Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 15:32:51 (5524)

1997-04-21 15:32:51# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:32]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fullkomlega ástæðulaust fyrir hæstv. ráðherra að snúa út úr orðum mínum. Það hefur verið fullt samkomulag um það í þingmannahópi Reykn. að forgangsraða verkefnum þar. Sandgerði er talandi dæmi um það. Það er heldur enginn ágreiningur um það að Grindavík er næsta stóra verkefnið. Það var ekki það sem ég var að ræða um. Það sem ég var að nefna var hvernig á því stæði að tilteknar þrjár hafnir væru gjörsamlega teknar úr sambandi þegar kæmi að því að vera hlutgengar í hafnaáætlun yfirleitt. Tekin er sú grundvallarafstaða í þáltill. að þær verði bara ekki meira með. Það er fullkomlega óásættanlegt.

Hvað varðar greiðsluþátttökuna að öðru leyti og af því hæstv. ráðherra sveið það eilítið að ég skyldi nefna Akureyri hér til sögunnar, þá er óhjákvæmilegt annað en fara eilítið fleiri orðum um það. Það er auðvitað eftirtektarvert og ekki búið að bíta úr nálinni með þær ákvarðanir sem hæstv. ráðherra beitti sér fyrir og lutu að hafnargerð fyrir norðan og aðstöðu fyrir skipakvína þar. Úrskurðað hefur verið um það að hæstv. ráðherra er auðvitað bundinn þar í báða skó og má vænta að samsvarandi aðstaða suður í Hafnarfirði verði til staðar, þar sem einstaklingar réðust í kaup á skipakví, þ.e. að þeir heimti slíkt hið sama. Mér er spurn: Hvernig í veröldinni ætlar hæstv. ráðherra að koma sér út úr þeim vanda? Það á eftir að reyna á það. Hvað varðar greiðsluþátttökuna almennt þá er mér fullkunnugt um að skerðingarreglur liðinna ára gilda auðvitað hvað varðar uppgjör inn í framtíðina. En það sem ég er að segja er að uppleggið í þessari hafnaáætlun er þannig að stórar, öflugar og kraftmiklar hafnir, eins og Akureyrarhöfn, eru hér miðað við þessa hafnaáætlun óskertar. Það er stór breyting. Í lögunum er kveðið á um hvað hver höfn á að fá í prósentuvís og þar eru engar skerðingartillögur að finna. Þannig að það leiðir auðvitað allt að hinu sama hvar hugur hæstv. ráðherra liggur. (Forseti hringir.) Hann liggur ekki hér á þessu svæði, hann er norðan heiða.