Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 19:38:01 (5494)

1997-04-18 19:38:01# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[19:38]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég ætla ekki að sinni að ræða um ósæmandi afskipti aðila vinnumarkaðarins af löggjafarstarfi hins háa Alþingis. Ég hef rætt það áður og ætla ekki að ræða það meira hér.

Við búum við lög frá 1974 og aftur frá 1980 sem voru alveg makalaus. Þau voru mjög einföld. Í lögunum frá 1974 stendur:

,,Öllum launþegum er rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps.`` Punktur.

Ekki er orð um það hvort viðkomandi lífeyrissjóðir gætu yfirleitt greitt lífeyri. Ekki er orð um það hvernig skyldi hagað eftirliti og fjárfestingarstefnu og ekkert meir. Við þetta höfum við búið nánast síðan og það er gott að ekki hafa orðið fleiri slys en þegar hafa orðið. En dæmi eru um lífeyrissjóði sem hafa orðið gjaldþrota og fólk hefur tapað öllu sem það átti.

Staða þessa ágæta kerfis sem menn hafa verið að guma af að sé svo einstakt í heiminum að allur heimurinn öfundi okkur af því var nú þannig 1980 að lífeyrissjóðirnir voru almennt séð allir gjaldþrota nema náttúrlega Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna sem hafði ríkisábyrgð á bak við sig. Þeir voru nánast allir gjaldþrota 1980. Það er ekki fyrr en með verðtryggingunni að staða sjóðanna batnar og hún batnaði ekki bara sisvona upp úr þurru. Það eru ómældar persónulegar þjáningar sem liggja að baki því. Verðtryggingin og mjög háir vextir, sérstaklega upp úr 1986, ollu gjaldþroti hjá einstaklingum og fyrirtækjum í stórum stíl þannig að þetta er ekki einhver staða sem er bara góð allt í einu upp úr þurru. Hún byggir á miklum þjáningum og það geta skuldarar sagt.

Staða sjóðanna er góð á meðan ávöxtunin er umfram 3,5% vegna þess að það eru þeir vextir sem sjóðirnir þurfa til þess að 10% iðgjaldið dugi fyrir þeim réttindum sem þeir lofa. Það verður mjög slæmt ef til þess kæmi og það mun mjög líklega koma til þess að vextir fari niður fyrir 3,5%. Þá þarf að hækka iðgjaldið eða skerða réttindin sem menn eru að lofa. Og af hverju segi ég að vextir munu fara niður fyrir 3,5%? Vegna þess að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna vex ár frá ári og er núna 50 milljarðar á ári og það mun þrýsta vöxtum hér á landi niður í það sem þeir eru erlendis og það er lægri ávöxtun en 3,5% raunvextir þannig að þetta kerfi er ekkert gott eitt sér. En vissulega er það mjög gott eins og það stendur akkúrat núna.

Hv. þm. Ágúst Einarsson gat þess að iðgjaldið hefði ákveðið skattaígildi og það er rétt hjá hv. þm. Iðgjaldið var náttúrlega sett á með lögum. Menn komast ekkert hjá því að borga þetta iðgjald, ekki frekar en skattinn sinn þannig að oft í samskiptum við erlenda aðila hafa þeir flokkað iðgjald í lífeyrissjóð á Íslandi sem skatta, sem renna reyndar ekki til ríkisins heldur til séreignarstofnana sem eru lífeyrissjóðirnir. Þetta iðgjald sem sett var 1974 olli því að lífeyrissjóðirnir uxu yfirleitt. Það var mjög lítil þátttaka í lífeyrissjóðunum fyrir þann tíma, mjög lítil. Lífeyrissjóður verslunarmanna var með eitthvað um 1.000 virka sjóðfélaga 1974. Nú er hann með um 20 þúsund virka sjóðfélaga. Þökk sé skylduaðildinni samkvæmt lögum. Ég bendi á að það er skylduaðildin sem löggjafinn hefur sett á lífeyrissjóðina sem gerir það að verkum að þeir eru svona sterkir í dag, en það aftur á móti gefur löggjafanum ákveðinn rétt til þess að hlutast til um málefni sjóðanna. Núna höfum við haft í tíu ár vexti sem eru umfram 5% og þar af leiðandi batnar staða sjóðanna ár frá ári.

