Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 15:35:03 (5525)

1997-04-21 15:35:03# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:35]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur auðvitað ekki á óvart þegar þessi mál eru rædd að sú rödd skuli heyrast frá Alþfl. að það hafi verið mikil ofrausn að standa að endurbótum Slippstöðvarinnar á Akureyri sem á sínum tíma var ríkisfyrirtæki og ríkinu bar auðvitað skylda til að reyna að standa sæmilega á bak við úr því að það vildi bera ábyrgð á þeim rekstri. En það hefur raunar löngum kveðið við þennan tón frá hv. þm. Alþfl. og er löngu kunnugt en góð upprifjun annað slagið.

Um málið að öðru leyti vil ég endurtaka það sem ég sagði áðan og alveg ástæðulaust af hv. þm. að vera með útúrsnúninga í því sambandi. Ég vék sérstaklega að því í ræðu minni hvort ekki væri rétt að skerða framlög í áætluninni til þeirra hafna sem væru með mestar tekjur. Ég sagði þetta beinlínis. Það er því ástæðulaust að vera með upphrópanir af þeim sökum. Ég vil einnig að það komi fram að umræður hafa verið við sveitarfélögin, og má kannski segja að nauðsynlegt sé að ræða betur við þau um hafnamálin í heild sinni, en ef þessi áætlun er grannt skoðuð þá hljóta þingmenn Reykn. að átta sig á því að efnahagur t.d. hafnarinnar í Keflavík er mjög erfiður og veitir ekki af að reyna að standa á bak við þá höfn og eins er um mjög þýðingarmiklar framkvæmdir að ræða fyrir Grindavík. Við skulum ekki gleyma því að samkvæmt þessari áætlun er gert ráð fyrir því að koma mjög mikið til móts við þá í Grindavík. Auðvitað hlýtur það að bitna á öðrum höfnum. Eins og við sjáum á hafnaáætlun erum við enn að greiða þau háu lán sem voru tekin vegna uppbyggingar Sandgerðis á sínum tíma.