Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 11:18:55 (5413)

1997-04-18 11:18:55# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[11:18]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. sem er að finna á þskj. 880 og er 528. mál þingsins.

Í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á tekjuskatti og barnabótum í samræmi við áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum sem kynnt voru mánudaginn 10. mars síðastliðinn. Með breytingunum er stigið mikilvægt skref í þá átt að draga úr jaðaráhrifum tekjuskatts og barnabóta sem hafa sætt vaxandi gagnrýni á undanförnum árum. Hér á eftir er gerð grein fyrir aðdraganda og meginþáttum þessara tillagna, en nánar er fjallað um þær í athugasemdum við einstakar greinar. Í fylgiskjölum eru sýnd dæmi um áhrif breytinganna á einstaklinga eftir fjölskyldustærð og hjúskaparstétt.

Aðdraganda þessara tillagna má rekja til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið var á um endurskoðun skattkerfisins með það fyrir augum að draga úr jaðaráhrifum þess. Í framhaldi af þessu skipaði ég í ársbyrjun 1996 nefnd með fulltrúum stjórnarflokkanna, sveitarfélaga, fjármálaráðuneytisins og aðilum vinnumarkaðarins. Ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, Ólafur Davíðsson, var skipaður formaður nefndarinnar.

Tilefni endurskoðunar á tekjuskattskerfinu er meðal annars umtalsverð hækkun á skatthlutfallinu frá því staðgreiðslukerfið var tekið upp árið 1988 að langmestu leyti þegar á fyrstu árunum, þ.e. árin 1989 og 1990. Einnig hefur vægi tekjutengdra bóta verið aukið og þar með hafa jaðaráhrif þess aukist. Loks hefur verið tekinn upp sérstakur skattur á tekjur yfir tilteknum mörkum sem enn hefur aukið jaðaráhrif skattkerfisins, þ.e. svokallaður hátekjuskattur.

Allar þessar breytingar hafa breytt ýmsum grundvallarviðmiðunum í tekjuskattskerfinu og í mörgum tilvikum raskað innbyrðis hlutföllum og markmiðum þess. Þá hafa þær raddir sífellt orðið háværari sem telja að háir jaðarskattar og mikil jaðaráhrif í bótakerfunum dragi úr vinnuframlagi fólks og stuðli að skattsvikum.

Í nefndinni hefur verið fjallað um ýmsar leiðir til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjuskatts og bótakerfanna. Einnig hefur verið horft til þróunar og megináherslna í skattlagningu annarra þjóða. Á síðustu vikum og mánuðum hefur umræðan í nefndinni einkum beinst að ákveðnum hugmyndum um lækkun á almenna tekjuskattshlutfallinu, sameiningu barnabótakerfanna í eitt tekjutengt kerfi ásamt lækkun skerðingarhlutfalla og afnámi tekjutengingar í vaxtabótakerfinu. Ekki var þó almenn samstaða i nefndinni um þessar hugmyndir. Meðal annars voru fulltrúar ASÍ með aðrar hugmyndir eins og ég vík að síðar. Hins vegar voru margir nefndarmanna tiltölulega sáttir við hugmyndirnar. Þær tillögur sem kynntar eru í þessu frv. endurspegla þessar hugmyndir að verulegu leyti.

Ég vil reyndar nefna það sérstaklega vegna þess að það vill oft gleymast í umræðunni að nú þegar hafa verið stigin ákveðin skref í átt til að draga úr þessum svokölluðu jaðaráhrifum í skattkerfinu. Þetta á annars vegar við um þá ákvörðun að undanþiggja lífeyrisiðgjöld launþegaskattlagningu en hún kom til framkvæmda á árunum 1995 og 1996. Þessi ákvörðun jafngildir allt að 1,5% lækkun á sjálfu tekjuskattshlutfallinu. Í fyrra voru einnig gerðar umtalsverðar breytingar á barnabótaaukakerfinu sem fólust í verulegri lækkun á tekjuskerðingarhlutföllum við útreikning bótanna. Jafnframt var þá sett ákveðið hámark á tekjuskerðinguna sem miðaðist við fjölskyldur með þrjú börn eða fleiri. Ekkert slíkt ákvæði var í fyrri lögum heldur fóru jaðaráhrifin vaxandi með hverju barni og gátu orðið mjög mikil hjá barnmörgum fjölskyldum.

