Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 17:24:52 (5470)

1997-04-18 17:24:52# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[17:24]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil hér við 1. umr. um þetta stóra mál leyfa mér að segja örfá orð. Ég get vissulega tekið undir það með hv. 9. þm. Reykv. að í kringum lífeyrissjóðina og þá framtíð sem þeir eiga í vændum ríkir auðvitað ákveðinn trölladans. Þar eru miklir peningar og verða og í lífeyrissjóðakerfinu liggja miklir hagsmunir bæði einstaklinga og atvinnulífs þannig að það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt.

Ég vil strax taka það fram að ég tel mig ekki í hópi ný-framsóknarmanna, enn síður frjálshyggjuframsóknarmanna en hef þó oft leyft mér sem þingmaður og oftar en nokkur á síðustu árum að flytja þingmál um lífeyrissjóðina og vekja athygli á því hvers miklu þeir skipta einstaklinga og þjóðfélagið. Og ég mun fara nánar yfir það á eftir að ég hygg að þegar ég flutti mitt fyrsta þingmál um þetta efni fyrir einum 8--9 árum þá hafi staðan verið sú að lífeyrissjóðunum flestum var búinn bráður bani. Þeir mundu ekki eiga fyrir skuldbindingum sínum og þegar fólkið kæmi að þessum dyrum eftir 20--30 ár, þá fengi það ekki neitt af því eða lítið af því sem það hefði greitt inn. Ég vil því taka undir það með hv. þingmönnum að á þessu sviði á síðustu 8--9 árum hefur orðið mikil breyting til batnaðar og blasir nú allt önnur staða við. En þetta kerfi eins og öll önnur þarf á gagnrýni að halda.

Ég vil segja það um mínar skoðanir, og vil fara nánar yfir það á eftir, að ég vil byggja upp öryggiskerfi í þjóðfélaginu sem sé byggt á mannúð og ég er ekki þeirrar skoðunar að samfélagið eigi að vísa neinum á guð og gaddinn. Við verðum að hafa öryggisnet í samfélaginu en við verðum jafnframt að tryggja að landsmenn flestir sitji við sama borð hvað ákveðið mark varðar. Það er bara eins og á hverju heimili þannig að ég er að því leyti samtryggingarmaður og í mínum málflutningi hef ég aldrei gleymt því að samtrygging þarf að vera til staðar.

Ég er þeirrar skoðunar við upphaf 1. umr. um þetta stóra mál, að gallar séu í þessu frv. En þó tel ég mikilvæga niðurstöðu nást sem snýr að því, ef frv. verður að lögum, þá væru loksins ákveðin grundvallaratriði komin í eðlilegt horf sem varða rekstur, innra eftirlit og fjárfestingarstefnu og eftirlit með lífeyrissjóðunum komin í rammalöggjöf og í það horf sem ég tel að það þurfi að vera. Núna í þeim stríðsátökum sem hafa brotist út, þá heyrist manni svona í fjölmiðlaumræðunni og þjóðfélaginu að flestir telji allt í einu allt frv. til bölvunar og að það sé stórlega gallað á öllum sviðum. Ég tel svo ekki vera. Ég tel að frv., eins og ég hef rakið hér á mjög mörgum sviðum, sé mikilvæg endastöð þar sem Alþingi kemur að þessu máli og setur þessu mikla peningaveldi sem lífeyrissjóðirnir vissulega eru, rammalöggjöf og almenningur á eftir muni búa við meira öryggi en áður hvað þessa peningalegu eign sína varðar.

[17:30]

Ég vara við því að menn leysa ekki þetta stóra mál með styrjöld. Þetta er kerfi sem varðar alla þjóðina. Ég óttast þau átök sem hafa orðið um málið og að þau munu gera þinginu torveldara að ljúka því þannig að mér finnst ýmsir hafa farið offari hvað það varðar.

Auðvitað eru í mínum huga ókostir í þessu frv. sem þingið og nefndin mun fara yfir. Ég tel þá helsta vera að enn skortir valfrelsi einstaklingsins og viðurkenningu á að lífeyrissjóður er samfélag um einstaklinga og stofnaður fyrir þá en ekki einhverja stjórn eða stjórnarmenn. Enn skulu einstaklingar sæta því að vera skyldugir til að greiða í tiltekinn sjóð og geta ekki sagt upp aðild sinni þótt þeir viti að rekstri sé ábótavant, jafnvel þó ljóst sé að réttur sæti skerðingu og afkoma sjóðsins sé léleg miðað við sambærileg kerfi önnur. Þó skal ég viðurkenna að frv., ef það verður að lögum, tekur á því mikilvæga að í gegnum starfsleyfið verður hægt að stöðva rekstur sjóða sem stefna í gjaldþrot eða viðhafa lélegan rekstur þannig að þar kemur mikilvægt öryggisnet hvað þetta varðar en ég sakna þess að þar sé ekki eitthvert valfrelsi.

Ef ég skoða greinar frv., þá ég tel mikilvægt að fara mjög vel yfir 5. gr. Um hana ríkja um þessar mundir háværastar deilur á milli þeirra sem hafa greitt í séreignarsjóðina. Einhver hluti manna hefur alfarið verið í séreignarsjóðum af ýmsum ástæðum, t.d. þeim að mönnum í atvinnurekstri hafa verið búin þau skilyrði að stjórna lífeyrissjóðum launafólksins en fá sjálfir að vera í allt öðrum sjóðum alveg eins og forseti ASÍ hefur t.d. ekki greitt í sjóði Alþýðusambandsins heldur verið í Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. (JBH: Ertu að tala um fyrrverandi forseta?) Ég er að tala um fyrrverandi forseta, hv. þm. Þetta var góð ábending. Ég velti fyrir mér hvernig menn ná samstöðu um þetta mál. Hvað þurfum við í samtryggingu og hvar eigum við að setja þakið?

