Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 12:16:26 (5420)

1997-04-18 12:16:26# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[12:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég leyfi mér að vitna til orða forseta áðan og þeirrar umræðu sem varð hér í morgun um aðstæður varðandi afgreiðslu þessa máls. Út af fyrir sig hefur það skýrst hvernig þetta hefur gengið fyrir sig en það breytir því auðvitað ekki að það er ekki eins og best verður á kosið þegar verið er að fjalla um stefnumótun í skattamálum sem að hluta til, eins og áður hefur komið fram, á að hafa áhrif og ganga í gildi í áföngum allt fram að aldamótum, þ.e. varðandi skattlagningu tekna allt fram til ársins 2000 og greiðast þá á fyrsta ári næstu aldar.

Varðandi það sem rætt hefur verið um að tengist gildistöku strax um síðustu áramót og nú 1. maí nk. þá tek ég undir það sem hér kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að það er að sjálfsögðu eðlilegt að sýna því skilning og reyna að greiða fyrir því að það geti orðið eins vandræðalaust og verða má úr þessu. Að vísu er það svo að það hleypur kannski ekki á stórum upphæðum hvort tekið er af í staðgreiðslunni samkvæmt lítið eitt hærri skattprósentu, einum mánuði eða þess vegna tveimur lengur en ella. En eigi að gera þessar breytingar á annað borð þá er að sjálfsögðu heppilegast að þær gangi sem fyrst í gildi og að eftiráleiðréttingin verði sem minnst. Og að því leyti til sýnist mér að með því að afgreiða nauðsynlegar lagfæringar á staðgreiðsluprósentunni og ákvæði 4. gr. stafliðar a og að hluta til stafliðar c þá megi á tiltölulega einfaldan hátt, með sjálfstæðu, einföldu frv. láta það ganga í gildi strax sem þarf að liggja fyrir sem lög fyrir 1. maí nk. Og ég lýsi fyrir mitt leyti og míns flokks yfir vilja til þess að skoða það mál.

Hér er eins og kunnugt er á ferðinni, herra forseti, frv. sem tengist gerð kjarasamninga og ,,samkomulagi`` sem tókst með ákveðinni íhlutun ríkisstjórnar. Alþýðusamband Íslands hafði fyrir sitt leyti komið fram með áherslur um tilteknar breytingar í skattamálum sem gengu fyrst og fremst út á það að breyta nokkuð álagningu tekjuskatts á einstaklinga með því að taka upp tvö eða í reynd frekar þrjú skattþrep í stað eins eða tveggja nú. Þetta er breyting sem á sér augljós rök, sem sagt þau að gera skattstigann prógressívari ef svo má að orði komast, hafa prósentuna lægri á lægri tekjur en hærri á hærri tekjur. Það er alþekkt og reyndar mjög víða notað í nálægum löndum. Íslenska skattkerfið, eins og það var við upptöku staðgreiðslunnar, var mjög teknókratískt kerfi. Það var mjög kerfislegt. Fyrir því voru fyrst og fremst færð kerfisleg rök. Það væri um að gera að hafa skattkerfið sem allra einfaldast, prósentur sem fæstar, skattþrep sem fæst og þeir sem mest töluðu fyrir því á sínum tíma, 1988, vildu helst, að því er skilið varð, leggja bara einn skatt á allt landið og miðin, sömu prósentu á allt og alla. Af ýmsum ástæðum og væntanlega réttlætisástæðum ekki síst þá hafa menn nú ekki gengið svo langt. En eftir stendur að íslenska skattkerfið er tiltölulega flatt að þessu leyti. Endurgreiðslukerfið hefur hins vegar verið verulega tekjujafnandi og á það er að sjálfsögðu rétt að benda í leiðinni.

