Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 16:46:44 (5459)

1997-04-18 16:46:44# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÓÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[16:46]

Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Við annars ágæta ræðu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar vildi ég gera stutta athugasemd. Hann vakti athygli á því að hér hefði verið talað allt að því fyrir fulltrúa þann úr neðra og mér þótti það fullfast að orði kveðið. Þó að menn deili nú á um skoðanir, þá held ég að þeir þurfi ekki að ganga svo langt en stundum eru menn náttúrlega orðnir heitir og vilja fylgja fast eftir höggum.

Hæstv. fjmrh. hefur ekkert slakað á þeirri kenningu sinni að skylduaðild verði áfram í íslenska kerfinu og hann flutti magnaða ræðu í dag þar sem hann var að útlista hve stór hluti af tekjuskatti þjóðarinnar færi til samjöfnunar eða til jöfnunar lífskjara hjá Íslendingum þannig að ég held að ekki þurfi að bera það á framsóknarmenn að þeir séu alveg horfnir frá því að jafna eigi lífskjör. Ég held líka að það verði ekki þannig að þeir hviki frá því að styðja þetta frv. Ég á ekki von á því.