Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 22:10:39 (5514)

1997-04-18 22:10:39# 121. lþ. 106.19 fundur 552. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[22:10]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson rakti mjög ítarlega og greinilega að skattkerfi hefur áhrif á búsetu og hegðun fólks, þ.e. yfirleitt þjóðfélaginu til óhagræðis, því skattkerfið lætur menn gera eitthvað sem ekki er eðlilegt, t.d. að búa á einhverjum ákveðnum stöðum eða búa ekki á einhverjum ákveðnum stöðum.

Hann nefndi nokkur dæmi eins og iðgjöld í lífeyrissjóð. Þar má segja að iðgjaldið er skattfrjálst þegar það fer inn í lífeyrissjóðinn en er skattað þegar það fer út af því lífeyririnn er skattlagður. Það eru rökin fyrir fyrir því að það er skattfrjálst. Svo nefndi hann LSR og ég man ekki betur en að hann hafi greitt atkvæði með því að reikna ekki iðgjald í LSR --- þá brtt. sem ég lagði til í vetur. Alla vega voru allir þingmenn á móti mér í því máli sem voru viðstaddir.

Varðandi sendiráðsmennina þá er það er alþjóðlegt vandamál og mikið vandamál. Fólk með mjög há laun og er meira og minna skattfrjálst. Og ég væri alveg til í að vinna að því að sá ósómi verði tekinn af almennt því það hefur ekkert að gera með fjarlægð frá heimili eða eitthvað slíkt heldur er þetta fólk með mjög há skattfrjáls laun.

Varðandi vaxtabæturnar þá leiða þær til þess að menn skulda allt of mikið. Skuldir heimilanna hafa stórvaxið eftir að vaxtabæturnar voru teknar upp og það er aftur hegðun sem ekki er í takt við þarfir þjóðfélagsins og á móti þeim koma húsaleigubætur.

Við höfum margrætt dagpeningana hérna og ég væri alveg til með hv. þm. að ráðast í það að taka alla þessa liði til skoðunar til að hætta að láta fólk gera eitthvað sem er óskynsamlegt fyrir þjóðfélagið. En það gera einmitt alls konar svona afslættir í skattkerfinu sem láta menn gera eitthvað sem þeir mundu ekki gera ef skattkerfið væri hlutlaust.