Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 17:54:10 (5478)

1997-04-18 17:54:10# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[17:54]

Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Forseti kynnti hér áðan að dreift hefði verið tveimur fyrirspurnum, annars vegar til forsrh. um lífeyrisrétt öryrkja frá hv. þm. Pétri H. Blöndal og hins vegar til fjmrh. um skuldbreytingar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, einnig frá Pétri H. Blöndal. Við erum að ræða hér lífeyrismál, skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Það sem ég vildi spyrja hæstv. forseta að er af hverju þessar fyrirspurnir hafa verið leyfðar. Ég vil rifja upp að fyrir nokkru kom upp mjög svipað tilvik. Fram kom fyrirspurn sem tengdist ákveðnu þingmáli þar sem forseta fannst, og forseti hefur rétt til að leggja mat á fyrirspurnir, að fram kæmu spurningar sem hefðu átt að koma fram í þingnefnd. Það mál endaði með því að ákveðið samkomulag var gert um það ferli og er í sjálfu sér ekkert meira um það að segja. Hins vegar sé ég hér að fram koma tvö þingmál, fyrirspurnir sem ber að svara, fyrirspurnir sem tengjast því þingmáli sem við erum að ræða. Ég ætla ekkert að segja um efni fyrirspurnanna, allt saman góðar og gegnar upplýsingar, enda fyrirspyrjandi maður sem þekkir vel til lífeyrismála. Vitaskuld eru þetta efnisatriði sem væru áhugaverð bæði í þessari umræðu og umfjöllun nefndarinnar. En, herra forseti, ég skil ekki af hverju þessar fyrirspurnir fá leyfi til framlagningar, af hverju þeim er ekki synjað og þingmaðurinn ætti þá rétt á að bera þær upp til atkvæða. Ég sé engan eðlismun á þessum spurningum. Hér er verið að spyrja um nauðsynlegt iðgjald, heildarskuldbindingar lífeyrissjóða og marga aðra þætti sem vitaskuld koma inn í þá heildarlöggjöf sem hér er verið að ræða.

Herra forseti. Ég óska skýringa. Mér sýnist ekki vera samræmi hér á milli og vildi gjarnan að forseti mundi rökstyðja þá ákvörðun sína að bregðast svona við þessum fyrirspurnum en hafði aðra afstöðu að því er mér fannst hér við það mál sem ég rakti hér áðan.