Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 18:34:36 (5394)

1997-04-17 18:34:36# 121. lþ. 105.5 fundur 411. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:34]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get nú ekki látið minn hlut eftir liggja í þessu skjallbandalagi sem hér hefur myndast. Ég verð að segja að hæstv. sjútvrh. er einn þeirra manna sem er hvað skyggnastur á þróun í stjórnmálum. Nú hefur honum tekist að skyggnast fram í framtíðina mun betur en mér og okkur öðrum forustumönnum jafnaðarmanna vegna þess að hann er búinn að sjá það fyrir að það mun takast, sem við höfum verið að tala um, að jafnaðarmenn sameinist í eina órofa fylkingu og ég vil óska hæstv. sjútvrh. til hamingju með að hafa uppgötvað þetta fyrstur manna á stjórnarheimilinu.

Hins vegar verð ég líka að segjað, herra forseti, að ég skil ekki af hverju þessi skýrsla er ekki leyst. Ég skil ekki af hverju hún er ekki lögð fram og ég ítreka það aftur: Hvenær á þessi skýrsla að koma? Getur verið að í henni sé eitthvað sem hæstv. sjútvrh. vill ekki sjá, t.d. í þeirri umræðu sem hér fer fram? Kann að vera að eitthvað slíkt vaki fyrir honum? Ég verð að segja að ég kann ekki alveg við þessi vinnubrögð. Það er búið að ganga frá málinu, skýrslan liggur fyrir, það er búið að kynna hana í trúnaði, svo miklum trúnaði að þeir sem fá að sjá hana eru beðnir um að kynna hana ekki einu sinni fyrir sínum þingflokki og hafa auðvitað haldið þann trúnað. En mér finnst raunar að þetta sé komið út í öfgar og það sé kominn tími á það að menn sjái hvort eitthvað sé í þessari skýrslu eða hvort henni sé haldið vegna þess að þar er kannski ekki nokkur skapaður hlutur.