Breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 10:49:44 (5405)

1997-04-18 10:49:44# 121. lþ. 106.92 fundur 293#B breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt# (aths. um störf þingsins), KH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[10:49]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér hefur komið fram fullkomlega réttmæt og eðlileg gagnrýni á störf þingsins og ég vil þakka hæstv. forseta fyrir skilning hans og undirtektir við þá gagnrýni og vænti þess að þessi fundur verði þá haldinn, þó að ég taki einnig undir kröfu og tilmæli hv. 8. þm. Reykv. um að hann verði haldinn nú þegar. Ég sé ekki að það sé eftir neinu að bíða. Ég staðfesti að það hefur ekki komið til umræðu á fundum forseta með þingflokksformönnum að þessu máli þyrfti að flýta með þessum hætti og það er raunar furðulegt að það skuli fyrst koma fram á eins konar fyrir fram fundi í efh.- og viðskn. að svo brátt þurfi að afgreiða málið. Það er í raun óhugsandi að menn sem fyrst og fremst ráða um framlagningu mála og hvenær þau skuli tekin á dagskrá hafi ekki áttað sig á þessu fyrr og tekið á því. Ég verð að segja að alvarlegasti þátturinn í þessu máli er sá að það virðist sem það skorti mjög á eðlileg og nauðsynleg samskipti ráðherra og forseta þingsins að þetta skuli þurfa að bera að með þessum hætti.