Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 17:46:37 (5475)

1997-04-18 17:46:37# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[17:46]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil biðja hv. þm. að gæta sín svolítið í hugtökunum þegar hann talar um valfrelsi eins og var reyndar rakið af hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni fyrr í dag. Ef valfrelsi verður leyft í lífeyrismálum, þá þýðir það að t.d. konur og þeir sem minna mega sín í þessu þjóðfélagi hrekjast inn í mjög veika og laka lífeyrissjóði. Það er þetta sem málið snýst um þegar við viljum tryggja ákveðna samtryggingu. Það er gert þannig að allir taka þátt í henni upp að 10%, en hafa hins vegar val með það sem er fram yfir. Um þetta snýst málið.

Eitt vil ég draga fram í umræðuna sem ekki hefur komið fram áður. Það er 4. gr. frv. og ástæðan fyrir því hvað séreignarsjóðirnir eru grimmir í dag, að nú á að greiða inn í samtrygginguna 10% af öllum launum, ekki einhverjum tilbúnum launum eins og hingað til hefur oft verið greitt af og síðan eru menn með viðbótarsparnað sinn í séreignarsjóðunum. Nú er kveðið skýrt á um að greiða á af öllum launum nákvæmlega eins og við gengum frá með opinberum starfsmönnum fyrr í vetur. Hérna er ákveðið grundvallarmál á ferðinni sem menn hafa ekki alveg áttað sig á, en skýrir hörku séreignarmannanna og séreignarsjóðanna sem sjá fram á að þeir verða að taka virkari þátt í samtryggingunni. Þetta er mikilvægt atriði.

Einnig vil ég leiðrétta hjá þingmanninum að illa reknir sjóðir og fjárhagslega veikir sjóðir er liðin tíð. Þeir starfa eftir mjög ströngum reglum nú orðið og SAL-sjóðirnir eru fjárhagslega mjög sterkir og eiga fyrir skuldbindingum sínum. Þróunin hefur verið mjög jákvæð undanfarin ár. Menn verða að hafa það í huga. Það sem er hins vegar meingallað í þessu frv. og ég vil biðja hv. þm. um að tjá sig um það sem er getið um í 2. gr. um aðild á grundvelli ráðningarsamninga, það er sem sé grafið undan kjarasamningsfyrirkomulaginu, því að við getum verið sammála um það að auðvitað eiga að vera sem frjálsastir samningar um þessa hluti. Ég vildi spyrja hv. þm. hvort hann taki undir athugasemdir bæði verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda að þarna er stigið varhugavert skref.