Einnig var Alþýðusamband Íslands með hugmyndir um að endurskoða þyrfti fyrirkomulag bæði vaxta og barnabóta og þá væntanlega fyrst og fremst með það í huga að draga úr hinum illræmdu jaðaráhrifum í kerfinu. Ég er þeirrar skoðunar að það hefði verið freistandi að vinna frekar á grundvelli þessara hugmynda og hef reyndar sjálfur oft á undanförnum árum reifað þá möguleika að leggja hér á tekjuskatt í formi tveggja þrepa kerfis. Hæstv. ríkisstjórn valdi hins vegar aðra leið og í tilboði hennar eða útspili er um verulega frábrugðnar aðferðir að ræða, fyrst og fremst það auðvitað að ríkisstjórnin leggur til almenna tekjuskattslækkun sem gengur upp allan launastigann og færir þar af leiðandi niður núverandi tekjuskattsfyrirkomulag. Lækkunin er samtals upp á ígildi um 4% í áföngum á tveimur eða þremur árum. Á móti kemur að sérstakur tekjuskattur eða hátekjuskatturinn svokallaði hækkar um 2%. Lækkunin á honum er að vísu aðeins minni en hann lækkar engu að síður þannig að hvernig sem menn snúa því á alla enda og kanta þá lækkar að sjálfsögðu hátekjuskatturinn þó að með sanngirni sé hægt að viðurkenna að hann lækki minna en skattar þeirra sem engan hátekjuskatt borga.

Hæstv. ríkisstjórn var sömuleiðis með hugmyndir um breytingar á vaxtabótum og ákveðnar breytingar á barnabótum sem að hluta til gengu að vísu ekki eftir en í þessu frumvarpi er þó um að ræða breytingu á fyrirkomulagi barnabótanna sem fyrst og fremst gengur út á það að allar barnabætur verða tekjutengdar. Tekjutengingin er að vísu lækkuð lítillega á móti en grundvallarbreytingin, kerfisbreytingin, er sú að hér eftir verða allar barnabætur tekjutengdar. Og hvað þýðir það? Það þýðir, herra forseti, að ekki er lengur gerður skattalegur munur á barnafólki og barnlausum fjölskyldum þegar komið er upp fyrir viss tekjumörk, enginn. Þetta er að sjálfsögðu kerfi sem ívilnar eða verðlaunar, ef svo má að orði komast fjölskyldur sem ekki eru með börn, það er þannig. Svo getum við endalaust deilt um tekjumörkin, hvar þau eigi að liggja o.s.frv. En þarna eru menn að mínu mati komnir í ógöngur. Það hefur aldrei verið ætlunin að mínu mati að ganga svo langt í þessari tekjutengingu að hún afnæmi með öllu allan skattalegan mun sem gerður er á barnafjölskyldum annars vegar og hinum. Ef þetta verður til frambúðar þá hljóta að koma upp á næstu árum spurningarnar um frádrátt á móti, skattafrádrátt vegna framfærslu barna eða einhverjar slíkar aðgerðir til þess að eftir standi einhver greinarmunur sem þarna er gerður á. Það liggur algjörlega í hlutarins eðli og enginn maður getur mælt á móti því að framfærslubyrði barnafjölskyldna er meiri en hjá barnlausu fólki og það er ranglátt skattkerfi sem ekki gerir einhvern greinarmun þar á, burt séð frá tekjum.

