Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 15:21:42 (5522)

1997-04-21 15:21:42# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:21]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um tillögu til þál. um hafnaáætlun 1997--2000. Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra erum við með seinni skipunum með þá áætlun og raunar þegar í gang í komið nýtt áætlunartímabil án þess að hafnaáætlunarsamþykkt liggi fyrir.

Það verður ekki undan því komist strax við fyrri umr. að gera nokkrar athugasemdir við það upplegg sem hér er að finna.

Í fyrsta lagi að þó að meðganga þessa máls, þessarar áætlunar, hafi verið alllöng, eins og getið er um í grg., þá vil ég gagnrýna það að á síðustu stigum þessa máls hafa fulltrúar hafna ekki komið að vinnunni eins og eðlilegt hefði verið. Þar á meðal eru forsvarsmenn hafna á Íslandi, Hafnasambands sveitarfélaga, sem hafa ekki á síðustu stigum máls komið að lokatillögu og það er gagnrýnivert. Ég hefði talið eðlilegra að þau mál hefðu verið þar til umfjöllunar allt til loka og tillögurnar hefðu verið unnar í það skjal sem hér er að finna.

Í annan stað, eins og hæstv. ráðherra gat um, er tekin ákveðin grundvallarafstaða til tiltekinna hafna um landið og þá er ég að vísa til hafna í nágrenni við Reykjavík. Hér er með einu pennastriki ákveðið að hafnir í Kópavogi og Garðabæ og síðast en ekki síst í Hafnarfirði skuli settar út af sakramentinu. Þær njóti ekki styrkjar frá ríkisvaldinu í samræmi við hafnaáætlun eins og verið hefur um langt árabil. Á sama tíma hefur hæstv. ráðherra og ráðgjafar hans gefist upp á því verki sínu, sem kveðið er á um og heimild er gefin um í lögum um íslenskar hafnir, að leggja til ákveðnar skerðingar á þær hafnir sem eru sæmilega vel í álnum. Með öðrum orðum, í 19. gr. laganna hefur ráðherra um það allvíðtækar heimildir að ákveða að ákveðnar hafnir um landið, sem eru með góða afkomu, fái skertan hlut af hálfu ríkisins. Menn þekkja tölur þar um 40% hlutdeild ríkisins, um 50% hlutdeild ríkisins en nú er því breytt. Nú fá allar hafnir, að undanskildum þeim þremur sem ég nefndi áðan, hámarksstyrk eins og lögin gera ráð fyrir. Þær eru með öðrum orðum allar settar í sama flokk --- svonefndar fátækar hafnir, litlar hafnir og stórar hafnir nema bara það að þessar þrjár sem ég nefndi áður er ekki með í púkkinu. Þetta er auðvitað fullkomlega gagnrýnivert. Og af því hæstv. ráðherra kallaði eftir því áðan að það væri þá verkefni nefndarinnar að gera tillögur um það, ef henni sýndist svo, að skerða styrki til ákveðinna hafna sem væru í góðum málum, að það væri þá nefndarinnar að ganga í það verk sem hæstv. ráðherra gafst upp á sjálfur.

