Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 14:52:33 (5438)

1997-04-18 14:52:33# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:52]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Örstutt hér í lokin. Það eru tvær spurningar sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra sem hann hefur ekki svarað. Það er í fyrsta lagi að ég og fleiri höfum undrast að ekki skuli hafa verið reynt í þeim töflum sem fylgja frv. að meta hvaða áhrif þessar skattbreytingar hafa á kjör fólks sem er með tekjur undir 75.000 kr. Ráðherra hefur ekki haft handbær svör við því. Er hann tilbúinn til að beita sér fyrir því að ráðuneyti hans láti vinna slíka útreikninga og þeir verði þá lagðir fyrir þingið og efh.- og viðskn. áður en málið fer til lokaafgreiðslu?

Í annan stað finnst mér hafa komið ítrekað fram í máli ráðherrans að hann sé að gera þessar skattalagabreytingar í fullri sátt við verkalýðshreyfinguna. Ég hef dregið það í efa. Þess vegna spyr ég ráðherrann í lokin: Ef fram kemur ósk frá verkalýðshreyfingunni, ASÍ og BSRB, um breytingar á því frv. sem hér er til umræðu, til að mynda í þá veru sem ég hef verið að lýsa sem eru ekki mínar hugmyndir heldur hugmyndir ASÍ, er hann þá tilbúinn til að hreyfa sig eitthvað í þessu máli eða er þetta mál alveg óumbreytanlegt af hans hálfu? Mér finnst mjög mikilvægt að fá þetta fram af því að ráðherrann hefur ítrekað skýlt sér á bak við það að þetta hafi verið kynnt á úrslitastundu í kjarasamningaviðræðum. Ég skal ekki gera lítið úr því. En ég veit a.m.k. ekki til að þær breytingar, sú útfærsla sem hér hefur verið lögð fram, hafi verið samþykkt af verkalýðshreyfingunni. Þvert á móti tel ég að hún hafi lagt áherslu á að sú mikla skattalækkun sem nú á að renna til hálaunahópanna mundi nýtast betur ef skattalækkunin yrði meiri og rýmri hjá fólki með meðaltekjur og láglaunahópnum.