Fjáraukalög 1996

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 15:43:04 (5450)

1997-04-18 15:43:04# 121. lþ. 106.7 fundur 529. mál: #A fjáraukalög 1996# (uppgjör) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[15:43]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg nú að ég hafi ekki töluna handbæra, ég hygg að hann hafi tekið árið 1991 með í þessum tölum sínum. (KHG: Miðað við árslok 1990.) Já, miðað við árslok 1990. Það er von að hann vilji ekki taka 1991 með því að það var fyrrv. fjmrh. sem þá bar ábyrgð á fjárlögunum og á því ári gerðist það að það voru opin lánsfjárlög fram á vorið sem gerðu það að verkum að halli á ríkissjóði hefur ekki verið eins í annan tíma og árið 1991 vegna stjórnleysis á því ári hjá þáv. ríkisstjórn. Það tekur hann sig til og gerir núna að mínum syndum. Það er alveg ljóst að skuldir hafa hækkað og hækkað mjög mikið á undanförnum árum. En það er jafnframt ljóst að nú er því lokið og nú hefur komið fram að á undanförnum tveimur árum, og það verður framhald á því, erum við ekki eingöngu búin að ná jafnvægi heldur erum við byrjuð að greiða niður skuldir ríkisins og það er það sem skiptir máli.

Enn á ný verð ég að segja það varðandi það sem rak mig upp í ræðustólinn áðan, að það er áreiðanlega besta fjárfestingin sem ríkið gat farið í að taka lán og borga niður vexti sem voru yfir 8%, um það bil 8,6%, og taka lán á um það bil 6% vöxtum og borga niður þessi lán. Gróðinn af því, ef ég má nota það orð, eru tveir milljarðar sem skila sér á næstu árum. Og það getur ekki verið hugmynd hv. þm. að hann hafi viljað láta okkur greiða þessa 10 milljarða árið 2000 ofan á þá sem þá þurfti að greiða og er ógreitt enn. Menn verða að hafa í huga að menn búa ekki til peninga með þessum hætti. Þessi ráðstöfun var auðvitað skynsamleg, enda hefur það komið fram að Ríkisendurskoðun hefur séð ástæðu sérstaklega til þess að hæla því að menn hafi þó haft djörfung og dug til þess að taka þannig á málum og komið þannig í veg fyrir útgjöld á næstu árum.