Fjáraukalög 1996

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 15:10:20 (5446)

1997-04-18 15:10:20# 121. lþ. 106.7 fundur 529. mál: #A fjáraukalög 1996# (uppgjör) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[15:10]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að setja á langa ræðu um þessi fjáraukalög fyrir árið 1996, svonefnd uppgjörsfjáraukalög. Engu að síður finnst mér rétt að nefna fáein atriði og halda þeim til haga í þessari umræðu og í framhaldsmeðferð málsins.

Fyrir það fyrsta vil ég víkja að því sem ráðherrann nefndi og hefur oftlega áður tíundað þá leikfimi sína að draga rúmlega 10.000 millj. frá áður en hann gefur niðurstöðuna úr reikningsdæminu um afkomu ríkissjóðs. (Fjmrh.: Milljarð .... ) 10.100 millj. kr. dregur ráðherrann frá og segir að ef þessi útgjöld hefðu ekki orðið þá hefði halli ríkissjóðs orðið svona mikill eins og hann tilgreinir. Hann gerir það auðvitað réttilega. En það sem mér finnst athugavert við þá leikfimi hæstv. ráðherra er að þau útgjöld eru staðreynd. Til þeirra var stofnað og því er ekki hægt að gefa sér að veruleikinn sé eitthvað öðruvísi en hann er. Það á ekki í málflutningi hæstv. fjmrh., virðulegi forseti, að láta í það skína sí og æ að hallinn sé einhver annar en hann varð. Ráðherrann á að vera maður til að standa við þá ákvörðun sína að eyða 10.000 millj. kr. sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum. Hann hefur að sumu leyti ágætar varnir fyrir þeirri ákvörðun sinni að grípa til þess að innleysa spariskírteini fyrir liðlega 17.000 millj. kr. Hann rakti það áðan að með því teldi hann sig hafa sparað um 2.000 millj. kr. á næstu árum. Það kann allt að vera satt og rétt miðað við gefnar forsendur um vaxtastig á næstu árum, að ríkisútgjöldin hefðu orðið 2 milljörðum kr. meiri ef innlausnin hefði farið fram eins og til stóð. En það er ekki sjálfgefið að þar með eigi menn að grípa það ráð sem ráðherrann tók því menn geta líka fundið út að menn spara útgjöld ef þessum 10.000 millj. kr. hefði verið varið til aðgerða á öðrum sviðum sem vissulega er þörf á og vantar fé til. En ráðherrann tók það vald af Alþingi að ráðstafa peningunum. Ég tel að ráðherra eigi að gera sem minnst af því að láta Alþingi standa frammi fyrir gerðum hlut í þessum efnum. Menn geta reiknað það út hvað ríkissjóður eða þjóðfélagið hefði sparað ef menn hefðu varið þessum 10.000 millj. kr. í vegagerð eða samgöngubætur. Hver hefði sparnaður þjóðfélagsins orðið af þeirri aðgerð á næstu árum borið saman við að gera ekki neitt, eins og hæstv. ráðherra vill helst í samgöngumálum?

Það má vissulega færa rök fyrir því að fullkomin ástæða hefði verið til þess að verja þeim 10.000 millj. kr. í aðra hluti en ráðherrann ákvað. Ég vil andmæla því að það sé einhver endanlegur og heilagur sannleikur að það hafi verið hið eina rétta svar að eyða þessum 17.000 millj. kr. í að innleysa umrædd spariskírteini. Því fer fjarri að ég sé sammála því. Og ég dreg í efa þá fullyrðingu ráðherrans að sá sparnaður um 2 milljarða kr. sé einhlítur, því sparnað á öðrum sviðum sem menn hefðu getað náð fram með því að verja fénu á annan hátt verður auðvitað að reikna út líka og bera síðan saman þá ráðstöfun við þá sem ráðherrann greip til.