Það er væntanlega fyrst og fremst með breytingum á barnabótunum og svo auðvitað með breytingu á almennu skattprósentunni sem hinn illræmdu jaðaráhrif eiga eitthvað að lækka. En ég verð að láta það álit mitt strax í ljós, herra forseti, að því miður er þarna ekki valin árangursríkasta leiðin, að mínu mati, til þess að takast á við það vandamál. Það hefði mátt gera með árangursríkari aðferðum sem jafnvel hefðu getað orðið útgjaldaminni fyrir ríkissjóð en skilað áhrifunum betur til þeirra sem þyngsta byrðina bera af jaðaráhrifunum á lægri tekjubilunum nú. Það er harla nöturlegt að þetta skuli gert, ákveðið svona, áður en svonefnd jaðarskattanefnd lýkur störfum og án tengsla við marga aðra þætti í skattkerfinu og utan skattkerfisins sem þarna þarf að taka á samtímis. Ég nefni vaxtabætur, tekjutengdar endurgreiðslur námslána og ég nefni tekjutengingu bótaliða í almannatryggingakerfinu. Og talandi um það, herra forseti, þá er það líka mjög bagalegt að ekki skuli liggja fyrir hér og nú við þessa umræðu endanleg og skýr niðurstaða hæstv. ríkisstjórnar hvað varðar upphæðir tryggingabóta og atvinnuleysisbóta í kjölfar þeirra launabreytinga sem nú eru að ganga yfir á vinnumarkaði. Nú eru menn búnir að smíða sér það vandamál með misráðnum breytingum á síðasta þingi að um þetta þarf að taka pólitíska ákvörðun og jafnvel semja eða eiga í hrossakaupum hverju sinni í stað þess fyrirkomulags sem áður var við lýði og var einfalt og skýrt, þ.e. að þessar bætur tóku sjálfkrafa mið af launaþróun í landinu. Kaupmáttur þessara hópa, ellilífeyrisþega og atvinnulausra var sjálfkrafa tengdur við launaþróunina á almennum vinnumarkaði. Og er það er ekki sanngjarnt? Er eitthvað óréttlátt við það? Vilja menn endilega hafa valdið í höndunum í hvert einasta sinn sem launabreytingar eru gerðar og kjarasamningar eru gerðir til þess að ákvarða með pólitískum hætti lífskjör þessara hópa öðruvísi en annarra í landinu? Af hverju? Ef menn eru þeirrar skoðunar að menn séu ekki með réttar upphæðir á ferðinni þá geta menn lagfært það. Ef menn vilja stilla upphæðir atvinnuleysisbóta eða ellilífeyris með einhverjum öðrum hætti miðað við greidd laun þá er það eins skiptis aðgerð að rétta af, hækka þá vonandi, kaupmátt eða bæta kjör þessara hópa. En mér finnst það ógeðfelld hugsun að menn skuli þurfa að hafa þetta þannig að um þetta þurfi að taka einhverjar pólitískar ákvarðanir í hvert einasta skipti. Vilja hæstv. ráðherrar endilega hafa það þannig að í hvert einasta sinn sem almennir kjarasamningar eru gerðir í landinu eða fjárlög afgreidd í tengslum við þá, þá þurfi þeir að taka pólitískar ákvarðanir um lífskjör tugþúsunda manna í staðinn fyrir að byggja þarna á einhverri tengingu eða miðmiðun sem tekur mið af hagþróun í landinu og launabreytingum?

Herra forseti. Um málið vil ég síðan segja þetta almennt: Í fyrsta lagi er ég í grundvallaratriðum ósáttur við þá aðferð sem hér varð fyrir valinu, sérstaklega nú í ljósi ríkjandi efnahagsaðstæðna í landinu. Það er að mínu mati efnahagslega rangt, vitlaust, að gera núna kjarasamninga í veigamiklum mæli á kostnað ríkissjóðs vegna þess að í fyrsta lagi er meira svigrúm fyrir hendi úti í atvinnulífinu nú til að skila launabótum en hefur verið um langt árabil. Afkoma atvinnulífsins er einfaldlega betri og þess vegna átti að senda reikninginn fyrir kjarabótum þangað, en ekki á ríkissjóð. Vegna þess að ríkissjóður er heldur ekki aflögufær. Vegna þess að það þarf á auknum fjármunum að halda til þess að lagfæra heilbrigðiskerfið og við þurfum að leggja meira í menntamál. Um það eru allir sammála, a.m.k. á sunnudögum þegar þeir halda fallegu ræðurnar um gildi menntunar. Og ef einhver afgangur yrði þá eigum við að nota hann til að borga niður skuldir vegna þess að óheyrilega stór hluti af tekjum ríkisins á hverju ári fer nú í fjármagnskostnað. Allar aðstæður eru því þannig hvað varðar afkomu aðila vinnumarkaðarins eða atvinnulífsins annars vegar og ríkissjóðs hins vegar og reyndar má bæta sveitarfélögunum við, því þau hafa mörg hver verið að safna skuldum með ískyggilegum hraða undanfarin ár, að það er efnahagslega óskynsamlegt að lenda einu sinni enn í þessu fari. Við þær aðstæður að menn eru að vinna sig í gegnum djúpar lægðir í efnahagsmálum þá getur að sjálfsögðu verið eðlilegt að ríkissjóður taki að einhverju leyti þátt í að tryggja tiltekin lágmarkslífskjör í landinu með þátttöku í kjarasamningum þegar þannig ber að, enda sé það gert við þær aðstæður að það sé réttlætanlegt. Og ég sem svona keynes-isti ætla síðastur manna að fara að neita því. En núna eru ekki þær aðstæður. Alls ekki núna.

