Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 21:48:13 (5512)

1997-04-18 21:48:13# 121. lþ. 106.19 fundur 552. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[21:48]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins vegna þyrlunnar. Það er rétt að það voru sjómenn sem gerðu miklar kröfur til þess að hún væri keypt og sem betur fer varð svo enda hefur hún sýnt ágæti sitt í þeim hörmungum sem dundu yfir sjómannastéttina nú fyrir nokkrum vikum síðan. En það eru samt sem áður aðrir sem njóta hennar og það er þess vegna ekki eðlilegt að sjómannastéttin ein standi þar að eða menn ætli henni að reka þyrluna.

Aðeins út af því sem ég kom inn á áðan um þann félagslega þátt sem spilar inn í líferni sjómanna við langtímafjarveru og tengja það aðeins læknastéttinni. Ég veit í sjálfu sér ekkert mikið um hvað það þýðir í kjarasamningum að þeir hafi svo og svo mikla peninga til þess að endurmennta sig eða ferðast um erlendis. Ég veit ekki hversu há upphæð það er, ég veit ekki um skattalega meðferð á henni, en ég veit samt að læknastéttin ásamt öðrum má nokkuð sæmilega vel við una. Það sem ég vildi hins vegar koma inn á er að sjómenn eru fangar síns vinnustaðar. Þegar þeir eru farnir út á sjó þá er það skipið og útkantar vinnustaðarins er lunningin. En þegar talað er um að mjög erfitt sé að fá lækna til að starfa úti á landi þá segja þeir sjálfir, og það var haft eftir einhverjum í blaðaviðtali, að vegna félagslegrar einangrunar sé mjög erfitt að fá lækna út á land. Hvernig halda menn að hin félagslega og sálræna einangrun sé meðal sjómanna?

Af mörgu tel ég það rétt að sjómannaafslátturinn verði áfram óbreyttur. Ég tek undir það sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talaði um áðan og tel skynsamlegt að hv. flm. drægu þessa tillögu sem hér er til umræðu til baka.