Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 20:05:38 (5499)

1997-04-18 20:05:38# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[20:05]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek alveg undir það að hér sé eðlilegt að setja á rammalöggjöf og það er hið besta mál hvað áhrærir lífeyrissjóðina. Fjmrh. kom að því í máli sínu að eðlilegt væri þegar fram liðu stundir að Tryggingastofnun ríkisins mundi draga úr þeim greiðslum sem hún hefur staðið fyrir í dag og lífeyrissjóðirnir taka þar við. En menn skulu gera sér grein fyrir því að sé tekjumöguleiki lífeyrissjóðanna á einhvern hátt skertur, þá mun Tryggingastofnun ríkisins fá enn frekari kröfur um greiðslur bóta til einstaklinga en jafnvel er í dag.

Hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á það áðan að yngri menn ættu að vinna sér inn meiri réttindi hlutfallslega en hinir eldri vegna þess að minni líkur væru á veikindum og örorku hjá hinum yngri. Það er bara ekki algild regla og ég hef komið að því áður að t.d. í Lífeyrissjóði sjómanna er einmitt þessu öfugt farið. Hjá hinum yngri mönnum er örorkan miklu meiri heldur en hjá þeim eldri. Ef menn komast upp úr þessari miklu slysatíðni sem á sjó er og komast til aldurs, þá eru mjög litlar líkur á því að þeir fái örkuml og örorkugreiðslur þegar fram líða stundir. Það er bara eðli starfsins samkvæmt.

Um lýðræði í verkalýðsfélögunum. Ég þarf ekki að rekja það. Í fyrsta lagi er kosið í stjórnir í einstökum stéttarfélögum. Síðan koma stjórnir saman, annaðhvort í samböndum eða samtökum verkalýðsfélaga og þar er síðan kosin stjórn sem kýs í stjórnir lífeyrissjóðanna. Ég sé fyrir mér eitt allsherjarkaos ef það á að fara að senda kjörseðla til sérhvers félaga í lífeyrissjóði til þess að kjósa fulltrúa því að það gæti alveg eins orðið þar að menn gætu setið í langan tíma í stjórn lífeyrissjóða án þess að nokkur breyting yrði, bara af því að hann hafi setið þar. Og að lokum get ég tekið undir að það er nauðsynlegt fyrir alla lífeyrissjóði að halda opna almenna aðalfundi til þess að fjalla um stöðu mála.