[15:15]

Varðandi frv. sjálft má segja að fram eru komin helstu atriðin í því. En það er rétt að nefna þau til að halda þeim til haga. Það fyrsta er að ráðherrann eða ríkissjóður fékk mun meiri tekjur af skattstofnum sínum en gert var ráð fyrir vegna almennrar uppsveiflu í efnahagslífinu, fékk um 7 þús. millj. kr. meira í tekjur en fjárlög gerðu ráð fyrir. Þrátt fyrir það tekst ráðherranum ekki að skila ríkissjóði hallalausum og hefur hann nú bráðum verið fjmrh. í sex ár og nýtur þess vafasama heiðurs að skuldir ríkissjóðs hafa aldrei vaxið jafnmikið og einmitt í ráðherratíð hans, ráðherratíð núv. fjmrh. Reynslan af Sjálfstfl. í fjmrn. er sú að þar er um að ræða metskuldasöfnun á þessu tímabili, jafnvel skuldasöfnun við hagstæðustu skilyrði eins og á síðasta ári þegar ríkissjóður fékk um 7 þús. millj. kr. í tekjur af tekjustofnum sínum umfram áætlanir fjárlaga. Það er rétt að halda þessu til haga þannig að þeir sem fylgjast með þessari umræðu hafi sanngjarnari og raunsannari mynd af frammistöðu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum en ætla mætti af málflutningi hæstv. ráðherra.

Það má líka nefna að sparnaðaráform gengu ekki eftir sem skyldi eða eins og ríkisstjórnin ætlaðist til. Þannig má nefna að útgjöld urðu um 6 þús. millj kr. umfram það sem áætlað var í fjárlögunum á nokkrum málefnasviðum. Þar er mikilvægast að nefna, virðulegi forseti, að áform ríkisstjórnarinnar um samdrátt í útgjöldum til heilbrigðismála fóru algerlega í vaskinn. Fram kemur í þessu fjáraukalagafrv. að útgjöld í heilbrigðiskerfinu umfram það sem gert var ráð fyrir með fjárlögunum eru tæplega 1.300 millj. kr., 1.290 millj. kr., þannig að það sem átti að sparast, hagræðingin sem átti að nást, gekk ekki eftir. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skiptið sem áform ríkisstjórna ganga ekki eftir hvað varðar niðurskurð eða sparnað í heilbrigðiskerfinu.

Það er augljóst mál að mínu viti að auka verður fjárframlög til heilbrigðismála. Það er nokkuð ljóst að Alþingi getur ekki náð þeim markmiðum sem það hefur sett sér ár eftir ár í heilbrigðismálum, þau eru óraunhæf. Því verður að auka þau fjárframlög strax í fjárlagafrv. en ekki með fjáraukalögum eftir á. Og það er nauðsynlegt að mönnum sé ljóst, sérstaklega framsóknarmönnum sem fara með þennan málaflokk í ríkisstjórninni, að það er ekki skynsamlegt þegar ríkissjóður fær uppsveiflu eins og nú eftir nokkurra ára magurt tímabil, að efnahagsbatanum upp á nokkra milljarða kr. skuli öllum slakað út í beinum skattalækkunum. Hvaða yfirlýsing er fólgin í því af hálfu stjórnarflokkanna? Það er sú yfirlýsing að menn ætla ekki að setja meiri peninga í heilbrigðismálin en fjárlagafrumvörp undanfarandi ára hafa borið með sér, þ.e. stjórnarflokkarnir ætla að halda áfram þessum slagsmálum fyrir óraunhæfum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu.

Ég tel það óskynsamlegt í hæsta máta þegar menn búa við fjársvelt undirstöðukerfi í þjóðfélaginu, að loksins þegar koma inn peningar í ríkissjóð til þess að geta varið í þann málaflokk, þá skuli þeim öllum dengt út aftur í gegnum skattalækkanir. Og þeim er dreift þannig að því tekjuhærri sem menn eru, þeim mun meira fá þeir til sín til baka. Það er verið að senda þau skilaboð að áfram eigi að skattleggja sjúklinginn beint í samskiptum hans við heilbrigðiskerfið með svonefndum þjónustugjöldum í því. Þau gjöld taka mjög lítið mið af efnahag sjúklingsins. Tekjunum er þannig dreift út eftir tekjum en gjöldunum er ekki jafnað út eftir stöðu sjúklinganna. Þetta mundi einhver kalla að væri ekki félagsleg aðgerð eða jafnaðarmannastefna.

Herra forseti. Það er svo sem ástæða til að nefna fáein atriði til viðbótar en ég er að hugsa um að láta staðar numið að þessu sinni, enda mun okkur gefast færi á að ræða þetta frv. frekar áður en þing fer heim nú í vor þar sem það verður væntanlega eitt af þeim frumvörpum sem afgreidd verða sem lög áður en þinghaldi lýkur nú í vor.