Fjáraukalög 1996

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 15:28:33 (5447)

1997-04-18 15:28:33# 121. lþ. 106.7 fundur 529. mál: #A fjáraukalög 1996# (uppgjör) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[15:28]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að segja nokkur orð vegna ummæla hv. síðasta ræðumanns, Kristins H. Gunnarssonar, sem gerði hér að umræðuefni fyrst og fremst eitt atriði í frv. sem snertir innköllun spariskírteina sem hefði að öðrum kosti, ef ekkert hefði verið að gert, átt að kallast inn á árinu 2000. Áður en ég kem að því finnst mér þó ástæða til þess að vekja athygli á ummælum hv. þm. um skattalækkun í tengslum við kjarasamninga en hv. þm. sagði skýrt og skorinort að hann væri á móti skattalækkunum þeim sem efnt var til í tengslum við kjarasamninga og undirstrikaði á þann veg afstöðu sem hefur komið fram hjá Alþb. í umræðunum í dag.

Hv. þm. segir síðan þegar hann fjallar um frv. til fjáraukalaga að hann hafi efasemdir um að rétt hafi verið að grípa til þessara aðgerða og hann bætir því við, sem varð til þess að ég ákvað að taka hér til máls, að með því að greiða 10 milljarða í vexti sé ég í raun og veru að taka það fjármagn frá hugsanlegum framkvæmdum sem ríkið gæti efnt til fyrir sömu fjármuni. Þetta var ótrúleg ræða og enn þá ótrúlegri fyrir þá sök að þetta er gamall nemandi minn í stærðfræði sem talar svona. (Gripið fram í: Það hefur verið þokkaleg kennsla.) Já, það hefur verið þokkaleg kennsla. Ég held að hv. þm., sem ég veit að er ágætur bókhaldari, þurfi að átta sig á því að við erum annars vegar að tala um greiðslugrunn og hins vegar erum við að tala um reikningsgrunn. Þessi aðgerð hefur enga þýðingu fyrir reikningsgrunn, hefur enga þýðingu í ríkisreikningi vegna þess að í ríkisreikningnum eru færðir til gjalda áfallnir ógreiddir vextir. Áfallnir ógreiddir vextir eru færðir til gjalda í ríkisreikningi. Með öðrum orðum, þessi aðgerð hefur engin áhrif á ríkisreikninginn nema þau að á næstu árum mun vaxtakostnaður ríkisins lækka vegna þess að við endurfjármögnuðum vextina með nýjum lánum á betri kjörum sem munaði tveimur prósentustigum að meðaltali og rétt rúmlega það, líklega tveir milljarðar. (Gripið fram í: Ætlarðu að reyna að kenna okkur þetta?) Ja, ég ætla mér nú ekki þá dul að kenna hv. frammíkallanda en hinn þekki ég og veit að er ágætur námsmaður og mér rann auðvitað blóðið til skyldunnar.

Með öðrum orðum, það eina sem gerist er að við köllum inn spariskírteini sem hefðu átt að greiðast árið 2000 ef ekkert hefði verið að gert, borgum vextina með því að endurfjármagna þá með nýjum lánum. Það eru tekin ný lán til þess að borga vextina. Ríkissjóður fær ekkert meira fjármagn fyrir sig, ekkert meira. Nú allt í einu heldur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, það er eins gott að hann er ekki fjmrh., (ÓÞÞ: Nemandi fjmrh.) já, hann er nemandi en ég er nú að reyna að kenna honum enn þá eins og þingheimur heyrir, að hægt sé að nota þessa fjármuni til þess að bæta samgöngur í landinu. Það er alveg hárrétt hjá honum, það væri hægt að taka 10 milljarða að láni og setja í samgöngur en ég er ansi hræddur um að það mundi ekki bjarga miklu og allra síst því sem hann gagnrýndi síðan, sem var að skuldir ríkisins hefðu aukist í minni fjármálaráðherratíð. Hann beit höfuðið af skömminni með því að nefna það síðast. Ja, ég segi nú bara það.

