Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 18:44:16 (5488)

1997-04-18 18:44:16# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[18:44]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi sagði ég ekki að ávöxtun lífeyrissjóðanna væri lítil. Ég sagði að ávöxtun lífeyrissjóðanna væri minni heldur en hún yrði ef þar væri um að ræða samkeppni og vitnaði til Alþjóðabankans í því sambandi. Það er öllum ljóst að kostnaður lífeyrissjóðanna er of hár, alveg eins og mönnum er líka ljóst að kostnaður bankakerfisins er of hár. Þess vegna erum við að gera breytingar á bankakerfinu og sjóðakerfinu. Þess vegna voru gerðar breytingar á setu hinna ýmsu aðstoðarbankastjóra og framkvæmdastjóra á fundum stjórnar Stofnlánadeildarinnar til þess að létta þar á stjórnunarkostnaðinum. Annars held ég að stjórnunarkostnaður og rekstrarkostnaður fjármálastofnana sé óvíða lægri heldur en hjá Stofnlánadeildinni.

Varðandi Lífeyrissjóð sjómanna og samtrygginguna þar, þá er það ekki rétt að mér sé ekki kunnugt um hvernig málum er skipað þar. Þar er um alveg sérstakt vandamál að ræða. Það er auðvitað fyrst og fremst þeirra sem eiga þann sjóð, og ég lít svo á að það sé þeirra sem hafa greitt iðgjöldin, sem eiga hann, þ.e. sjómanna, að grípa í taumana og breyta þar skipan mála. Þeir gætu til að mynda gert það á svipaðan hátt og flugmenn hafa gert hjá sér, með því að hækka iðgjaldagreiðslurnar í sjóðinn. Þær eru greinilega of lágar ef sjóðurinn stendur ekki undir þeim skuldbindingum sem hann hefur tekið á sig. Þessi sjóður hefur eins og ég segi sérstöðu vegna þeirrar sérstöðu sem þessi atvinnugrein hefur og taka þarf á því sérstaklega, en það á ekki að þýða að það þurfi að ganga yfir allt heila lífeyrissjóðakerfið þar sem þessar aðstæður eru ekki fyrir hendi.