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum hér í dag er þarft frv. Það er nauðsynlegt að setja lög um rekstur, eftirlit og fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna eins og gert hefur verið um banka, verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði vegna þess að almenningur á mjög mikið undir því að ekki verði gjaldþrot og skipbrot á þessum markaði. Það er ekkert í dag sem hindrar það, ekkert. Seðlabankinn hefur reyndar upplýsingaskyldu. Hann upplýsir um stöðu sjóðanna. Hann hefur ekki eftirlitsskyldu og það er mikill munur þar á. Þessu frv. er ætlað að bæta úr því. Þar af leiðandi er það brýnt. Reyndar gefst Alþingi og hv. efh.- og viðskn. mjög stuttur tími til að fara í gegnum frv.

Staða lífeyrissjóðanna er þannig eins og hér hefur margoft komið fram í dag að eignir þeirra eru um 300 milljarðar kr. Þeir eru orðnir miklu, miklu stærri en bankarnir. Þeir eiga landið og miðin meira og minna og það fer vaxandi þannig að eftir svona tíu ár munu þeir eiga flestöll stærri fyrirtæki í landinu og þeir munu tilnefna menn í stjórnir allra þessara fyrirtækja. Þetta eru því miklir hagsmunir. Það eru geysilegir hagsmunir að hrófla við lífeyrissjóðakerfinu og þess vegna er þetta svona erfitt. Þess vegna koma svona miklir hagsmunir upp alls staðar þegar það á að breyta þessu kerfi.

Herra forseti. Hver á lífeyrissjóðina? Hér í eina tíð, fyrir iðnbyltinguna, þegar bóndi hafði hjú, þá bar hann ábyrgð á sínu hjúi og þegar hjúið hafði unnið hjá honum í 20 ár, 30 ár, menn urðu nú ekki svo gamlir þá, þá gat hann ekki hent því út á guð og gaddinn þegar hjúið varð öryrki eða aldrað. Hann varð siðferðilega að sjá því farborða. Þetta er húsbóndaábyrgðin. Hún leiddi til þess að fyrirtækin telja sig eiga rétt í lífeyrissjóðunum þar sem þeim er kippt undan húsbóndaábyrgðinni. Þetta skýrir það af hverju fyrirtækin borga 6% í lífeyrissjóðina á móti 4% frá launþegunum. Það er ekki bara út í bláinn að fyrirkomulagið er svona. Lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir upp úr iðnbyltingunni vegna þess að þá var orðið svo erfitt að framfylgja húsbóndaábyrgðinni þegar menn skiptu kannski um starf oft á ævinni og enginn vildi ráða manninn þegar hann var orðinn gamall. Þetta er því rökstuðningur fyrir því að fyrirtækin eigi lífeyrissjóðina. En þegar almannatryggingar verða teknar upp út um allan heim og þegar komin var á skylduaðild að lífeyrissjóðum, þá má segja að ríkisvaldið hafi tekið yfir þessa húsbóndaábyrgð. Enginn talar um það í dag að fyrirtækin skuli sjá mönnum farborða heldur skuli það vera sveitarfélög og ríki. Húsbóndaábyrgð fyrirtækjanna hefur því flust yfir til ríkisins og sveitarfélaganna. Það má segja að í dag séu það sjóðfélagarnir sem eiga lífeyrissjóðina og ég mun flytja tillögu um það. Hún er einföld og hljóðar svo:

[19:45]

,,Lífeyrissjóður er eign þeirra sem greitt hafa til hans iðgjald og eiga hjá honum réttindi.`` Ég mun flytja brtt. við þetta frv. í þessa veru.

