Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 17:14:13 (5465)

1997-04-18 17:14:13# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[17:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Nú fannst mér, herra forseti, fara mjög í verra. Menn verða auðvitað að gera hér mjög skýran greinarmun á annars vegar samtryggingarkerfi og sjóðatryggingakerfi sem er hluti af lífeyrissparnaðaruppbyggingunni í þjóðfélaginu, nýtur skattfríðinda o.s.frv. og hins vegar frjáls sparnaðar einstaklinga. Það er enginn að tala gegn honum hér og það er alveg hið besta mál að honum sé líka fundið form til viðbótar eða ofan á hin skyldubundnu, samtryggðu lífeyrisákvæði. En hvers vegna, herra forseti, ættu menn þá ekki líka að hafa val og frelsi í þessa átt? Það er enginn að tala um að þvinga menn. Það er eingöngu verið að spyrja: Af hverju mega ekki félagsmenn í almennum lífeyrissjóði, ef þeir sjálfir svo kjósa, hafa frelsið til þess að segja: Svo vil ég til viðbótar fá að mynda hjá ykkur, minn ágæti lífeyrissjóður, minn prívat viðbótarsparnað. Af hverju ekki? Af hverju eru menn þá allt í einu orðnir á móti frelsinu? Jú, það var helst að heyra á hæstv. fjmrh. hér, sérkennilegum kafla ræðu hans um stjórnunarfyrirkomulag lífeyrissjóðanna, að þar væri pottur brotinn. Þeir væru í raun og veru, vegna einhverra helmingaskipta verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda og af því að ekki væri kosið með tilteknum hætti til stjórna, ekki nógu lýðræðislegir eða eitthvað því um líkt til þess að fara með þetta vald. En bíðum nú við: Ætli hinir séu það endilega? Höfum við einhverja tryggingu fyrir því að hjá þeim sem hér eiga samkvæmt 8. gr. að hafa einkarétt á þessu sé allt gull sem glóir? Og ég verð að segja alveg eins og er að mér fundust þetta býsna alvarleg ummæli hjá hæstv. fjmrh. ef ber að skilja hann sem svo að andstaðan við það að lífeyrissjóðirnir megi falla undir ákvæði 8. gr. sé fyrst og fremst byggð á því að þeim sé ekki treystandi til þess vegna þess hvernig til stjórnunar þeirra er stofnað. Því er ég í grundvallaratriðum algjörlega ósammála og ef menn teldu þar einhverju ábótavant, þá er að sjálfsögðu einnig hægt að hugsa sér að setja um það reglur.