Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 12:41:46 (5423)

1997-04-18 12:41:46# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[12:41]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Enn einu sinni stöndum við frammi fyrir skattabreytingum sem lið í lausn kjaradeilu en það virðist nánast náttúrulögmál að samningar takist ekki á tvíhliða grunni á almenna vinnumarkaðinum heldur þurfi þar til að koma yfirlýsingar og aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins til þess að launafólk trúi því að launahækkanir skili sér raunverulega í vasa þess. Þetta er nú ekki góð latína að mínu mati.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að samningar á almennum vinnumarkaði eigi að vera algjörlega á forræði og ábyrgð vinnuseljenda og vinnukaupenda og að ríkisvaldið ætti í rauninni ekki að koma þar við sögu nema sem upplýsingagjafi þannig að menn átti sig á því efnahagslega umhverfi sem þeir eru að semja sig inn í. En sannleikurinn er auðvitað sá að reynslan hefur kennt mönnum að þeir verða að fá tryggingu frá ríkisvaldinu sem í áranna rás hefur hvað eftir annað vegið að þeim kjörum sem menn hafa talið sig vera að semja um. Þess vegna hafa málin þróast á þennan hátt, ríkisvaldið kemur að samningum á almennum vinnumarkaði. Og eins og ég segi er ekki óeðlilegt að samningsaðilar vilji fá upplýsingar og tryggingu fyrir því að forsendur samninga standist, að þeim verði ekki kollvarpað með aðgerðum stjórnvalda. Verra er að mínu mati að málin hafa þróast á þann veg að segja má að ríkisvaldið sé að greiða niður laun fyrir vinnukaupendur og það er ekki góð latína að mínu mati.

Svo er aftur annað mál að þessar sífelldu breytingar á skattalögum valda miklum erfiðleikum. Það er oft erfitt að átta sig á þessum tíðu skattbreytingum og ég öfunda satt að segja ekki þá sem starfa á skattstofum landsins, þá sem þurfa að útfæra lögin og vinna eftir þeim, en þeir mega búa við það að sífellt sé verið að gera stórar og smáar breytingar á skattalögum okkar.

[12:45]

Hvað þetta frv. varðar þá fer það út af fyrir sig ekki á milli mála að það hefur í för með sér skattalækkanir og aukinn kaupmátt fyrir marga þó að þær eigi að koma fram á alllöngum tíma og að nokkru leyti ekki fyrr en á næsta kjörtímabili eða næstu öld. Það er hins vegar dreifing þessara aðgerða á þá sem þeirra eiga að njóta sem hlýtur að vera stærsta gagnrýnisatriðið, en þar stöndum við því miður rétt eina ferðina frammi fyrir því að lægst launaða fólkið situr eftir, fær ekki þann skilning og stuðning sem því ber og sem menn sí og æ lýsa yfir að þeim beri. Raunin er sú að það eru þeir tekjuhæstu sem hagnast mest. Það segir að vísu hér í grg. að skattalækkunin sé hlutfallslega mest hjá fólki með lágar tekjur, sem er nú fullyrðing sem stenst illa þegar fylgiskjöl eru skoðuð, töflur sem eiga að sýna áhrif þessara breytinga á ráðstöfunartekjur fólks. Þar vantar raunar nokkuð á þær upplýsingar. Það vantar dæmi um útkomuna fyrir þá allra tekjulægstu. Í þessum töflum er ekki farið neðar en í 75 þús. kr. atvinnutekjur á einstakling á sama tíma og menn eru að berjast fyrir 70 þús. kr. lágmarkslaunum og menn eygja möguleika á þeirri upphæð í laun á næstu öld eða um aldamótin. Það væri út af fyrir sig kostur og ávinningur ef hluti þessara lúsarlauna lenti ekki í skattlagningu. En nú er það svo að skattleysismörkin eru talsvert neðar, þau eru aðeins í kringum 60 þús. kr. nú og ná ekki einu sinni upp í rúmlega 65 þús. kr. eða 65.585 kr. fyrr en árið 2000. Og ég er satt að segja undrandi á því að verkalýðshreyfingin skuli ætla að sætta sig við þessa niðurstöðu en frá henni hefur nú ekki heyrst mikið um nákvæmlega þetta atriði, þ.e. að þeir allra lægst launuðu sem margsinnis og endalaust fá að heyra þann söng að þeirra hlut verði að rétta, lægstu launin verði að hækka, bæta verði kjör hinna lægst launuðu o.s.frv., að ríkisvaldið taki þá í raun af þeim þá aura sem samningarnir kveða á um. Ég hefði kosið aðra útfærslu en kemur fram í þessu frv. og vissulega gengu hugmyndir verkalýðshreyfingarinnar í aðra átt. Hugmyndir hennar hefði ég talið að leiddu til sanngjarnari og réttlátari niðurstöðu. En í máli hæstv. fjmrh. kom fram hér áðan að sú leið hefði verið illfær og við þekkjum þær röksemdir en það er nú svo að einföldun og skilvirkni kerfisins fer ekki alltaf saman við hugmyndir okkar um sanngirni og réttlæti. Fyrst og fremst er þetta auðvitað spurning um vilja.