Herra forseti. Menn hafa talað um að það megi velja lífeyrissjóð svona svipað og bifreiðatryggingar. Þar er skyldutrygging, ábyrgðartrygging bifreiðatrygginga, en menn geta valið sér tryggingafélag og svipað mætti gera með lífeyrissjóðina. En það hefur miklar afleiðingar í för með sér. Málið er það að tvítugur maður ætti að fá miklu meiri réttindi en fertugur maður fyrir sama iðgjald og svo maður tali ekki um mann sem er orðinn sextugur vegna þess að það er lengra þangað til hann fer á lífeyri og dánarlíkur hans eru miklu minni og örorkulíkur. Um leið og menn taka upp val á lífeyrissjóðum þurfa menn því að vera búnir að leiðrétta það að réttindauppbyggingin sé rétt. Hún er ekki rétt hjá lífeyrissjóðunum núna. Og með hagnaði vegna of hárra vaxta tæki mörg ár að leiðrétta þetta og laga. Það er hugsanlegt að það sé hægt, en fyrr er ekki hægt að taka upp frjálst val á lífeyrissjóðum.

Menn hafa sagt að frjálst val á lífeyrissjóðum sé eins og að kjósa með fótunum. Ef ég er óánægður með sjóðinn minn, þá get ég bara valið einhvern annan. Ég kýs einfaldlega með því að hlaupa frá einum til annars.

Herra forseti. Í verkalýðsfélögunum segja menn að sé lýðræði. Það er kosið þarna vissulega, en lýðræðið er víða mjög veikt. Það er mjög þunglamalegt. Það eru miklar kvaðir á því og það er nánast óvirkt. Maður sér eiginlega aldrei breytingar á stjórnum verkalýðsfélaga. Þær aftur á móti tilnefna menn í lífeyrissjóðina sem og Vinnuveitendasambandið. Þetta er náttúrlega orðið ákaflega lélegt lýðræði og áhrif sjóðfélaganna eru nánast engin. Mjög fáir Íslendingar hafa mætt á sjóðfélagafund hjá lífeyrissjóði sínum og tekið þátt í því að kjósa stjórn sem fer með málefni sjóðsins. Þetta lýðræði er óþolandi og vegna þess sem ég sagði áðan að sjóðfélagarnir ættu lífeyrissjóðina, þá er náttúrlega mjög eðlilegt að þeir fái að kjósa stjórnina einir þannig að menn kjósi með höndunum, í stað þess sem aðrir vilja, að kjósa með fótunum sem ég gat um áðan að væru ákveðin vandkvæði á. Ég mun því flytja eftirfarandi tillögu um stjórn lífeyrissjóða:

,,Félagsfundur fer með æðsta vald í málefni lífeyrissjóðs. Félagsfund sitja sjóðfélagar sjóðsins eða umboðsmenn þeirra. Sjóðfélagi er sá sem hefur greitt iðgjald til sjóðsins og á réttindi í honum.``

Síðan eru ákvæði um atkvæðisréttinn þar sem reynt er að vega saman hagsmuni eldri sjóðfélaga sem eiga mikil iðgjöld inni og hagsmuni unga fólksins sem á lítil iðgjöld þannig að á hvorugan halli. Þessa tillögu mun ég flytja ásamt þeirri sem ég gat um áðan.

Herra forseti. Mikil umræða hefur orðið um séreignarsjóði. Það er kallað forsjárhyggja að afnema þá eins og hér er gert ráð fyrir. Það er ekki forsjárhyggja. Forsjárhyggjan felst í velferðarkerfinu. Forsjárhyggjan felst í því að almannatryggingar tryggja öllum Íslendingum, þó þeir hafi aldrei borgað í lífeyrissjóð, um 54 þús. kr. á mánuði. Þetta er forsjárhyggjan. Þetta er velferðarkerfið og þetta held ég að velflestir Íslendingar séu sáttir við. Þarna liggur forsjárhyggjan. Hún liggur ekki í því að leyfa mönnum ekki að borga í séreignarsjóði.

Við skulum líta á dæmi um hreinan séreignarsjóð. 30 ára maður sem hefur borgað í fimm ár, frá 25 ára aldri, verður öryrki. Hann á inni fimm ára iðgjöld. Ef sjóðurinn hefur náð 10% ávöxtun umfram laun, 10%, þá ætti þessi maður svona um það bil 65% af árslaunum. Því er dreift á 10 ár. Hann fengi 6,5% af árslaunum í árslífeyri. Það er gjörsamlega ófullnægjandi. Hann mundi aldrei lifa á því. Hann yrði að leita til almannatrygginga og hann mundi leita til almannatrygginga. Hann er ekki tryggður.

