Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 21:02:46 (5507)

1997-04-18 21:02:46# 121. lþ. 106.19 fundur 552. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., Flm. PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[21:02]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem er á þskj. 910. Flm. auk mín er hv. þm. Katrín Fjeldsted.

Með frv. þessu er lagt til að sjómannaafsláttur verði felldur niður í áföngum á tveimur árum.

Á 115. löggjafarþingi, 1990--91, var flutt stjórnarfrumvarp sem meðal annars átti að takmarka sjómannaafsláttinn við þá daga sem sjómaðurinn er á sjó. Með því frumvarpi fylgdi meðal annars eftirfarandi greinargerð:

Upphaf sjómannaafsláttar má rekja til ársins 1954. Þá var með lögum nr. 41/1954 lögfestur annars vegar svonefndur hlífðarfatafrádráttur og hins vegar fæðisfrádráttur.

Síðan varð frekari þróun á þessu því sá frádráttur tók eingöngu til sjómanna sem notuðu hlífðarföt og fengu þau ekki greidd af útgerðinni og greiddu sjálfir fæðið. Árið 1957 var hann aukinn svo hann tók til allra skipverja á togurum og síðan var tekinn upp sérstakur frádráttur sem náði til allra lögskráðra fiskimanna og var sú breyting gerð í tengslum við kjarasamninga og einnig rökstudd með því að á þeim tíma var erfitt að manna flotann og talið að fiskiskipaflotinn væri þá nálægt þriðjungi mannaður erlendum mönnum.

Í grg. með frv. 1990 var rakin áfram saga þessa sjómannaafsláttar og rökstuðningurinn fyrir honum var aðallega ferns konar. Í fyrsta lagi kostnaður sjómanna vegna hlífðarfata. Í öðru lagi ívilnun til þeirra sem sáu sér sjálfir fyrir fæði. Í þriðja lagi kostnaður vegna langra fjarvista frá heimili, kostnaður fjölskyldunnar væntanlega. Í fjórða lagi sérstök launahækkun til sjómanna eða hluta þeirra í tengslum við kjarasamninga. Þessi rök öll höfðu vafasamt gildi þegar í upphafi og hafa þau rýrnað enn frekar, segir í grg. Þetta rökstutt nánar í grg.

Herra forseti. Í framkvæmd eru þetta skattaívilnanir og framkvæmdin hefur yfirleitt verið rýmri en lagabókstafurinn segir til um. Sú þróun er dæmigerð fyrir flest undanþágukerfi þar sem reynslan er að ein undanþága elur af sér aðra. Er það í sjálfu sér rökrétt þar sem undanþágur eru í eðli sínu mismunun og leiða til viðvarandi togstreitu um hvar draga eigi línuna á milli þeirra sem eru jafnari en aðrir og hinna.

Það má líta á sjómannaafsláttinn sem niðurgreiðslu á útgerðarkostnaði fremur en ívilnun til sjómanna þó hann hafi óneitanlega áhrif á starfskjör þeirra vegna þess að útgerðin þarf ekki að borga eins há laun til að fá sjómenn út á sjó þegar maðurinn nýtur skattfrelsis.

Það er viðurkennd grundvallarregla í réttarríkjum að þegnarnir skuli njóta jafnræðis við álagningu skatta. Það er í eðli sínu í beinni andstöðu við þessa grundvallarreglu að ívilna einni starfsstétt umfram aðra með sérstökum skattafslætti sem þessum. Það er þess vegna sem ég legg fram þetta frv., þ.e. að bæta þar úr.

Það má bæta við að staðgreiðsla skatta í dag er í reynd skattur á inntekjur, ekki á nettótekjur. Fólk getur ekki dregið frá kostnað vegna vinnunnar, t.d. ferðir eða gæslu barna fyrir þá sem þurfa að koma börnum fyrir til þess að geta unnið, og þess vegna er óeðlilegt að ein stétt manna fái að draga frá kostnað með ígildi sjómannaafsláttar en aðrir ekki. (Gripið fram í: En atvinnurekendurnir?) Vissulega geta þeir dregið frá skatti en launþegar geta það ekki. Það er nefnilega munurinn á launþegum og atvinnurekendum. Í reynd er skattlagning á launþega miklu meiri en á atvinnurekendur, líka vegna þess að prósentan er hærri, hún er 42% núna eða reyndar 40% að teknu tilliti til 4% iðgjalds í lífeyrissjóð sem er frádráttarbært.

Það má rekja upphaf sjómannaafsláttar til ástandsins 1950 þegar ekki tókst að manna síðutogarana. Þá var mjög algengt að hér ynnu erlendir sjómenn, aðallega frá Færeyjum. Þar sem tekjuskattur var greiddur eftir á þá greiddu þessir menn aldrei tekjuskatt. Þeir voru horfnir af landi brott þegar átti að greiða skattinn og náðist ekki til þeirra en innlendu sjómennirnir borguðu skattinn og þetta olli óánægju. Þessar ástæður eru allar farnar fyrir borð. Eftir að staðgreiðslan er tekin upp borga allir skatta, jafnt sjómenn sem aðrir jafnóðum, auk þess sem nú er orðin svo mikil eftirspurn eftir vinnu, sérstaklega á skuttogurunum að biðraðir eru eftir að komast um borð þannig að þær forsendur fyrir sjómannaafslættinum að manna þurfi síðutogarana eru löngu farnar fyrir borð.

