Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 13:59:16 (5428)

1997-04-18 13:59:16# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[13:59]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ástæða til að vekja sérstaka athygli á orðum hæstv. ráðherra áðan. Hæstv. ráðherra sagði að hann óskaði eftir því að sem flestir í láglaunahópunum með 70 þús. kr. og þar undir yrðu nýir skattgreiðendur hjá honum. (Gripið fram í.) Hefur ráðherrann engan skilning á kjörum þessa fólks? Telur ráðherrann virkilega að fólk með 70 þús. kr. sé aflögufært til að greiða í ríkiskassann? Telur hann það virkilega? Hefur ráðherrann ekki meiri skilning á kjörum þessa fólks en svo að hann óskar þess að sem flestir með 70 þús. kr. og þar undir fari nú að greiða skatta til hans? Með öðrum orðum að af þessum örfáu þúsundum sem samdist um fyrir þessa hópa í harðri kjarabaráttu vill ráðherrann sjá sem mest af því koma aftur í ríkissjóð. Þetta er með ólíkindum. Herra forseti. Mig undrar þetta ekki vegna þess að þetta er í samræmi við málflutninginn hjá hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn að vera fyrst og fremst að passa upp á kjör hálaunahópanna og helst bæta þau en vera sífellt með þann markhóp til að ráðast á sem er láglaunafókið og bótaþegarnir.

Herra forseti. Ég vil í lokin segja að hæstv. ráðherra segir að hann telji að hann sé að fara á bak við þá hópa sem búnir eru að semja ef breyta á einhverju í þessu skattafrv. Ég spyr nú bara næsta ræðumann sem ég veit að er formaður BSRB: Er það virkilega svo að ef á að breyta þessu frv. til hagsbóta fyrir fólk með meðaltekjur og láglaunahópana, þá sé verið að koma í bakið á þeim sem búið er að semja við? Þetta eru algjör öfugmæli, herra forseti.