Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 15:48:23 (5528)

1997-04-21 15:48:23# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:48]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Samkvæmt hafnalögum skal á tveggja ára fresti gera áætlanir um hafnarframkvæmdir í höfnum landsins til fjögurra ára og skal hafnaáætlun lögð fyrir Alþingi til samþykktar með sama hætti og gera skal með vegáætlun og flugmálaáætlun. Þetta hefur reyndar komið fram hér í þessari umræðu en þetta er samkvæmt hafnalögum. Hins vegar er það svo að hafnaáætlun mun aldrei hafa verið afgreidd og samþykkt með þeim hætti sem lög kveða á um hér á hinu háa Alþingi. Það hlýtur að teljast mjög athyglisvert að Alþingi setji lög um þessa hluti en síðan er ekki farið eftir þeim og málin unnin eins og vera ber.

Nú hefur hæstv. samgrh. lagt fyrir Alþingi tillögu að hafnaáætlun. Það er ýmislegt sem þar mætti nefna en það sem stingur kannski hvað helst í augun í grg. með þessari tillögu eru þær upplýsingar sem fram koma að ríkissjóður standi í skuld við hafnar- og sveitarsjóði vegna hafnarframkvæmda sem þegar hafa verið framkvæmdar að upphæð yfir 700 millj. kr. Á sama tíma er gert ráð fyrir því að fjárveiting til hafnarmannvirkja á árinu 1997 sé um 567 millj. kr. Skuld ríkissjóð er því samkvæmt þessu langt umfram fjárveitingar eins árs til hafnarframkvæmda. Hins vegar kemur einnig fram að þessi skuld verði gerð upp nánast að öllu leyti á þessu áætlunartímabili. Í ljósi þess að hafnaáætlun hefur aldrei verið samþykkt á Alþingi þá hlýtur þessi skuldastaða ríkissjóðs við hafnirnar að teljast óeðlileg og kalla á skýringar.

Ríkisendurskoðun skilaði fyrr í vetur skýrslu um úttekt á hafnarframvæmdum í landinu. Í þeirri skýrslu eru gerðar athugasemdir við þessa stöðu mála. Þar kemur einnig fram að hafnaáætlun er einfaldlega framkvæmdaáætlun og það sé óeðlilegt að ráðast í framkvæmdir samkvæmt henni og ríkissjóður skuldbundinn fjárhagslega án þess að áætlunin hafi fengið samþykki Alþingis og fengið þannig þá lögformlegu stöðu sem henni er ætluð samkvæmt hafnalögum.

Ég ætla ekki, herra forseti, í þessari stuttu umræðu að fjalla um einstök verkefni í höfnum landsins eða einstök atriði sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir. Ég mun gera það við meðferð málsins í hv. samgn. Hins vegar vil ég vekja athygli á því hve fjárveitingum er misskipt milli landshluta en fyrir því hafa verið færð ýmis rök, svo sem vegna mismunandi þarfa og aðstæðna á hverjum stað. Hins vegar er það svo að Vesturlandskjördæmi eru áætlaðar áberandi langminnstar fjárveitingar af öllum kjördæmum landsins á því fjögurra ára tímabili sem áætlunin nær yfir eða innan við 6% af öllum fjárveitingum sem er eins og ég sagði langlægsta hlutfall sé litið yfir kjördæmin í heild. Þegar þessi mál eru skoðuð nánar kemur m.a. í ljós að ein af ástæðum þess er að þarfir fyrir hafnarframkvæmdir, t.d. ef litið er á vöruhafnir, eru mismiklar eftir aðstæðum. Sú þróun hefur verið í töluverðum mæli síðustu ár að vöruflutningar sem áður fóru fram með skipum um hafnir á Vesturlandi hafa að langmestu leyti færst upp á land og fara nú fram með þungaflutningabifreiðum um þjóðvegina. En þá ber svo við að flutningaleiðirnar á landi, þ.e. vegirnir, eru á engan hátt fyrir það byggðir að taka við þessum miklu þungaflutningum. Þrátt fyrir þessa þróun hefur ekki verið litið til þess sérstaklega að byggja þjóðvegina nægilega vel upp til þess að bera þessa umferð.

M.a. í ljósi þessa hef ég þá skoðun að við eigum að gera áætlanir um uppbyggingu samgöngukerfisins í einni heild þar sem litið verði yfir allt það svið í einu. Sem dæmi má því nefna að sú þróun flutninga sem ég nefndi hér áðan hefur víða dregið úr þörf fyrir frekari uppbyggingu flutningahafna en þess í stað aukið þörf fyrir uppbyggingu þjóðvega til þess að bera þungaflutningana sem færst hafa af sjó og upp á land. Þess vegna hlýtur það að vera rökrétt að í stað fjárveitinga til uppbyggingar flutningahafna verði fjárveitingarnar lagðar til uppbyggingar þjóðvegakerfisins því framleiðslufyrirtæki, t.d. í sjávarútvegi, þurfa að koma til sín aðföngum og koma frá sér framleiðslu sinni eftir sem áður. Þetta er tekið sem dæmi um það samspil sem er í samgöngukerfinu í heild og eru ein rök fyrir því að ég tel að við eigum að vinna eina samræmda samgönguáætlun sem nái yfir samgöngukerfið hvort sem er á lofti, láði eða legi.

Í grg. með þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir vil ég aðeins koma inn á tvö atriði er varða Siglingastofnun og vekja athygli á þáttum sem þar eru unnir. Þar má m.a. nefna rannsóknastarfsemi sem á sér stað í töluverðum mæli hjá Siglingastofnun og er auðvitað mjög mikilvæg og skapar bæði grunn að framkvæmdum og tengist siglingum við landið. Ég vil einnig nefna það að nú allra síðustu árin hefur Siglingastofnun eða þáverandi Vita- og hafnamálastofnun unnið að greiningu þarfa í höfnum landsins sem ég tel grundvallaratriði og grundvallarforsendu fyrir því að hafnaáætlun sé unnin hverju sinni miðað við þær þarfir sem eru á hverjum stað. Ég vil sérstaklega fagna þessu sem hér á sér stað og tel þetta mjög til bóta til framtíðar litið.

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hefur hafnaáætlun aldrei verið afgreidd og samþykkt á Alþingi þrátt fyrir að Alþingi hafi sett lög um að svo skuli vera. Ég vil nota tækifærið og hvetja til þess að nú verði unnið að því marki að hafnaáætlun verði afgreidd formlega frá Alþingi þannig að áætlunin hljóti lögformlega þá stöðu sem hún skal hafa og lög kveða á um.