Um miðjan febrúar kynntu formenn landssambanda ASÍ sameiginlega kjarastefnu sambandanna og hugmyndir um aðgerðir stjórnvalda í skattamálum. Skattatillögur ASÍ voru í meginatriðum samhljóða þeim hugmyndum sem fulltrúar sambandsins höfðu reifað í jaðarskattanefndinni. Gerð var tillaga um að tekið yrði upp nýtt og lægra skattþrep, en þau tvö þrep sem fyrir eru héldust óbreytt. Hér var því gerð tillaga um þriggja þrepa skattkerfi. Ekki voru settar fram mótaðar tillögur um breytingar á vaxta- og barnabótum. Á fundi með forustumönnum stjórnarflokkanna lögðu formenn landssambandanna áherslu á að ríkisstjórnin tæki afstöðu til þessara tillagna sem fyrst því að aðgerðir í skattamálum voru taldar geta haft úrslitaáhrif á kjarasamningaviðræðurnar.

Mánudaginn 10. mars gengu formenn þeirra landssambanda sem gengið höfðu frá kjarasamningum fyrr um daginn á fund forustumanna stjórnarflokkanna og óskuðu eftir tillögum ríkisstjórnarinnar í skattamálum þar sem þær mundu ráða úrslitum um hvort kjarasamningarnir yrðu samþykktir eða ekki. Síðar þann sama dag kynnti ríkisstjórnin hugmyndir sínar um aðgerðir í skattamálum fyrir forustumönnum ASÍ. Þær hugmyndir eru í öllum meginatriðum samhljóða tillögunum í þessu frumvarpi að öðru leyti en því að ekki er að svo stöddu gerð tillaga um breytingar á vaxtabótakerfinu. Gert er ráð fyrir að áfram verði unnið að tillögum um breytingar á vaxtabótakerfinu í því skyni að draga úr jaðaráhrifum þess.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar kemur einnig fram að hún muni beita sér fyrir því að útsvar sveitarfélaga lækki um 0,4% frá því sem nú er, eða tekjuskattur lækki samsvarandi sem þá verði fjármagnað í samráði við sveitarfélögin og voru þær hugmyndir kynntar fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga sama dag og reyndar hafa viðræður haldið áfram þótt nokkurt hlé hafi orðið á þeim nú um sinn.

Ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin valdi aðra leið en fólst í tillögum ASÍ er m.a. sú að ekki hefði verið unnt að hrinda tillögum ASÍ um fjölþrepa tekjuskatt í framkvæmd fyrr en í fyrsta lagi um mitt næsta ár. Auk þess er fjölþrepa kerfi á margan hátt gallað þar sem það er m.a. talið geta leitt til meiri undanskota frá skatti, eins og skýrt kemur fram í álitsgerðum þeirra nefnda sem hafa fjallað um leiðir til að herða skatteftirlit, m.a. nefnda sem kenndar hafa verið við skattsvik, skattsvikanefnda, sem hafa einmitt bent á að mörg þrep og flókið skattkerfi leiði yfirleitt fremur til undanskota en einföld kerfi sem eru á breiðari grunni og með sama skatthlutfall.

Þá yrði framkvæmd skattstaðgreiðslu í fjölþrepa skattkerfi mun flóknari og dýrari en í dag. Það eru ekki rök fyrir fjölþrepa skatti að vísa til þess að aðrar þjóðir búi við það kerfi heldur þvert á móti, því að þetta eru einmitt þau vandamál sem komið hafa upp hjá öðrum þjóðum vegna fjölþrepaskattsins. Af þessu tilefni langar mig til að segja það að við gerum það stundum og sjálfsagt ekkert síður sá sem hér stendur en aðrir hv. alþingismenn, að benda á að eitthvað sé í útlöndum með einhverjum hætti og þess vegna hljóti að vera hægt að taka það upp hér á landi. En stundum í ákafanum bendum við til atriða sem aðrar þjóðir eru óánægðar með að hafa hjá sér og hafa sagt við okkur að þær öfundi okkur af okkar kerfi eins og það er. Þar á meðal er þetta atriði að þær þjóðir sem búa við fjölþrepa skattkerfi hafa einmitt lýst því yfir að Íslendingar hafi tekið gæfuspor 1987 og 1988 þegar skipt var yfir í núverandi skattkerfi, undanþágum fækkað, persónuafslátturinn gerður einn, skattundanþágur fáar, skattstofninn þess vegna breiður og skattkerfið tiltölulega einfalt.