Sama gerist ef hann fellur frá og skilur eftir sig mikla ómegð, börn og konu eða ef þetta er kona sem fellur frá og skilur eftir sig mann með skuldir á íbúðinni og fullt af börnum. Þá er sömuleiðis hægt að borga 6,5% í makalífeyri og barnalífeyri samtals. Það er gjörsamlega ófullnægjandi og tryggir ekki nokkurn skapaðan hlut þannig að þetta dæmi er algerlega óþolandi. Þetta er engin trygging.

Svo getum við litið á mann sem verður 65 ára og byrjar að taka lífeyri. Hann tekur hann í 10 ár til 75 ára aldurs. Hvað gerist með þennan mann ef hann skyldi verða 100 ára? Þá vantar 25 ár þar sem hann fær engan lífeyri. Þá leitar hann að sjálfsögðu til almannatrygginga. Svo eru menn að tala um að þessi séreign erfist til einhvers fólks sem hugsanlega þarf ekkert á því að halda, jafnvel til ríkisins ef engir erfingjar eru. Séreignarsjóðirnir taka enga áhættu af manninum eða sjóðfélögunum og velta í rauninni áhættunni vegna örorku eða dauðsfalla um aldur fram eða hárrar elli yfir á þjóðfélagið, yfir á almannatryggingar, yfir á forsjárkerfið, yfir á velferðarkerfið sem við höfum byggt upp. Þess vegna er þetta kerfi með hreina séreignarsjóði ekki líðandi. Þetta eru ekki lífeyrissjóðir.

Það er til lausn á þessu. Hún er ákaflega einföld: Hreinlega að skylda séreignarsjóðina til þess að tryggja fólkið í hóplíftryggingu gegn örorku, dauða og elli. Það er ákaflega einfalt eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom með hérna áðan. Þetta er einfaldasta mál í heimi. Við verðum bara að leysa þetta. Við þurfum ekkert að banna þá. Gerum bara kröfu til þess að fólkið sé tryggt fyrir einhverju lágmarki, við skulum segja t.d. 80 þús. kr. eða einhverju slíku. Síðan geta menn haft séreignir þar umfram. Þetta yrði gert hjá tryggingafélagi og þetta mætti meira að segja gera fyrir einstakling sem vildi hvorki vera í séreignarlífeyrissjóði né sameignarlífeyrissjóði. Hann yrði þá bara að tryggja sig hjá tryggingafélagi einn sér og það er alveg hægt með nákvæmlega sömu rökum. En það þarf að gera mjög sterka kröfu um sterkt eftirlit eins og er víða um heim, t.d. í Þýskalandi, en eins og kom fram hér áðan, þá er veikara og miklu veikara og kannski allt of veikt eftirlit með tryggingafélögum í Bretlandi. Að breyta séreignarsjóðunum í þetta form í stað þess að banna þá er verkefni hv. efh.- og viðskn. þar sem ég á sæti.

Herra forseti. Ég bar að gamni saman eignir lífeyrissjóða og erlendar skuldir þjóðarinnar og það er dálítið merkilegt. Það kemur fram að erlendar skuldir skuldir hafa vaxið svipað og eignir lífeyrissjóðanna. Það er ekki mikill munur á. Við höfum sem sagt samt verið að taka lán erlendis til að stuðla að uppsöfnun á Íslandi. Það er nú ekkert annað. Þetta er engin eign. Við skuldum jafnmikið í útlöndum og það stendur þannig á núna að þetta er nánast sama upphæðin sem við skuldum erlendis og við eigum í lífeyrissjóðunum. Þetta er bara til upplýsingar og gamans fyrir þá sem hafa gaman að velta fyrir sér fjárstraumum.

Ég ætla ekki að ræða einstakar greinar frv., enda sit ég í hv. efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til umfjöllunar og málið er það flókið að 20 mínútur duga engan veginn til að ræða það. Þó ætla ég að geta um þrjá augljósa vankanta á þessu frv.

