Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 21:23:09 (5509)

1997-04-18 21:23:09# 121. lþ. 106.19 fundur 552. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[21:23]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt á öllu að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er ekki hrifinn af þessu frv., né því að leggja niður sjómannaafsláttinn. Hann segir að það sé frumhlaup. Ég held ekki vegna þess að hér er verið að taka á mismunun. Það má vel vera að sjómenn geti fengið dagpeninga sem aðrar stéttir, þá það. Þeir eru þá eins settir og aðrir. Þá er ekki einhver sérstök lagaleg mismunun í gangi.

Það er það sem ég er að fara inn á, að ekki sé lagaleg mismunun á milli fólks. Fyrir utan það að margar aðrar stéttir eru fjarri heimilum sínum. Ég nefni verkamenn inni á hálendinu og sölumenn. (EOK: Þeir fá staðaruppbót.) Já, já. Þeir fá hana frá sínum atvinnurekanda en ekki frá ríkinu. Og fólk sem ferðast út um heim fær líka dagpeninga og annað slíkt frá sínum atvinnurekanda. (EOK: Og stórgræða á því, segir þú.) Já. Ég vil láta skoða það að fæðisþáttur dagpeninganna verði kannaður.

Ég var í nefndinni sem samdi frv. til laga um fjármagnstekjuskattinn. Þar var verið að samræma skattlagningu á allar fjármagnstekjur. Ég held að það sé stórlega til bóta og það á eftir að sýna sig. Ég var að mæla fyrir frv. rétt áðan um eignarskatta, sem er líka samræming á öllum eignum, til að vera ekki að stýra skattlagningunni í eitt eða annað form. Og hér er verið að taka á ákveðnum agnúa sem er á tekjuskattinum. Síðan get ég að sjálfsögðu unnið með hv. þm. Einar Oddi Kristjánssyni að því, eins og ég hef verið með hugmyndir um, að stórlækka tekjuskattinn en hafa hann almennan og flatan á alla þannig að þeir sem hafa tvöfaldar tekjur borgi tvöfaldan skatt. En það hefur ekki verið vilji fyrir því hingað til að slíkt næði fram. Ég vildi gjarnan ræða við hv. þm. um þá lausn á tekjuskatti þjóðarinnar, að tekinn verði upp 17% flatur skattur á allar tekjur upp úr og niður úr og enginn skattur annar. (EOK: Heyr!)