Vörugjald af olíu

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 11:09:21 (5410)

1997-04-18 11:09:21# 121. lþ. 106.5 fundur 527. mál: #A vörugjald af olíu# (lituð olía) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[11:09]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka það sem kemur fram hjá hv. þm. um meðferð málsins í nefnd og skil það þannig að hann sé áhugamaður um að koma þessu máli áfram, en réttilega bendir hann á að það er ekki alveg einfalt því að auðvitað þarf að skoða vissa þætti málsins. Það sem ég sagði í framsöguræðu minni var að gæta þarf að því --- það er ekki víst að okkur takist það í vor, það má geymast til haustsins --- þegar endanlega verður ákveðið hve miklir fjármunir eiga að koma til ríkissjóðs af skatti á bifreiðar hvort ástæða sé til viðbótar lituninni og dísilskattinum að leggja á gjöld vegna t.d. þunga bifreiðarinnar. Ég veit að það er það sem vörubílstjórarnir hafa af áhyggjur af því að þeir keyra léttari bíla en flutningabílarnir sem eru miklu meiri að þyngd en slíta hins vegar vegunum miklum mun minna. Slíkt þekkist í Evrópu eins og ég lýsti reyndar vel í minni ræðu þar sem ég benti á að alls konar önnur gjöld en litunargjöld og dísilskattar eru lagðir á í þeim löndum. Okkur ber að skoða þetta vel hvort sem okkur tekst að gera það nú eða við gerum það í sumar, sem ég held að sé betra, og koma með ný frumvörp í haust. Þetta þarf að skoða vel. En það er auðvitað sjálfsagt að nefndin fái upplýsingar þar að lútandi.

Þetta hefur að sjálfsögðu líka með það að gera að Vegagerðin fái sitt fé. Um það hvort halda eigi útseldu verði á olíu undir bensínverði í öllum tilvikum mótast m.a. af því hvort gripið verður til viðbótargjaldtöku umfram dísilskatta á vissar tegundir bifreiða.