Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 22:10:43 (5515)

1997-04-18 22:10:43# 121. lþ. 106.19 fundur 552. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[22:10]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið sammála þingmanninum í því að þessum aðgerðum ríkisvaldsins hverri um sig er auðvitað ætlað að hafa áhrif einum þjóðfélagshópi til hagsbóta og mismuna þá gagnvart öðrum. Ef við tökum út úr einn þátt þessa máls og breytum honum og erum þar af leiðandi að valda tilteknum hópi óhagræði á sama tíma og allir aðrir hópar verða ekki fyrir neinni breytingu þá er það augljóslega óskynsamlegt. Ég held við getum verið sammála um að það hljóti að vera óskynsamlegt. Þess vegna væri rétta leiðin, ef menn telja þörf á því, að endurskoða þann lagabúning sem menn búa við og þær pólitísku ákvarðanir sem liggja þeim til grundvallar um greiðslur úr ríkissjóði til jöfnunar milli þjóðfélagshópa eða atvinnugreina o.s.frv., að gera það í samhengi þannig að það væri þá verið að hreyfa á mörgum stöðum í senn en ekki bara á einum stað. Ég hygg að við getum verið nokkuð sammála um að þannig ætti að vinna málið. Hvort við ættum að ráðast í það stórvirki að fara yfir það lið fyrir lið er svo aftur annað mál, ég skal ekkert svara því að svo stöddu en ég tel ekki brýnasta verkefni okkar um þessar mundir að leggja niður sjómannaafsláttinn.