Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 16:00:33 (5530)

1997-04-21 16:00:33# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:00]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Rétt örfá orð vegna þeirrar umræðu um hafnaáætlun og þess sem hér hefur verið vikið að um skerðingu til hafna. Nú er það auðvitað svo að þegar litið er yfir hafnir landsins þá má segja að í heildina séð vanti ekki hafnir, það vantar fisk til að landa í höfnunum og það er kannski meginvandinn. Engu að síður skiptir miklu máli að halda höfnunum vel við í hinum ýmsu byggðum landsins og tryggja að þær séu vel nýtanlegar og öruggar. Það er nú svo með hafnir landsbyggðarinnar að þær skipta höfuðmáli í hverri einustu byggð, í hverju einasta kjördæmi. Stundum hefur verið minnst á það að okkur varði sérstaklega um sjávarútveginn því þar höfum við lifibrauðið. Við tölum til að mynda um það að Norðmenn hafi ekki svo mikinn auð af sjávarfangi heldur öðrum þáttum og þess vegna skipti það minna máli fyrir þá að sinna þáttum er lúta að sjávarútvegi. Á alveg sama hátt hafa verið uppi þau sjónarmið hér á Íslandi að það beri ekki mikið á því, hvorki í Reykjavík né til að mynda í Hafnarfirði, ef lítið aflast vegna þess að spilar svo lítinn þátt í atvinnulífi þessara stórbæja en þess sjái alls staðar stað um leið og illa aflast í hverju einasta sjávarplássi utan Stór-Reykjavíkursvæðisins. Þetta er kannski aðalástæðan fyrir því að menn hafa ekki séð möguleika til þess að rétta styrkjahlutfall til þessara öflugu hafna Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Þessar tvær öflugu hafnir hafa forgang í fjárhagslegri stöðu hafna landsins vegna mikilla tekna. Og það er ekki eingöngu það að þær séu á mjög nærliggjandi svæði heldur hafa þær þetta forskot. Og ef menn eru að meina það í alvöru að það sé eitthvert jafnvægi á milli byggða landsins, þéttbýlis og dreifbýlis, þá kostar það auðvitað meira að viðhalda til að mynda höfnum í sjávarplássum landsins. Það kostar meira að viðhalda þeim en það gefur líka mun meira í staðinn hlutfallslega heldur en stóru hafnirnar á höfuðborgarsvæðinu.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson vék að því að það gæti verið ástæða til þess að Vestmannaeyjahöfn kæmi inn í skerðingarákvæðið. Ég býst við það sé af þekkingarleysi hv. þm. að hann heldur slíku fram vegna þess að þótt Vestmannaeyjahöfn sé vissulega tekjuhá höfn, sem segir sig sjálft um eina af mestu athafnahöfnum landsins, þá er hún í rauninni mjög dýr höfn. Hún skilar frá sér um 10--12% af þjóðarverðmætum okkar í sjávarfangi og varla líða nokkurn tímann fleiri en 4--5 mínútur svo að skip sé ekki að koma eða fara í Vestmannaeyjahöfn, stórt eða lítið, en engu að síður eru skuldir hafnarinnar miklar. Þær hafa minnkað nokkuð á undanförnum árum en á sama tíma liggur fyrir það verkefni að endurbyggja u.þ.b. tvo kílómetra af bryggjum Vestmannaeyjahafnar. Það kostar á milli 400 og 500 milljónir. Það hefur verið forgangsverkefni Hafnamálastofnunar um nokkurt skeið að taka á því uppsafnaða verkefni og þeim vanda. Það hefur verið forgangsverkefni til að mynda á undan uppbyggingu Grindavíkurhafnar sem er mjög brýnt og mikilvægt verkefni. Þannig að menn verða að horfa á alla þætti málsins þegar þeir velta upp sjónarmiðum í þessum efnum.

Það má einnig segja að stór þáttur í fjárhagslegum vanda Vestmannaeyjahafnar hefur verið upptökumannvirkið, skipalyftan í Vestmannaeyjahöfn, en upptökumannvirki eru styrkhæf í hafnarframkvæmdum. Á sínum tíma átti þetta mannvirki að vera eins konar tillegg þjóðarbúsins eða ríkisvaldsins vegna eldgossins í Vestmannaeyjum 1973 en dæmið var bara aldrei gert upp og hefur flotið áfram inni sem hlutdeild Vestmannaeyjahafnar í almennri viðmiðun annarra slíkra mannvirkja og hefur um langt árabil í rauninni verið fjárhagslegur baggi á Vestmannaeyjahöfn. Þannig að þarf líka að horfa til þess hvað efnt var af loforðum um ákveðnar gjafir sem tilkynntar voru í miklum vanda og á neyðarstundu og hvað stendur eftir af vandanum. Þetta kannski skýrir nokkuð málið í heild.

Að öðru leyti skiptir miklu máli að fara grannt yfir alla þætti hafnaáætlunar. Það skiptir líka miklu máli, finnst mér, að samþykkja hana formlega því þótt hún hafi ekki verið samþykkt af Alþingi þá hefur viðmiðunin verið sú að það sé unnið eftir henni, svolítið mismunandi að vísu eftir ráðherrum hvað mikið hefur verið farið eftir henni en auðvitað á það ekki að vera þannig. Það á að vera mjög fast og ákveðið að vinna eftir hafnaáætluninni sem gengur í gegnum mikið þroskaskeið og mikla þróun hjá réttum aðilum, bæði hjá sveitarfélögum og ríkisvaldi.