Það er annað sem mér hefði fundist enn brýnna heldur en almenn lækkun tekjuskattsprósentunnar og það er veruleg hækkun skattleysismarkanna. Þau hafa farið hlutfallslega lækkandi að undanförnu miðað við þær reglur sem giltu fyrir nokkrum árum. Ef þær viðmiðanir hefðu gilt áfram væru skattleysismörkin nú vel yfir 70 þús. kr. og þá hefðu taxtahækkanir komið hinum lægst launuðu verulega að gagni. Að hækka lægstu launin og skattleggja þau svo getur ekki talist kjarabætur fyrir þetta fólk. Og ég hlýt að minna á margendurteknar yfirlýsingar fjölmargra stjórnmálamanna um nauðsyn þess að hækka verulega skattleysismörkin. Það var t.d. eitt aðalmál kosningabaráttunnar fyrir sex árum þar sem menn kepptust við að yfirbjóða hver annan en þau loforð voru ekki efnd og því er nú svo komið að við hækkun lægstu launa lendir hækkunin að meginhluta í skatti. Ég hefði sem sagt viljað sjá verulega hækkun skattleysismarka fremur en almenna lækkun skattprósentunnar og ég beini því til hv. efh.- og viðskn. að fara vel ofan í það hvernig þessar aðgerðir koma út gagnvart fólki sem hefur undir 75 þús. kr. atvinnutekjum á mánuði, vegna þess að töflurnar sem eru birtar hér sem fylgiskjöl gera ekki ráð fyrir lægri tekjum en 75 þús. kr. Menn verða auðvitað að gera sér grein fyrir því að það eru ýmsir á 50--60 þús. kr. mánaðarlaunum sem eygja nú þann möguleika að potast upp í 70 þús. kr. mánaðarlaun á næstu árum og það er nöturlegt fyrir þetta fólk að sjá fram á að það bæti stöðu þess nánast ekki neitt.

Tilfæringarnar með hátekjuskattinn eru sérkapítuli sem ég ætla ekki að fara mikið út í. Kvennalistinn hefur stutt sérstakan skatt á háar tekjur og út af fyrir sig talið að það ætti að miða við allháar tekjur. Ég hefði talið það algjöran óþarfa að útfæra þennan lið þannig að útkoman verður lækkun skattbyrði á þennan hóp, einmitt þann hóp sem helst er aflögufær. Og þá er ég auðvitað enn að hugsa um möguleikana á því að tryggja betur kjör og aðstæður hinna allra lægst launuðu. Við eigum auðvitað að horfast í augu við það að fólk með lægstu launatekjur á ekki möguleika á mannsæmandi lífi, ekki samkvæmt þeim viðmiðunum sem við höfum í þessu velsældarþjóðfélagi. Það eru vinnukaupendum til vansa að bjóða fólki upp á laun sem ekki duga til brýnustu nauðsynja. Krafan um 100 þús. kr. lágmarkslaun er í rauninni afskaplega hógvær. Og það er dapurlegt að ekki skuli vera hægt að ná samstöðu um að setja löggjöf um sómasamleg lágmarkslaun hér á Alþingi úr því að aðilar vinnumarkaðarins hafa reynst vanmegnugir að tryggja það með samningum (Gripið fram í: Atvinnurekendur.) --- aðilar vinnumarkaðarins. Slík þingmál hafa margsinnis komið fram hér á Alþingi. Kvennalistinn hefur margsinnis flutt um það þingmál og eitt slíkt liggur nú fyrir Alþingi, að vísu um aðeins 70 þús. kr. mánaðarlaun en almennur vilji stendur ekki til samþykktar slíkra mála hér á Alþingi.

Með þessu frv. er verið að gera nokkrar breytingar á barnabótum. Mér sýnist þær hafa það að meginmarkmiði að hækka bætur til hinna tekjulægri og lækka hjá hinum tekjuhærri og þær eru felldar niður hjá þeim allra tekjuhæstu. Út af fyrir sig er ég sammála þeirri stefnu, þ.e. út frá þeim forsendum sem miðað er við í þessu kerfi. Það er svo aftur annað mál hvort við vildum skoða einhverja aðra útfærslu á þessum svokölluðum barnabótum vegna þess að í rauninni er þetta allt of tengt skattamálunum að mínu mati nema við viljum hreinlega taka það beint inn í skattalögin og útfæra þetta sem persónuafslátt fyrir börn. Það finnst mér vel athugandi en ég ætla ekki að fara frekar út í það núna.

Ég vil aðeins lýsa því yfir að Kvennalistinn mun greiða fyrir því eftir föngum að þeir þættir þessa frv. sem af tæknilegum ástæðum þurfa að fá framgang fyrir mánaðamótin fái umfjöllun og afgreiðslu í tæka tíð, án þess þó að sjálfsögðu að það komi niður á vandaðri athugun málsins. En ef menn vilja leggjast á eitt og ýta þá öðru til hliðar þá ætti að vera hægt að afgreiða þá þætti á nokkrum dögum.