Ef ég vík aðeins að meginatriði þessara tillagna, þá er gert er ráð fyrir að tekjuskattur lækki um 4% fram til ársins 1999. Lækkunin er í þremur áföngum:

Frá 1. janúar 1997 lækkar tekjuskattur um 1,1% og kemur sú lækkun til framkvæmda í staðgreiðslu frá og með 1. maí 1997. Skattalækkun fyrir mánuðina janúar til apríl kemur til endurgreiðslu við álagningu árið 1998. Ég vek athygli á þessu vegna umræðna sem urðu utan dagskrár um störf þingsins í upphafi þessa fundar að í raun er sú ákvörðun, sem er brýnt að taka nú, ákvörðun sem gildir frá síðustu áramótum. Það þurfa menn að hafa í huga. Hins vegar er ekki hægt vegna staðgreiðslukerfisins að gera upp liðna mánuði fyrr en á næsta ári í uppgjöri sem þá fer fram í ágústmánuði og ætlunin er að borga þannig til baka það sem oftekið er eðli málsins samkvæmt fyrir fyrstu fjóra mánuðina enda er nauðsynlegt að fara svona að.

Það verður einnig að segja frá því að í flestum tilvikum fá menn greitt eftir á fyrir maímánuð eins og aðra mánuði. Það eru aðallega starfsmenn hins opinbera, sveitarfélög og ríkisins sem fá fyrir fram greitt og það er þeirra vegna sem er brýnast að flýta þessu tiltekna máli en þá ber að geta þess að við þessar stéttir er að mestu leyti ósamið. Málið er því harla kynlegt þegar maður horfir á allar hliðar þess því að í raun og veru er verið að fara fram á að flýta málinu til þess að geta lækkað skatta í tilefni kjarasamninga hjá fólki sem ekki hafa gert kjarasamninga. (SJS: Það greiðir kannski fyrir samningum.) Það gæti greitt fyrir kjarasamningum og ég veit að hv. þm. sem situr við hlið formanns BSRB er undir áhrifum frá honum þegar hann kallar þetta fram í. Þetta segi ég ekki til að draga úr áhuga mínum á að afgreiða þetta mál í næstu viku, síður en svo, en ég geri mér auðvitað grein fyrir því að nefndin verður að hafa tækifæri til að ræða það hvernig hún vinnur þessi mál. Ég hef átt viðtöl við starfandi formann nefndarinnar, hv. þm. Ágúst Einarsson, og ég held að enginn misskilningur sé á milli okkar að við verðum í sameiningu að finna lausn á því máli. Þá er ég ekki að fjalla um dagskrá þingsins. Hún er auðvitað samin af forsn. þingsins en ekki af ráðherrunum. Sú tillaga sem gerð var þar var tillaga forsn. en ekki fjmrn.

[11:30]

Þetta var útúrdúr eftir að hafa rætt um fyrstu aðgerð í tillögum ríkisstjórnarinnar. Önnur aðgerðin er sú að gert er ráð fyrir að 1. janúar 1998 lækki tekjuskattshlutfallið um 1,9% til viðbótar. 1. janúar 1999 lækkar tekjuskattshlutfallið um 1% enn til viðbótar og miðað við óbreytt útsvarshlutfall frá því sem nú er verður samanlagt skatthlutfall útsvars og tekjuskatts þá komið í 37,98 en það er í dag 41,98. Hér er þess vegna líklega um stórkostlegustu skattalækkun að ræða sem sést hefur, a.m.k. síðustu áratugina, hér á landi ef nokkurn tíma áður.

Gert er ráð fyrir að skattleysismörk verði óbreytt á þessu ári. Þar sem skatthlutfallið lækkar þegar á þessu ári verður persónu- og sjómannaafsláttur jafnframt lækkaður til þess að skattleysismörk allra framteljenda verði óbreytt. Skattleysismörkin munu síðan hækka um 2,5% 1. janúar 1998, aftur um sama hlutfall 1. janúar 1999 og enn um sama hlutfall 1. janúar árið 2000. Þetta þýðir að skattleysismörkin verða komin upp í tæplega 66 þús. kr. í lok samningstímans en þau eru nú um 61 þús. kr. Þessi hækkun er í samræmi við þær forsendur sem aðilar vinnumarkaðarins hafa gefið sér um verðlagsþróun í kjölfar kjarasamninganna og fulltrúar landssambandanna kynntu forustumönnum ríkisstjórnarinnar.

Gert er ráð fyrir að aðrar viðmiðanir í tekjuskattskerfinu taki sömu hlutfallslegu hækkunum og skattleysismörk næstu þrjú ár. Þetta tekur meðal annars til barnabóta, vaxtabóta og þeirra bóta sem finna má í skattkerfinu.

