Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 20:01:55 (5497)

1997-04-18 20:01:55# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[20:01]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Sagnfræðin er alveg ljós í þessu. Í almennum kjarasamningum 1969 var samið um lífeyrissjóðina. Þeir tóku gildi samkvæmt þeim kjarasamningum 1. janúar 1970, fjórum og hálfu ári áður en þessi löggjöf var sett. Þjónar nú litlum tilgangi að vera að rífast um slíkt því að staðreyndin er sú að í dag er samið um lífeyrissjóðina, það er samið í almennum kjarasamningum og auðvitað liggur það fyrir að vilji löggjafinn breyta þessu, vilji Alþingi og ríkisstjórn breyta þessu, þá hefur hún það á sínu valdi. Ég var einmitt að taka það fram áðan. Menn geta gert það, menn geta sett um þetta löggjöf og tekið þá aðila vinnumarkaðarins þar út úr. Það er enginn vandi ef menn telja það farsælla. Aðalatriðið hlýtur að vera þetta: Hvernig teljum við þessu farsællega borgið og hvernig teljum við að við tryggjum að ábyrgð sé á þessu fé og meðferð þess? Við stöndum frammi fyrir því og það skiptir öllu máli. Ég reyndi líka að vekja athygli á hinu efnahagslega umhverfi, þ.e. að við getum ávaxtað þessa sjóði, að við getum ávaxtað þá bæði innan lands og utan lands. Það skiptir máli því að ef við erum ekki í því umhverfi þá horfir illa eins og allir vita. Um leið og við missum niður þessa prósentu, þessa vexti, þá getur stefnt í hreinan voða. Því er það aðalatriði að gæta þessa umhverfis eins og sjáaldur augna okkar.