Eitt af markmiðum skattalaga fyrir utan það að afla ríkissjóði tekna er tekjujöfnun. Fólk nýtur þjónustu ríkisins óháð tekjum. Heilbrigðisþjónusta, öldrunarþjónusta, menntakerfi, löggæsla og önnur þjónusta er veitt jafnt til tekjulágra sem tekjuhárra. Fólk greiðir þó ekki fyrir þjónustuna óháð tekjum. Þeir sem hærri hafa tekjurnar greiða meira. Ekki bara í hlutfalli við tekjur heldur miklu meira. Þannig greiðir fólk sem hefur tvöfaldar tekjur ekki aðeins tvöfaldan skatt heldur margfalt meira. Sem dæmi: Maður sem er með 100 þús. kr. í tekjur greiðir um 16 þús. kr. í staðgreiðslu en sá sem er með 200 þús. kr. í tekjur borgar 56 þús. kr. í staðgreiðslu eða 3,5 falt meira, ekki tvöfalt meira. Þannig er skattkerfinu raunverulega ætlað að jafna út tekjur hjá öllum, þ.e. að hátekjumenn borgi meira í skatta, miklu meira skatta en þeir sem hafa lágu tekjurnar. Þetta á ekki við um sjómenn. Þeir borga ekki sem því nemur hærri skatta sem tekjurnar eru hærri. Sem dæmi má nefna að fiskverkakona með 125 þús. kr. í tekjur á mánuði greiðir sömu skatta og sjómaður eða beitingamaður sem vinnur við hliðina á henni með 175 þús. kr. á mánuði, eða 26 þús. kr. sem hvort um sig greiðir í skatta. Þannig greiðir sjómaðurinn ætíð um 250 þús. kr. lægri skatta á ári en maður í landi með sömu tekjur og það eru tvenn mánaðarlaun fiskverkakonu.

Bent hefur verið á að sjómenn greiði skatt af fæðispeningum en þeir sem fara í viðskiptaferðir fái skattfrjálsa dagpeninga fyrir fæði og uppihaldi. Ljóst er að hér þarf að samræma. Það er mjög óeðlilegt að þeir sem eru í viðskiptaferðum fái fæðispeningana skattfrjálsa og því þarf að breyta. Og ég væri alveg til í að taka þátt í að breyta skattlagningu dagpeninga þannig að fæðisþátturinn yrði skattlagður sérstaklega.

Sjómannaafslátturinn gerir það að verkum að störf við frystingu í frystitogurum úti á sjó njóta skattfrelsis á meðan sambærileg störf í landi eru sköttuð að fullu. Þannig virkar hann eins og nokkurs konar niðurgreiðsla á vinnu um borð í frystitogurum og stuðlar þannig að því að frystingin flyst út á sjó og veldur atvinnuleysi í landi úti um allt land. Þetta er ástand sem þarf að horfa á.

Svo má líka geta þess að 95% þeirra sem greiddu í Lífeyrissjóð sjómanna á árinu 1995 voru karlar. Þannig má segja að sjómannaafslátturinn sé forréttindi karla og vinni gegn launajafnrétti karla og kvenna þar sem yfirgnæfandi fjöldi starfsfólks í fiskvinnslunni eru konur. Launamunur milli sjómanna og fiskvinnslufólks er mikill sjómönnum í hag og sjómannaafslátturinn eykur hann enn frekar. Þetta er ákveðið vandamál og niðurfelling sjómannaafsláttar mun laga það.

Það er ástæða til að leggja sjómannaafsláttinn niður núna af nokkrum ástæðum. Í fyrsta lagi hefur kvóti verið aukinn nýverið. Við það aukast tekjur sjómanna og útgerðar hlutfallslega. Því er lag að afnema sjómannaafsláttinn núna, en hann hefur hækkað tekjur sjómanna um 7,1% að meðaltali.

Sjómannaafslátturinn kostar ríkissjóð 1,6 milljarða á ári. Það mætti lækka tekjuskattsprósentu allra landsmanna um sennilega 0,8% ef hann yrði felldur niður þannig að það eru í reynd aðrir skattgreiðendur sem eru að borga sjómannaafsláttinn. Í því sambandi má benda á, af því það var mikið kappsmál fyrir sjómenn, að björgunarþyrlan kostaði 800 millj. kr. Það er sem sagt helmingurinn af þeim sjómannaafslætti sem sjómenn fengu á einu ári. (Gripið fram í: Er þessi þyrla bara fyrir sjómenn?) Að miklu leyti var það rökstutt þannig á sínum tíma. Auðvitað er hún líka fyrir aðra.

Með frv. birti ég töflu sem sýnir mun á sköttum venjulegs launþega og sjómanns og sem dæmi má nefna að sjómaður sem er með 125 þús. kr. í tekjur borgar ekki nema 5 þús. kr. í skatt en venjulegur launþegi borgar 25.800 kr. í skatt, sem sagt fimmfalt meira. Og sjómaður sem er með 200 þús. kr., sem mér skilst að séu nokkuð algeng laun hjá sjómönnum, borgar 35 þús. kr. í skatt á meðan venjulegur launþegi með sömu tekjur borgar 56 þús. kr. í skatt eða töluvert meira.

Hér er gert ráð fyrir því að sjómannaafslátturinn verði afnuminn í tveimur þrepum, þ.e. að það megi draga frá skatti 2/3 af núverandi sjómannaafslætti árið 1998 --- þetta taki sem sé gildi um næstu áramót --- og síðan 1/3 árið 1999 og frá ársbyrjun árið 2000 verði þessi sjómannaafsláttur alfarið lagður niður. Það er til þess að gefa þeim aðilum sem að málinu koma, þ.e. útgerðarmönnum og sjómönnum, færi og tíma til þess að semja um það hvor þeirra á að taka á sig að greiða þá niðurfellingu á sköttum eða þann ríkisstyrk sem útgerðin og sjómenn hafa notið með sérstökum skattafslætti umfram aðra þegna landsins.

Herra forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. efh.- og viðskn. og 2. umr.