Gert er ráð fyrir að sérstakur tekjuskattur hækki úr 5% í 7% frá 1. janúar 1998. Með öðrum orðum verður svokallaður hátekjuskattur hækkaður mjög verulega, úr 5% í 7%, en þegar tekið er tillit til þess að almenna skatthlutfallið hefur þá þegar lækkað um annað eins, þá verður í raun ekki um hlutfallshækkun að ræða fyrir þá sem hafa tekjur yfir þeim mörkum sem miðað er við þegar lagður er á hátekjuskattur. Tekjuviðmiðunin er meira að segja hækkuð lítils háttar, úr 234.000 á mánuði í 260.000 kr. hjá einstaklingi og úr 468.000 í 520.000 krónur hjá hjónum. Vegna þessarar hækkunar lækkar hæsta skattþrep samkvæmt gildandi lögum einungis um 2% eða úr tæplega 47% í tæplega 45% á sama tíma og skatthlutfallið lækkar almennt um 4% þegar litið er til alls tímans.

Tillaga er gerð um að sameina almennu og ótekjutengdu barnabæturnar og tekjutengda barnabótaaukann í eitt tekjutengt barnabótakerfi. Markmiðið með þessu er að skapa svigrúm til þess að geta jafnframt lækkað tekjuskerðingarhlutföll barnabótaaukans. Samkvæmt tillögunum lækkar hámark tekjuskerðingar úr 15% í 11%, eða um 4%, en það gildir um hjón og einstæða foreldra með þrjú börn eða fleiri. Skerðingarmörkin með tveimur börnum lækka úr 11% í 9% og úr 6% í 5% með einu barni.

Heildaráhrif þessara tillagna eru metin til 5,2 milljarða króna lækkunar á tekjum ríkissjóðs þegar skattalækkunin er að fullu komin til framkvæmda. Á móti þessu vega nokkur atriði svo sem sú ákvörðun Alþingis við afgreiðslu síðustu fjárlaga að halda afsláttar- og bótaliðum í tekjuskattskerfinu óbreyttum á þessu ári. Sú tillaga var gerð af mér og talsvert rædd í tengslum við afgreiðslu fjárlaga í desember sl. Einnig skilar niðurfelling hlutafjárafsláttar nokkrum tekjuauka eða kannski minnkandi tekjutapi, þ.e. að þessu ári frátöldu því mér sýnist, og skýt ég því hér inn, að á þessu ári verði frádráttur vegna hlutabréfakaupa sl. árs talsvert meiri en gert er ráð fyrir í fjárlögum. Áætlun fjárlaga ef ég man rétt er upp á 650 milljónir en sjálfsagt má gera ráð fyrir því að ríkissjóður þurfi að greiða upp undir milljarð vegna hlutabréfakaupa. Og enn til fróðleiks tel ég að þeir aðilar sem stunduðu fyrst og fremst hlutabréfakaupin hafi verið verðbréfafyrirtæki og aðrir slíkir sem síðan þurfa að kaupa í hlutabréfum fyrirtækja. Þetta eitt skýrir að nokkru leyti hvers vegna hlutabréf hafa hækkað í verði kannski umfram þær forsendur sem efnahagslífið gefur til kynna. En nú er ég kominn inn á allt aðrar slóðir en þær sem tilheyra þessu frv.

Þá er gert ráð fyrir að tekjur af fjármagnsskatti gangi að einhverju leyti til að mæta þessum skattalækkunum. Loks hefur sem fyrr segir verið rætt við fulltrúa sveitarfélaga um að þau taki þátt í kostnaði vegna þessara aðgerða.

Lækkun tekjuskatts um 4% jafngildir um 2% hækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna heimilanna. Skattalækkunin er hlutfallslega mest hjá fólki með lágar tekjur, en minni eftir því sem tekjurnar eru hærri. Ráðstöfunartekjurnar aukast hins vegar hlutfallslega meira hjá fólki með meðaltekjur, enda greiðir lágtekjufólk tiltölulega litla skatta, bæði í krónum talið og í hlutfalli við tekjur og í mjög mörgum tilvikum, ekki síst þegar börn koma til sögunnar, þá fær þetta fólk útgreitt úr skattkerfinu þannig að ráðstöfunartekjur þessa fólks hækka þegar búið er að leggja á það skatta vegna þess eins og allir vita, að af u.þ.b. 200 þúsund framteljendum fá 40 þúsund manns útborgað úr skattkerfinu meira en þeir borga í skatta. Ráðstöfunartekjur fólks á Íslandi í stórum stíl vaxa því við það að lagðir eru á skattar. Þetta er nokkuð sem ég hygg að almenningur eða mjög margir geri sér ekki grein fyrir yfirleitt í sínum daglega þankagangi. Sem dæmi um það hvaða áhrif þetta hefur má nefna að tekjuskattur hjóna með tvö börn og 225 þús. kr. í mánaðartekjur samanlagt --- meðaltekjur eru taldar vera um 250 þús. kr. --- lækkar um 5.100 kr. á mánuði og barnabæturnar hækka um 3.200 kr. Samanlagt hækka því ráðstöfunartekjur þessara hjóna um 8.300 kr. á mánuði eða um 4,3%. Áhrifin eru auðvitað mismikil eftir því hverjar tekjurnar eru og hve mörg börn eru á heimilinu og í fylgiskjölum með frv. er að finna nánari upplýsingar um áhrif tillagnanna miðað við ýmsar fjölskyldugerðir.