Í fyrsta lagi. Það er skylduiðgjaldið. 5. gr. er nánast óskiljanleg. Ég hef reynt að glugga í hana og reynt að skilja hana aftur og aftur. Það liggur kannski í minni persónu en ég skil hana ekki og það þarf að fara í gegnum hana aftur. Það þarf að athuga með skattaígildi iðgjaldsins. Ef aðilar vinnumarkaðarins eiga að geta samið um það sín á milli að iðgjaldið verði 13%, 10 + 3, 10% grunniðgjald og viðbótariðgjaldið 3%, þá eru þeir búnir að leggja skatta á alla sína umbjóðendur, alla. Allir þurfa að borga 13% eins og ég les 5. gr. Það er ekki víst að fólk vilji meiri tryggingu. Um það verður bara ekki spurt. Það skal borga þessi 3% til viðbótar þó að það vilji það ekki, þó að það vilji kannski hafa það betra með börnunum sínum meðan það er ungt og vinnandi heldur en hafa það gott sem lífeyrisþegi, kannski allt of gott miðað við það þegar það var vinnandi. Það er ekki markmið að menn hafi það miklu betra sem lífeyrisþegar heldur en sem vinnandi fólk.

Í öðru lagi. Það er 1. mgr. 29. gr. sem greinilega kom frá aðilum vinnumarkaðarins. Það er eins og með hænuna sem vill hafa ungana undir væng til þess að þeir fari nú ekkert á brott, séu ekki með neina sjálfstæðistilburði, þ.e. þessir sjóðfélagar þeirra, þessi verkalýður sem þeir reka. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Stjórn lífeyrissjóðs skal tilnefnd af samningsaðilum, sbr. 2. mgr. 2. gr., og skipuð fulltrúum stéttarfélaga og atvinnurekenda að jöfnu.``

Þarna er verið að negla niður, herra forseti, núverandi stöðu. Það er verið að negla hana niður um alla framtíð, þ.e. að þessir aðilar skulu ráða lífeyrissjóðnum alveg burt séð frá því þó að sjóðfélagarnir séu eitthvað að þvælast þarna. Þeim kemur bara ekkert við þessi rekstur. Ég get ekki fallist á þessa grein engan veginn, aldrei. (Gripið fram í: Og þá atvinnurekendurna burtsetta?) Já, sjóðfélagarnir eiga að kjósa sína stjórn sjálfir og engir aðrir að sjálfsögðu. Ég vil líka stéttarfélögin burt, ekki bara atvinnurekendur. (Gripið fram í.) Fólkið sjálft, sjóðfélagarnir sjálfir eru ekki svo vitlausir að þeir geti ekki kosið sjálfir. Ég treysti þeim alveg fullkomlega til þess að kjósa sér stjórn.

Þriðja atriðið sem ég hef við þetta að athuga er að það vantar algjörlega samtengingu við almannatryggingar. Það er búið að byggja upp alveg ótrúlega flókið kerfi af skerðingum sem enginn maður botnar í og síst af öllu gamla fólkið. Þetta er vegna þess að við erum með tvö kerfi, í fyrsta lagi lífeyrissjóðina sem eru að rembast við að borga 70% af launum sem verður eftir 20 ár --- þá verða menn komnir með 70% af launum, við 40 ára starfsaldur --- og svo hins vegar almannatryggingar sem eru með mjög gott kerfi, lágmarkslífeyri, 54 þús. kr. á mánuði fyrir mann sem aldrei hefur borgað neitt og hefur engin laun. Þessi kerfi rekast stöðugt á. Það þarf stöðugt að skerða meira og meira þarna á milli og það er vandinn sem við búum við í dag. Við erum með sífellda oftryggingu hjá almannatryggingum.

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að setja lög um þessi mál og fyrr en seinna. Annars er hætta á slysi. Ég er samþykkur því að þetta frv. komi fram og verði rætt og verði jafnvel samþykkt með þeim breytingum sem ég hef lagt til. Hv. efh.- og viðskn. mun ræða frv. en ég get ekki stutt það óbreytt eins og ég gat um hér áðan.