Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 15:15:01 (5520)

1997-04-21 15:15:01# 121. lþ. 108.1 fundur 585. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (staðgreiðsla opinberra gjalda) frv., Frsm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:15]

Frsm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 998 frá efh.- og viðskn. Það er um breyting á lögum um tekju- og eignarskatt. Tilurð þessa máls er sú að stjfrv. um tekju- og eignarskatt, sem var lagt fram í tengslum við kjarasamninga á sínum tíma, var hér til umræðu fyrir helgi. Það eru nokkur ákvæði í frv. sem varða greiðslur launa og staðgreiðslu um næstu mánaðamót. Niðurstaða varð í nefndinni og samkomulag um að kljúfa út úr því stjfrv. þá þætti sem öðlast gildi fyrir 1. maí nk. og flytja í sérstöku frv. Og það er þetta frv. sem ég er að gera grein fyrir.

Tvö bráðabirgðaákvæði eru tekin út úr stjfrv. og flutt sem sérstakt þingmál af hálfu efh.- og viðskn. Í fyrsta lagi í 1. gr., I. bráðabirgðaákvæði, er getið um að staðgreiðsluálagningin frá 1. maí sé lækkuð eins og gert er ráð fyrir í stjfrv. Í öðru lagi eru gerðar samsvarandi leiðréttingar á persónuafslætti og sjómannaafslætti þannig að fyrsti fasi þeirrar skattabreytingar sem gert er ráð fyrir nái að koma til framkvæmda 1. maí eins og ætlunin var.

Það var samkomulag í efh.- og viðskn. um þessa málsmeðferð að taka þessa þætti út úr og flytja um það sérstakt frv. sem ég hef hér með gert grein fyrir.