Vörugjald af olíu

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 11:12:49 (5412)

1997-04-18 11:12:49# 121. lþ. 106.5 fundur 527. mál: #A vörugjald af olíu# (lituð olía) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[11:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Það er gamall kunningi hér í þingsölum. Sú tilraun til að hverfa frá innheimtu þungaskatts og færa gjaldtökuna yfir í gjalda- og olíunotkun er að sjálfsögðu jákvæð kerfisbreyting. Reynsla af þungaskattskerfinu er ekki góð. Þrátt fyrir ýmsar tilraunir á undanförnum árum til að bæta innheimtu á því er enginn vafi á að enn eru einhver brögð að undanskotum frá því kerfi. Auk þess sem færa má ýmis rök fyrir því að það sé að mörgu leyti ósanngjörn innheimta sem leggst á akstur og þar af leiðandi mun þyngra á þá sem lengstar hafa vegalengdirnar vegna flutninga eða aksturs.

Það er sömuleiðis jákvætt að nú horfir sæmilega með að unnt verði að beita litunartækninni, þ.e. með þeirri aðferð að lita á dreifingarstað eða í gegnum byssu og ekki þurfi að byggja upp tvöfalt dreifingarkerfi fyrir olíuvörur eins og áður var talið nauðsynlegt.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að mjög skynsamlegt sé að auka olíunotkun og fjölga dísilbifreiðum hlutfallslega á kostnað bensínbifreiða eins og kostur er. Það er reyndar nánast ekki vansalaust hvernig þetta hefur verið á Íslandi á umliðnum árum að rekstur til að mynda dísilfólksbifreiða hefur í raun og veru verið svo óhagstæður fyrir venjulegt fólk að það hefur tæpast verið samkeppnisfær valkostur nema fyrir þá sem aka yfir 20 þúsund km á ári eða eitthvað því um líkt, því það er engin deila um það að dísilhreyflar eru umhverfisvænni en bensínhreyflar jafnvel þó að blýlaust bensín sé komið til sögunnar. Orkunýtingin er betri og brennslan umhverfisvænni. Að því leyti til má einnig binda vissar vonir við að sú kerfisbreyting skili því að notkun dísilbifreiða geti aukist verulega á komandi árum á kostnað bensínbifreiða og það er tvímælalaust jákvætt.

Ég tel reyndar mikilvægt við meðferð þessa máls að haga gjaldtökuhlutföllum þannig milli olíugjalds annars vegar og bensíngjalda hins vegar að þau hlutföll verði hvetjandi í átt til aukinnar olíunotkunar. Það sem hins vegar vekur aðallega athygli við stöðu málsins nú og ég hjó sérstaklega eftir í framsöguræðu hæstv. ráðherra er að enn eru upphæðir nokkuð á sveimi, það er enn nokkuð í lausu lofti hvernig á að haga sjálfum upphæðunum eða álagningu gjaldsins til að tryggja að Vegagerðin verði ekki fyrir tekjutapi. Ég held að það sé bagalegt að þurfa að afgreiða breytinguna án þess að meira liggi fyrir um það mál. Æskilegt væri að þingnefnd gæti fengið einhverjar frekari upplýsingar um gjaldupphæðir, hverjar þær þurfa að vera og hvernig þær dreifast miðað við olíunotkun eða vélarstærð í bifreiðunum.

Ég held líka að nauðsynlegt sé að eyða misskilningi sem að einhverju leyti er á ferðinni í þessu máli, og ég hef orðið var við, að þessi kerfisbreyting muni leiða til raunlækkunar á útgjöldum þeirra sem nú borga þungaskatt. Ég hef orðið var við það að menn binda miklar vonir við hana, ég segi nú ekki svo miklar að það sé vegna þess sem ýmsir aðilar styðja þá kerfisbreytingu sem mundu leggjast gegn henni ella, en ég fullyrði þetta vegna þess að ég hef orðið var við það með viðtölum við ýmsa aðila og á fundum með hagsmunaaðilum, svo sem eins og landflutningaaðilum og öðrum slíkum, að ýmsir eru að gera sér vonir um að útkoman verði sú að á ferðinni verði raunlækkun á þessari gjaldtöku. Það held ég að sé misskilningur. Ég held að það hafi ekki verið í sjálfu sér ætlunin að kerfisbreytingin sem slík hefði áhrif á tekjugrunninn sem Vegagerðin og/eða ríkissjóður að þessu leyti standa á. Ég gat ekki betur heyrt en hæstv. fjmrh. væri að staðfesta það að hann hefði ekki í hyggju að tapa út peningum á þeirri breytingu. Þá er auðvitað nauðsynlegt að menn hafi það á hreinu í fyrsta lagi og í öðru lagi komist sem fyrst niður á tölur í þessum efnum, hverjar upphæðir gjaldanna þurfa að verða til að þetta nái fram að ganga.

Ég tek hins vegar undir það sem hæstv. fjmrh. sagði að vel kann að vera að útkoman úr skoðun á þeim málum verði sú að nauðsynlegt sé að gera einhverja tilfærslu innbyrðis milli olíugjaldanna annars vegar og bensínskatta hins vegar og er auðvitað einnig mjög mikilvægt að það liggi fyrir í góðum tíma áður en breytingarnar taka gildi um næstu áramót.