Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 17:22:05 (5468)

1997-04-18 17:22:05# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., KHG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[17:22]

Kristinn H. Gunnarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það kom fram hjá forseta áðan að hann teldi að andsvar sem borið var fram væri tæplegast andsvar í skilningi þingskapa. Ég vildi því gjarnan fá nánari útlistun hjá forseta á því hvaða merkingu hann setur í það ákvæði þingskapalaganna. Ég er með þingsköpin og þó að það sé kannski ekki nýjasta prentun, þá hygg ég að sú grein laganna sem fjallar um andsvör hafi ekki breyst og ég vil leyfa mér að lesa stuttan kafla úr þeirri grein, með leyfi forseta:

(Forseti (ÓE): Það leyfist.)

,,Forseti getur leyft þingmönnum að veita stutt andsvar við einstökum ræðum strax og þær hafa verið fluttar. Skal þá sá er vill svara bera fram ósk um það við forseta. Andsvari má einungis beina að máli ræðumanns en ekki öðru andsvari. Hvert andsvar má ekki taka lengri tíma en tvær mínútur og skal ræðumanni heimilt að svara því á tveimur mínútum. Heimilt er forseta að stytta ræðutíma hvers ræðumanns í þessum umræðum. Enginn má veita andsvar oftar en tvisvar sinnum hverju sinni.``

Í þessu er enginn áskilnaður um hvað í andsvarinu á að vera. Það er engin skylda að andsvar eigi að vera andmæli við ræðunni. Það má þess vegna vera meðmæli við einstöku efnisatriði úr ræðu ræðumanns sem verður mönnum tilefni til andsvars. Það má líka vera hugleiðing sem kemur upp í huga manna og þeir vilja koma á framfæri í tilefni af einhverju í ræðu ræðumanns þannig að ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna hæstv. forseti segir að hugleiðing hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar til frekari útlistunar á því sem kom fram í máli ræðumanns rúmist tæplega innan ramma laganna um andsvar. En þetta er allt í mestu vinsemd sagt af minni hálfu og ég vænti þess að forseti hugleiði málið ef hann hefur ekki svör á reiðum höndum.