Fjáraukalög 1996

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 15:47:37 (5452)

1997-04-18 15:47:37# 121. lþ. 106.7 fundur 529. mál: #A fjáraukalög 1996# (uppgjör) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[15:47]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur lengi brunnið við í íslensku þjóðfélagi að á kosningaárum hafa efnahagsmál og þó einkum fjármál ríkisins farið úrskeiðis. Það gerðist 1991 og ég ætla ekki að saka hv. þm. að eiga þátt í því því að ef ég man rétt var hann ekki á þingi þegar það gerðist á vordögum 1991. Allir þeir sem muna þá tíma vissu hvað gerðist. Í desember voru fjárlög afgreidd með tilteknum halla, ekki miklum. Lánsfjárlögin voru ekki afgreidd fyrr en á vorþinginu, nánar tiltekið í mars, og lánsfjárlögin breyttust smám saman í ný fjárlög þar sem ákveðin voru útgjöld í þeim fjárlögum. Þegar ný ríkisstjórn tók við var ljóst að hallinn yrði langt umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlögum. Gripið var til margvíslegra aðgerða og það er rétt sem hv. þm. segir að þær aðgerðir skiluðu sér ekki fyrr en á næstu árum þar á eftir. Þetta þarf að koma hér fram.

Þegar hv. þm. ræðir síðan um ráðstöfun á fjármagni, þá eigum við val um það hvort við förum í framkvæmdir eða ekki, en við eigum ekki val um það hvort við greiðum skuldir okkar eða ekki. Þær verðum við að greiða. Spurningin var, áttum við að greiða þær 1996 með nýjum peningum sem við tókum að láni eða áttum við að gera það árið 2000? Svarið var mjög einfalt. Þessi lán báru vexti yfir 8%, 8,6%. Hægt var að fá ný lán á miklu lægri vöxtum. Arðsemi þessarar ráðstöfunar var þess vegna sú mesta sem sést hefur um langt skeið. Greiða niður skuldir, spara þannig ríkissjóði milljarða kr. Þá milljarða sem þannig sparast má kannski síðar nota til góðra framkvæmda, t.d. að byggja upp vegi í sýslum landsins.