Það er auðvitað athyglivert í þessu sambandi, og ég bið ráðherra að hlusta á það sérstaklega, að Akureyrarhöfn fær einhverra hluta vegna hámarksstyrk en var hins vegar á skerðingu. Framlagið er hér verulega hækkað. Akureyrarhöfn er að mörgu leyti ekki ósvipuð Hafnarfjarðarhöfn sem er aftur á móti tekin út. Margar fleiri hafnir eru auðvitað vel reknar og hafa skilað drjúgu. Ég nefni Ísafjörð, Vestmannaeyjar og raunar talsvert fleiri hafnir. Það er líka óhjákvæmilegt að nefna í þessu samhengi að mér hefur lengi fundist það ákaflega kúnstugt og sérstakt í gildandi lögum um íslenskar hafnir að ráðherra hafi nánast um það sjálfdæmi að ákvarða hversu mikið tilteknar hafnir njóti styrkjar frá ríkisvaldinu og hversu mikil skerðingin verður hverju sinni. Þá hefur þróunin gjarnan orðið sú, eðlilega, að ýmsar hafnir freista þess að sýna nú ekki allt of góða afkomu, hafa stundum ráðist í fjárfestingar og framkvæmdir til þess að geta sýnt fram á það að þær skuldi fjármuni og verði þá tryggilega í hópi þessara ,,fátæku hafna`` sem njóti velvilja fjárveitingavaldsins þ.e. hæstv. ráðherra. Með öðrum orðum, hinum höfnunum sem freista þess að reka sig vel, skila góðri afkomu, eru duglegar í markaðsmálum, eru með mannahald í lágmarki, eru til fyrirmyndar hvernig að rekstri er staðið --- er hegnt fyrir að sýna ráðdeild og hagsýni í rekstri. Hér eru formerki alls ekki eðlileg og fullkomlega ástæða til að hið háa Alþingi gaumgæfi þetta á nýjan leik og skoði þessar heimildir í lögum um íslenskar hafnir og ekki síst vegna þess að hæstv. ráðherra hefur tekið um það ákvörðun að gefast upp á því að reyna leika guð í þessum efnum og það kemur svo sem ekkert á óvart.

Ég vil bara segja það fyrir fullt og allt, virðulegi forseti, að við það verður auðvitað alls ekki unað að tilteknar hafnir í næsta nágrenni, í mínu kjördæmi, Reykjaneskjördæmi, séu settar jafnrækilega út af sakramentinu og hér um ræðir og núllaðar fullkomlega og njóta ekki jafnræðis á við aðrar hafnir vítt og breitt um landið. Það verður ekki við það unað. Það eru ekki fullnægjandi rök að segja það að verið sé að freista þess að viðhalda samkeppnisstöðu Reykjavíkurhafnar og til að mynda Hafnarfjarðarhafnar. Velta og afkoma Reykjavíkurhafnar er sjöföld í samanburði við það sem gerist og gengur suður í Hafnarfirði. Þannig að tala um það að þessar tvær hafnir séu í beinni samkeppni sem ekki megi skekkja með því að veita fé til Hafnarfjarðarhafnar er auðvitað algjörlega fráleitt. Ég tel þá fullkomlega eðlilegt að við förum yfir það í samgn. hvort ekki gildi það sama um margar aðrar hafnir víða um land. Menn geta velt því fyrir sér til að mynda vegna þessarar hafnar í Hafnarfirði hvort samkeppnin sé ekki jafnmikil suður með sjó. Er það þá hugmynd hæstv. ráðherra til að skekkja ekki samningsstöðuna milli Hafnarfjarðarhafnar og hafnasamlags suður með sjó að setja þá Suðurnesjamenn út af sakramentinu á sama hátt? Hvar ætlar hæstv. ráðherra að enda í þessari röksemdafærslu? Hún er auðvitað endalaus og óhugsuð að öllu leyti.

Ég trúi því að hv. samgn. muni taka faglega og eðlilega á þessum málum. Fulltrúar Siglingastofnunar voru á fundi með nefndinni um þessi mál þótt málið væri ekki komið til 1. umr. og auðvitað heyrðist það mjög rækilega að málin voru lítt ígrunduð og hugsuð og því óhjákvæmilegt annað en að taka á málinu og endurskoða það.

Virðulegi forseti. Ég vil með öðrum orðum, á þessum örfáu mínútum, segja það að ég hef fullan fyrirvara á þessu máli öllu saman. Það þarf að liggja rækilega yfir því. Ég held hins vegar að mjög brýnt sé að hið háa Alþingi afgreiði þessa hafnaáætlun núna fyrir þinglok og málið hefði auðvitað átt að vera komið inn í þingið fyrir margt löngu og gagnrýnivert að við höfum ekki meiri tíma en raunin er á (Forseti hringir.) til að véla um það í nefndinni. En hér þarf mörgu að breyta og margt að laga. Það er óhjákvæmilegt annað, virðulegi forseti.