Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 20:03:34 (5498)

1997-04-18 20:03:34# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[20:03]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Vissulega voru gerðir kjarasamningar 1969 og þar sem var stofnaður fjöldinn allur af lífeyrissjóðum, hinir almennu lífeyrissjóðir. SAL, Samband almennra lífeyrissjóða var stofnað upp úr því. Það var vissulega gert. En það voru ákaflega fáir sem gengu í þá. Mjög fáir gengu í þessa sjóði vegna þess að fólki bar ekki skylda til þess nema samkvæmt kjarasamningi og það var ekki lagaskylda. Af hverju þrýsti ASÍ á það að setja lög um að skylda alla að vera í lífeyrissjóði? Það var enginn annar en forseti ASÍ, Björn Jónsson, sem stóð fyrir þessari lagasetningu, þá hv. þm. þannig að hann setur lög 1974 eða fær það í gegn til þess að tryggja að menn borgi í lífeyrissjóðinn það sem fólk vildi ekki borga. Ef menn horfa á sjóðfélagafjöldann hjá lífeyrissjóðunum, þá margfaldaðist hann upp úr 1974. Það eru áhrif lagasetningarinnar sem hafa gert þetta kerfi svona sterkt. Og hafi Alþingi sett lög, þá má líka breyta þeim, þ.e. hafi Alþingi sett lög um að þessir aðilar skuli hafa um þetta að segja og skipi stjórn og það kemur í ljós að það er gjörsamlega ólýðræðislegt þannig að hinn almenni sjóðfélagi veit ekkert hvað er að gerast hjá sínum sjóði. Hann veit ekkert um stjórnarlaun. Hann veit ekkert um fjárfestingarstefnu. Hann getur ekkert gert ef stjórnin ákveður að fara út í eitthvert hættulegt dæmi. Hinn almenni sjóðfélagi hefur ekkert um það að segja.

Ég skil ekki þessa vantrú manna á almenningi. Halda menn virkilega að almenningur geti ekki borið ábyrgð og stundað góða meðferð síns eigin fjár? Ég bara spyr. Þarf einhverja alvitra aðila vinnumarkaðarins til þess að stjórna lífeyrissjóðunum, miklu, miklu betri að því mér er sagt.

Ég treysti því að sjóðfélagar séu betri. Þeir geti valið sér betra fólk til þess að stjórna lífeyrissjóðunum og þá fá þeir alla vega að vita miklu meira um stöðu þeirra.