[12:30]

Þá kemur að einum rökum enn, herra forseti, gegn þessari aðgerð, gegn almennri skattalækkun nú sem inngrip inn í kjarasamninga og sú röksemd er hættan á þenslu. Það er auðvitað þannig að við þær aðstæður sem núna blasa við, þegar mjög miklar stórframkvæmdir eru í gangi eða eru að fara af stað og þegar þó nokkur ástæða er til að hafa áhyggjur af því að það sé að myndast viss spenna --- kannski aðallega fjárfestingarspenna en ekki endilega spenna vegna óheyrilegrar kaupmáttaraukningar, þá er skattalækkun mjög óskynsamleg efnahagsleg stjórnunaraðgerð. Það held ég að hver einasti maður sem hefur einhvern tímann blaðað í kennslubók í fyrsta áfanga í hagfræði hljóti að vita. Það er bara gegn öllum lögmálum að bæta þá við út í hagkerfið á nokkrum missirum margra milljarða skattalækkunum. Það er bara eins og menn með fullkomnu óráði hafi rambað á þá niðurstöðu. Það er þannig. Og hver eiga þá að vera stjórntækin til að reyna að halda jafnvægi og utan um það sem eftir er? Ja, ætli Seðlabankinn noti þá ekki þessa einu skrúfu sem hann hefur í gangi núna og það eru vextirnir. Og hvert fara þeir þá á næstu missirum ef þetta fer á þennan veg?

Það er alveg sama hvar borið er niður gagnvart þessum þætti málsins, herra forseti, menn hafa rambað hér á mjög óskynsamlega niðurstöðu. Og mér finnst taka steininn úr þegar þetta er síðan gert í formi almennrar skattalækkunar, líka á hátekjufólk og ekki síst það. Ef menn hefðu þó a.m.k. haft þetta að einhverju leyti prógressíft, ef menn hefðu haft inni í þessu hækkaða skatta á hagnað fyrirtækja þá hefði verið öðru til að dreifa til þess að vega þá að einhverju leyti upp á móti tekjutapi ríkisins, en það er ekki gert. Barnlaust hátekjufólk er sá hópur sem að mínu mati fer best út úr þessum breytingum miðað við það sem til var stofnað og eðlilegt hefði verið að stefna á. Fyrirtækin sleppa eins og venjulega og þau komast upp með það í bullandi gróða að stór hluti af reikningnum vegna kjarabóta í landinu á næstu missirum fer ekki til þeirra heldur til ríkissjóðs. Það er satt best að segja ótrúleg niðurstaða.

