Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 16:45:18 (5458)

1997-04-18 16:45:18# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[16:45]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétri Blöndal varð eitt mjög alvarlega illa á. Hann sagði: En ríkisstjórnin sem nýtur stuðnings Alþingis. Hvaða Alþingis? Hvað nýtur ríkisstjórnin mikils stuðnings í þingflokki Sjálfstfl. í þessu máli? (Gripið fram í: Það er mikið.) Mikið, jæja. Ég er hins vegar að segja að ef eitthvað kynni að skorta á þann stuðning og ef aðsókn sérhagsmunanna að hæstv. fjmrh. yrði of römm, þá er ég búinn að segja nóg til þess að segja, að við jafnaðarmenn munum gjarnan liðsinna fjmrh. og frjálslyndari arminum í Sjálfstfl. við að koma þessu máli fram að því tilskildu að staðið verði við loforð forsrh. Og af því að við erum að tala um sérhagsmuni og almannahagsmuni, fámennisvald og almannavald, þá vil ég segja eitt: Það voru allra handa sérhagsmunir sem lögðu sig fram og beittu ríkisstjórnina og stjórnarflokkana þrýstingi við að fá þetta frv. í þá átt að hagsmunum sérhagsmunahópanna yrði hlíft. Það þurfti hins vegar almannavald og almannasamtök og verkalýðshreyfingu, sem er ekki beinlínis sérhagsmunahópur vegna þess að það eru á annað hundrað þúsund manns innan hennar raða, til þess að koma ríkisstjórninni aftur á réttan kúrs. Og ég harma það ekki vegna þess að ég er fulltrúi almannahagsmuna í þessu máli og styð það að almannahagsmunir nái fram að ganga.