Það er ástæða til þess að benda á, vegna þess að nokkuð hefur verið rætt um tekjuskatt að undanförnu, að nýlega svaraði ég fyrirspurn á þinginu frá hv. þm. Árna Mathiesen þar sem kemur fram hvernig tekjuskatturinn og útsvarið hafa verið að breytast á tíu ára bilinu frá 1988 til 1997. Þegar maður lítur brúttó á tekjuskattinn og útsvarið samanlagt hefur hlutfallið hækkað úr 35,2% í 42%. Og eins og ég hef sagt áður átti stærsti hlutinn sér stað á árunum 1989 og 1990. En það sem hefur einnig gerst er að orðið hefur mjög mikill tilflutningur á milli aðila innan þessa kerfis af ýmsum skattbreytingarástæðum þannig að nú, þrátt fyrir að sveitarfélögin fái einungis á milli 11 og 12% í sinn hlut en ríkið fái afganginn sem er vel yfir 30%, verður að segja að sveitarsjóðirnir fái nettó í sinn hlut í dag helmingi meira en ríkið vegna þess að ríkið tekur á sig alla afsláttar- og frádráttarliðina sem í kerfinu eru, en íslenska skattkerfið er eitthvað mest tekjujafnandi kerfi sem um getur í víðri veröld í tekjuskattskerfinu. Þetta verða menn að hafa í huga og þess vegna er hættulegt í samanburði að binda sig alltaf við samanburðinn við kerfið eins og það var, menn verða að horfa á það hverjir fá útborgað í kerfinu, hverjir borga ekki skatta og hverjir borga skatta og hvert þeir skattar renna innan kerfisins. Það gleymist t.d. oft, og ég má til með að segja frá því hér, þegar sagt er, eins og ég hef heyrt haft eftir sumum sveitarstjórnarmönnum, að ekki borgi sig að rétta lítilmagnanum hjálparhönd í gegnum sveitarsjóðina af því að fjmrh. taki 42% í sinn hlut. Fjmrn., ríkissjóður fær ekki eina einustu krónu af tekjum fólks sem er undir skattleysismörkunum, enga einustu krónu. Og ekki nóg með það. Ríkissjóður þarf að taka fjármagn af þeim sem greiða skatta og borga sveitarfélaginu 11--12% af þeim fjármunum sem þetta sama sveitarfélag var að veita viðkomandi einstaklingi. Þetta segi ég að gefnu tilefni því að ónefndur borgarstjóri í stóru sveitarfélagi hélt því opinberlega fram fyrir skömmu að ríkissjóður hirti þessa fjármuni. En þetta þarf hins vegar auðvitað að reka heim til föðurhúsanna. (Gripið fram í: Það þarf þá að vita nafnið á honum.)

Virðulegi forseti. Ég hygg að því verði ekki á móti mælt að með þessum skattalækkunum er verulega dregið úr jaðaráhrifum skatta á bótakerfið enda er hér á ferðinni einhver umfangsmesta skattalækkun sem hér hefur verið framkvæmd. Skattalækkunin og nýgerðir kjarasamningar munu samanlagt leiða til verulegrar kaupmáttaraukningar almennings á næstu árum. Þannig er búist við að á næstu þremur árum muni kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna aukast um 3,5--4% á ári. Þetta þýðir að kaupmáttur heimilanna muni aukast um 21% á fimm árum, þ.e. frá árinu 1995 til ársins 1999. Þetta er ekki aðeins mun meiri kaupmáttaraukning en hér hefur orðið um áraraðir heldur einnig mun meiri aukning en í okkar helstu nágrannalöndum eða u.þ.b. helmingi meiri aukning en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.

Virðulegi forseti. Ég geri það að tillögu minni að þetta mál verði sent til efh.- og viðskn. auk þess sem að það verði afgreitt til 2. umr. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt um sérstakar óskir mínar að hv. nefnd líti á það hvernig eðlilegast sé að afgreiða málið þannig að það skili tilætluðum árangri. Og ég vænti þess að ég og starfsmenn ráðuneytisins megi eiga sem allra besta samvinnu við nefndina um það.