið. Við bíðum, hæstv. ráðherra, eftir pólitískri ákvörðun í málinu.