Vörugjald af olíu

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 11:11:11 (5411)

1997-04-18 11:11:11# 121. lþ. 106.5 fundur 527. mál: #A vörugjald af olíu# (lituð olía) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[11:11]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil draga það sérstaklega fram að þegar menn veltu fyrir sér að hverfa frá þungaskatti yfir í olíugjald, þá studdu það flestir aðilar sem komu að málinu og vildu strax fara yfir í hina lituðu olíu. Það var tæknilega ekki hægt og þess vegna gripu þeir til frestunaraðgerða á sínum tíma. Það var samkomulag um það. Þetta kerfi er að mörgu leyti umhverfisvænna fyrirkomulag en var áður. Það er hægt að færa rök fyrir því. En það sem ég sé sérstaklega ástæðu til að draga fram og gerði áðan í mínu andsvari eru áhyggjur sjálfstæðra vörubílstjóra við þessa kerfisbreytingu sem þarf að skoða mjög vandlega. Það er sótt að þeirri stétt manna úr annarri átt. Við vitum að starfsumhverfi þeirra hefur ekki að öllu leyti verið mjög heppilegt hin síðari ár og það er mjög brýnt að sú endurskipulagning sem hér á sér stað taki mið af sjónarmiðum þeirra því það eru þeir sem koma til með að vinna við kerfið. Lagasetning á alltaf að taka mið af hagsmunum og í meginatriðum er þessi kerfisbreyting í rétta átt, en það eru mörg álitamál sem verður að skoða vandlega. Ég skil hæstv. fjmrh. þannig að hann sé reiðubúinn til að standa að upplýsingaöflun varðandi það mál sem hv. efh.- og viðskn. kann að kalla eftir.