Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 17:18:25 (5467)

1997-04-18 17:18:25# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[17:18]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ætli þetta sé nú ekki mergurinn málsins, þ.e. að þetta sé haft svona í frv. af því að aðrir vilja komast í þetta fé. Og það sem meira er, aðrir eiga að hafa einkarétt á þessu fé. Lífeyrissjóðirnir eiga sem sagt alls ekki að fá að vera með inni í þessari mynd. (Fjmrh.: Þeir geta stofnað sín fyrirtæki.) Það er bara ekki sami hluturinn, hæstv. fjmrh. Þá er verið að þvinga menn út í einhvern skollaleik af því tagi. Ég held að það sé miklu eðlilegra og hreinlegra að hafa löggjöfina þannig að lífeyrissjóðirnir geti gert þetta sjálfir og ég fullyrði: Það eru engin lagatæknileg eða efnisleg vandkvæði á því.

Þetta er að sjálfsögðu þannig að þessi hluti starfsemi lífeyrissjóðanna yrði algerlega aðskilinn. Þetta er séreign hvers og eins einstaklings sem velur að vera með þennan viðbótarsparnað sinn hjá lífeyrissjóðunum og að sjálfsögðu yrði ekki gengið inn á þessa eign, enda væri hún aðskilin ef þyrfti að taka niður lífeyrisréttindin í almenna samtryggða kerfinu. Það yrði algerlega hólfað í sundur. Og það er enginn vandi að setja síðan inn í lögin ákvæði um að um þennan hluta starfsemi lífeyrissjóðanna skuli gilda lög um viðskiptabanka og sparisjóði eða aðrar fjármálastofnanir eftir því sem við getur átt alveg eins og það stóð alltaf í lögunum um innlánsdeildir kaupfélaganna að um þær skyldi gilda eftir því sem við gætu átt lög um viðskiptabanka og sparisjóði eða hvað það nú hét á sínum tíma. Þetta er fyrirsláttur. Það er hreinn og klár fyrirsláttur að það sé nokkur vandi að koma þessu fyrir.

Það má setja mjög stífar reglur um þennan aðskilnað. Það má ganga mjög tryggilega frá því að þetta sé svo. Við getum tekið til samanburðar t.d. reglurnar um fjármálalegan, bókhaldslegan og algjöran aðskilinn rekstrarþátt hjá fyrirtækum sem annars vegar eru með einkokun og hins vegar eru í samkeppni. Ekki hefur vafist fyrir mönnum að skilja þar á milli. Þá er bara áskilinn algjör fjármálalegur aðskilnaður og það gilda sitt hvorar reglurnar, sitt hvor lögin. Samkeppnislögin gilda um þá þætti starfsemi Pósts og síma sem er í samkeppni en önnur lög um restina, ekkert vandamál. Hér er því á ferðinni hreinn fyrirsláttur og það er þá miklu betra að menn komi til dyranna eins og þeir eru klæddir og segi sem er ef það er niðurstaðan að tekin hafi verið um það pólitísk ákvörðun að láta aðra aðila hafa einkarétt á þessu fé.