Breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 10:42:35 (5402)

1997-04-18 10:42:35# 121. lþ. 106.92 fundur 293#B breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[10:42]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta sé út af fyrir sig fullnægjandi að öðru leyti en því að mér finnst það nokkuð seint sem þessi fundur er haldinn. Ég hefði talið að þörf væri á að halda hann nú þegar þannig að ég fer fram á það að honum verði flýtt vegna þess að það hefur áhrif á hraðann í meðferð málsins hér hvernig þeim fundi vindur fram. Ég óska því eftir að hann verði haldinn fyrr. Það vil ég segja í fyrsta lagi.

Í öðru lagi vil ég segja að ég tel nauðsynlegt að það sé skýrt að ekki kemur til greina að afgreiða annað af þessu frv. en það sem óhjákvæmilegt er að afgreiða fyrir mánaðamótin. Það er auðvitað algjörlega út í hött að ætla sér að afgreiða hér á þremur sólarhringum skattalög sem eiga að gilda á árinu 2000 eins og gert er ráð fyrir í frv. ef ég man rétt. Það er því greinilegt að efh.- og viðskn. verður að taka það út úr sem óhjákvæmilegt er að taka út úr í þessu efni til þess að staðið verði við þá kjarasamninga sem ákveðið var að gera. Auðvitað er allt með ósköpum í vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar í sambandi við þessa kjarasamninga og til skammar. Það er til skammar hvernig ríkisstjórnin heldur á þessu máli, ekki síst með hliðsjón af því að aftur og aftur hefur hún verið minnt á þessi mál í þessari stofnun, hvað eftir annað. Hvað eftir annað var spurt hvenær skattafrumvarpið kæmi inn þegar VR-samningur var gerður. Hvenær kom það svo inn? Það kom inn á undanþágu 4. apríl. En þetta mál er í raun og veru búið að liggja síðan 4. apríl, í mjög langan tíma. Það eru handarbakavinnubrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar að kunna ekki að raða málum í forgangsröð. Á sama tíma erum við að eyða hér löngum fundum í umræður um býlanöfn og búfjárhald, mál sem bersýnilega skipta ekki stóru máli í þessu samhengi.

Ég óska eftir því, herra forseti, og þakka fyrir undirtektir forseta, að sá fundur sem áformaður er verði haldinn strax.