Ég get tekið undir með hv. 9. þm. Reykv. að ég teldi ekki rétt að binda þakið við einhverja krónutölu eins og menn eru að tala um, að kannski 10, 12, 15 þúsund færu inn í samtryggingarsjóði af þá 100, 120, 150 þúsundum en því sem umfram væri réði einstaklingur. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort eðlilegt væri að hafa þessa prósentu örlítið lægri, að einstaklingurinn mætti kannski ráða því sem væri fyrir ofan 7%, 8%, og hefði frelsi með það hvort hann færi með það inn í eigin sjóði o.s.frv. Ég tel að þingið verði að fara mjög vel yfir þetta mál og ég hygg að það velti á þessari grein hvort hér verður samkomulag. Því vil ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel mjög eðlilegt að allir Íslendingar komi einhvers staðar að samtryggingunni. Þess vegna er það ekkert óeðlileg krafa að svo verði. En hvað prósentutöluna varðar tel ég að menn verði að skoða hvort hún geti verið ívið lægri til þess að ná sátt um málið.

Hér hefur verið dálítið rætt um 8. gr., um það hverjir hafi heimild til þess að veita móttöku viðbótariðgjaldi með samningi um lífeyrissparnað. Þar koma nýir aðilar og hér hafa menn velt því upp í umræðunni eins og hv. 4. þm. Norðurl. e., af hverju lífeyrissjóðirnir hafa ekki einnig þessa heimild. Ég hygg að lífeyrissjóðirnir geti einnig komið inn í þetta og verði að gera það líkt og þau fyrirtæki sem hér eru nefnd. Þeir verða einfaldlega að stofna líftryggingafélag, að vísu samkvæmt EES-reglum og fleiru. Það kostar mikla peninga. Ég hygg að það kosti einar 90 millj. En stendur það fyrir Lífeyrissjóði verslunarmanna í Reykjavík eða SAL-sjóðunum eða öðrum að ganga þá leið? Ég hygg ekki. Til þess að jafnréttisgrundvöllur sé þar, þá hygg ég að þeir yrðu að koma að því máli á þennan hátt.

Það má spyrja sig hvernig stjórn lífeyrissjóðanna er skipuð, hvort það sé rétt gert í þessu frv. Ég ætla ekki að deila um það hér. Ég hefði vel getað séð fyrir mér aðrar leiðir í þeim efnum en þá sem frv. boðar, þ.e. að hinir lýðræðislegu aðalfundir kysu sér sjálfir stjórn o.s.frv.

Ég hef nefnt það að mér finnst mjög mikilvægt að um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna sem grundvölluð er í 36. gr. gildi ströng regla því hérna er nú einu sinni verið að handfjalla eftirlaun almennings á Íslandi.

Ég ætla aðeins í lokin, hæstv. forseti, að minnast á þingmál sem ég flutti árum saman og hét á sínum tíma: Um eigin eftirlaunasjóði. Þar boðaði ég annars konar kerfi og gagnrýndi lífeyrissjóðakerfið eins og það stóð á þeim tíma og vildi ná samstöðu um annað kerfi. Það kerfi hefur oft verið kallað hér sparisjóðsbókin eins og menn leyfa sér í þessari umræðu að kalla séreignarsjóðina. Ég hygg að það sé nú svo með flesta sem eru í séreignarsjóðunum að þeir hafi lært að spara og fari mjög vel með sína lífeyrissjóðsbók. Hún dugir þeim flestum vel og þó að einhver dæmi séu kannski um, eins og hér hefur komið fram, að einhverjir svartir sauðir hafi jafnframt svikist inn á almannatryggingakerfið, þá er auðvitað hægt að koma í veg fyrir það. Ég minni á þetta kerfi sem ég boðaði. Þar gerði ég tillögu um samtryggingu á sínum tíma þó að menn í gagnrýni sinni læsu það jafnan ekki, en þar segir í greinargerð, með leyfi forseta:

,,Ríkið stofnar tryggingasjóð sem tekur við tryggingaþætti lífeyissjóðanna (örorkubótum, barna- og makalífeyrisgreiðslum). Sjóðurinn mundi starfa samhliða Tryggingastofnun ríkisins eða yrði felldur undir hana. Hér yrði um að ræða gegnumstreymissjóð og yrðu greiðslur til hans innheimtar í staðgreiðslunni.``

Þetta var öryggisnetið í því kerfi sem ég lagði til þá. Ég vil að það komi hér skýrt fram að ég tel að séreignarsjóðir eða eigin eftirlaunasjóðir gangi ekki upp nema þetta öryggisnet sé fyrir hendi.

Ég veit ekki hvort ég á, hæstv. forseti, að vera að lengja þessa ræðu mína. Ég tel mjög mikilvægt að þetta mál nái fram á þinginu og menn leggi sig fram, bæði stjórnarflokkar og stjórnarandstaða, að ná um það samstöðu þannig að sem flestir aðilar uni sáttir við sitt að leik loknum.