Ef hv. þm. hefði verið fjmrh. og tekið 10 milljarða að láni til þess að setja í vegasamgöngur og útgjöld ríkisins, þá er ég hræddur um að skuldirnar hefðu vaxið dálítið. Það eina sem við gerðum núna er að við slógum lán til að borga skuldir sem höfðu hlaðist upp í vöxtum og þetta hélt ég nú að hv. þm. kynni kannski nánast best af þeim hv. þm. sem hér sitja inni því ég veit að hann er mjög vel menntaður á þessu sviði. Síðan segir hv. þm. að í tíð fyrrv. kennara hans, þess sem hér stendur, hafi safnast mestu skuldir í sögu íslenska ríkisins. Kannski er eitthvað til í því að á fyrri hlutanum hafi safnast upp skuldir. En nú vill svo til að Seðlabankinn er nýbúinn að gefa út rit, Hagtölur mánaðarins, og í því er texti þar sem segir m.a. um skuldir opinberra aðila:

,,Á föstu verði landsframleiðslu hefur skuldin samkvæmt því staðið í stað`` --- það er verið að tala um skuldir ríkissjóðs --- ,,og verðbólgurýrnun óverðtryggðra innlendra og erlendra skulda vegið upp hækkun vegna hallareksturs. Hið sama á við um hreinar skuldir ríkissjóðs, sem stóðu í stað miðað við fast verð milli 1994 og 1995, en lækkuðu 1996 og eiga að lækka enn 1997.`` Síðar í þessum texta segir: ,,Breytingin á skuldastöðunni staðfestir engu að síður hve nærri lætur að rekstur ríkisins hafi verið réttur af eftir gríðarlega skuldasöfnun á síðustu 15 árum.`` Og af því að ég veit að hv. þm. er eða a.m.k. á að vera talnaglöggur maður, þá hlýtur hann að viðurkenna að nú er það að gerast í fyrsta skipti í 15 ár að þessar skuldir miðað við landsframleiðslu eru að lækka. (SvG: Síðan Ragnar Arnalds var fjmrh.) Það er hins vegar alveg hárrétt að skuldirnar jukust mjög mikið, sérstaklega frá árinu 1991 og til ársins 1994. Það liggur fyrir. Og þær jukust líka á árunum 1988--1989, þær nánast tvöfölduðust þar á milli ára. Þetta er auðvitað sannleikur vegna þess að við vitum að skuldirnar hafa verið að hlaðast upp, það hafa verið að falla á vextir vegna lána sem við höfum orðið að taka og staða ríkissjóðs hefur þrengst. Þetta hefur alltaf verið viðurkennt og alltaf legið fyrir, en árangurinn er nú að koma í ljós vegna þess að okkur hefur tekist að rétta þetta af eins og hérna kemur fram í fyrsta skipti í 15 ár. Þá er kallað fram í, alveg frá því að Ragnar Arnalds var fjmrh. Vandinn sem við er að etja er nefnilega sá að við erum alltaf að borga niður lánið hans hv. þm. Ragnars Arnalds. Á hverju einasta ári þarf íslenska þjóðin að greiða niður lán sem tekið var í tíð Ragnars Arnalds og átti að borga stofninn eftir 20--30 ár. Ég man ekki hvenær það var, ég held að það sé 2020 sem á að greiða lánið endanlega, enda hafa menn kallað þetta barnalánið hans Ragnars því að hann vissi það og fleiri sem þá voru í ríkisstjórn, líka hv. frammíkallandi, að þeir mundu ekki borga þetta heldur börnin þeirra og kannski helst barnabörnin. (Gripið fram í.) En við höfum verið að borga af þessu vextina á hverju ári þó að stofninn borgist ekki þá. Og hverjir haldið þið að vextirnir séu? Haldið þið að þeir sé 5% eins og núna í dag? (Gripið fram í: 10%.) Þeir eru yfir 10%. Ætli það séu ekki 13% eða 14% vextir af þessum lánum sem að vísu þótti hagstætt þá þegar það var tekið á sínum tíma. Ég þakka hv. frammíkallanda að minna á þetta því að ég hefði sjálfur gleymt því ef hann hefði ekki verið svo elskulegur að minnast á þetta atriði sem vel passaði í mína ræðu þegar ég var að kenna hv. þm.