Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 18:30:46 (5392)

1997-04-17 18:30:46# 121. lþ. 105.5 fundur 411. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:30]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er sjaldgæft en notalegt að sjá hæstv. sjútvrh. koma svona lítillátan og auðmjúkan í ræðustól eins og núna. Nú kemur hann og segir að það sé nauðsynlegt að stjórnarandstaðan standi með ríkisstjórninni í málinu, það þurfi sem víðtækasta samvinnu. Herra forseti. Ég varð ekki var við þennan samvinnuvilja, a.m.k. við jafnaðarmenn þegar hann setti af stað umrædda nefnd. Það var ekki mikið leitað til jafnaðarmanna þá um að koma og vinna saman til þess að finna málinu sameiginlega farsæla niðurstöðu. Það verður hæstv. sjútvrh. að eiga við sjálfan sig en það er fullseint í rassinn gripið að koma núna með húfuna í hendinni til okkar og biðja um stuðning í máli sem er búið að klúðra.

Ég kem hér upp, herra forseti, til þess að herða á því sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hefur óskað hér eftir, að fá að sjá þessa skýrslu birta opinberlega. Ég hef séð þessa skýrslu og er bundinn trúnaðarheiti. En hæstv. sjútvrh. segir að þingmenn hljóti að skilja að hún verði ekki birt fyrr en umfjöllun er lokið í ríkisstjórn. Mig brestur nú greind til þess að skilja það, herra forseti. Ég skil ekki hvers vegna ekki er hægt að leysa út skýrslu sem hefur legið fyrir frá því í febrúar. Henni var skilað í febrúar. Kynni að vera, herra forseti, að í þeirri skýrslu komi fram einhver afstaða til þessarar þáltill. sem hér liggur fyrir? Ég spyr. Ég held að það sé nauðsynlegt að skýrslan komi fram hið fyrsta og ég spyr hæstv. sjútvrh.: Hvað veldur því að skýrsla sem er búin að vera til umfjöllunar í tvo mánuði í ríkisstjórn er trúnaðarmál? Fjölmiðlar fá ekki aðgang að henni og meira að segja hagsmunaaðilar, þeir sem hafa mestan áhuga á þessu og mesta hagsmuni af því að sjá málið leitt til lykta, fá ekki heldur nokkurn pata af þessu. Ég hef að sjálfsögðu ekki sagt mínum þingflokki frá þessu en við brennum öll í skinninu. Hvað er það sem ekki má sjá?