Ég held reyndar, herra forseti, að það sé orðin mikil þörf á að einhver viðamikil grundvallarvinna komist í gang, úttekt á mér liggur við að segja undirstöðu skattkerfisins í landinu. Þetta eru búnar að vera meira eða minna hundsbætur sem menn hafa saumað utan á þessa slitnu flík undanfarin ár og það hefur oftar en ekki borið að með þeim hætti að það eru teknar ákvarðanir um afmarkaða hluta þessa máls, skattkerfisins, bótakerfisins og samspil þessara þátta, einhvers staðar úti í bæ og Alþingi og jafnvel ráðuneyti hafa í besta falli einhverja daga til þess að bregðast við því. Og við höfum ekkert komist áleiðis, því miður, undanfarin ár í því að skoða heildarsamhengi þeirra þátta sem þurfa að vinna saman, það er almannatryggingakerfisins --- bótaupphæða hér og tekjutenginga þar, það er skattkerfisins --- upphæða þar, tekjutenginga þar, og það er lífeyrissjóðakerfið og lífeyrisréttindin í landinu og samspil þessara þátta sem allir eru meira og minna hluti af hinu eina og sama öryggisvelferðarneti í landinu. Þetta samhengi og samspil er meira og minna allt í uppnámi af því að menn hafa verið að krukka í þetta á einum stað eftir öðrum með skyndiákvörðunum hér og skyndiákvörðunum þar, tekjutengingarnar eru allar í kross og útkoman er í raun og veru frumskógur og gangverk sem sárafáir menn á byggðu bóli skilja eiginlega nokkurn skapaðan hlut í. Það þarf meira og minna að liggja yfir þessu missirum saman til þess að átta sig á því hvernig þetta verkar.

Allt það sem lýtur að skattlagningu almennings, þ.e. svo við tökum þetta í stórum dráttum --- inngreiðslum í kerfið og greiðslum út úr því, allt það samspil, allt það gangverk þarf að skoðast í samhengi og þá vinnu þarf að fara í. Efh.- og viðskn. Alþingis hefur margreynt að komast eitthvað áleiðis í því máli og það er búið að halda á síðustu tveimur, þremur árum svo ég muni a.m.k. tvisvar sinnum langa fundi og ráðstefnur þar sem menn hafa reynt að átta sig á einstökum þáttum þessa máls. En það sem ég teldi að hæstv. fjmrh. ætti að gera og þó fyrr hefði verið, er að skipa nefnd, bara eina Skattanefnd með stórum staf, sem fengi víðtækt umboð til þess að fara í alla þætti þessa máls. Fara yfir lífeyrisréttindamálin --- stöðuna þar, tekjutengingu eða tekjutengda skerðingu á móti lífeyristekjum, fara yfir bótaupphæðir og tekjutengingar í almannatryggingakerfinu og fara yfir skattkerfið eins og það leggur sig. Og ræða hlutföll í skattbyrði milli t.d. atvinnulífsins og einstaklinga í landinu --- hlutföll í skattbyrði milli beinna skatta og óbeinna. Við þurfum að fara yfir öll þessi mál. Og það er meira en tími til kominn. Þó að ég væri alls ekki sammála breytingunum 1988 að öllu leyti þá voru þær þó að mörgu leyti þannig að þær núllstilltu ýmsar grundvallarstærðir í skattkerfinu og það lagði af stað nýtt kerfi í veigamiklum atriðum en það er líka að verða tíu ára gamalt. Það er búið að krukka í það aftur og aftur, efnahagsaðstæður hafa breyst, kaupmáttur hefur breyst og margt fleira sem kallar á grundvallarendurmat á þessum hlutum.

Ég beini því til hæstv. fjmrh. að hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans velti því fyrir sér hvort ekki sé með einhverjum hætti hægt að koma slíku grundvallarstarfi af stað. Að sjálfsögðu á það þá að vera með þverpólitískri þátttöku allra flokka og allra helstu aðila sem hér eiga undir, eins og t.d. verkalýðshreyfingunni, atvinnulífinu, samtökum aldraðra og annarra slíkra aðila. Mér er að sjálfsögðu ljóst að þar með er starfið orðið mjög umfangsmikið og viðamikið og margir sem að því koma en þannig er þetta mál. Það er sjálft gangverk velferðarþjóðfélagsins sem við erum í raun og veru að tala um þar sem er almannatryggingakerfið, lífeyriskerfið, skattkerfið, inngreiðslur og útgreiðslur úr ríkissjóði. Það er allt heila móverkið. Þess vegna hlýtur starfið eðli sínu samkvæmt (Forseti hringir.) að verða viðamikið ef menn ætla að reyna að ná utan um heildarsamhengi þessa máls.