Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 16:10:09 (5532)

1997-04-21 16:10:09# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:10]

Árni Johnsen (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir síðustu orð hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar að Vestmannaeyjahöfn hefur verið vel rekin og auðvitað eiga slíkar hafnir að njóta þess. En ég gaf fyrst og fremst skýringu á því hvers vegna sú höfn sem er vissulega tekjuhá þurfi að vera inni í almennu hlutfalli styrkveitinga í hafnaáætlun. Og það var síður en svo að ég væri að agnúast út í Hafnarfjarðarhöfn sem er mjög öflug höfn og hefur skilað stóru hlutverki. Ég lagði einungis áherslu á það að í heild, miðað við stöðu Hafnarfjarðar, og það er auðvitað það sem þetta mál snýst um í heild, er ekki bara verið að tala um hafnirnar sjálfar heldur heildarstöðu, fjárhagsstöðu og möguleika byggðanna og það er auðvitað bakgrunnurinn í viðmiðuninni hvers vegna menn eru að draga hafnir í dilka í þessum efnum. Ég lagði einfaldlega áherslu á að það er meira borð fyrir báru hjá Hafnarfjarðarhöfn og Reykjavíkurhöfn heldur en öðrum höfnum landsins til þess að takast á við hin daglegu verkefni, viðhald, uppbyggingu og eðlilega þróun og það segir sig sjálft í þeim byggðarlögum þar sem bæði er mikill mannfjöldi, mikil umferð og miklar tekjur. Og allt er þetta spurning um peninga og þá vigtar auðvitað strax inn í hvort mannfjöldinn er mikill sem ber samábyrgðina á höfnunum eða hvort það eru færri. Svo er auðvitað hitt líka að aðstæður eru ákaflega mismunandi til hafnargerðarinnar.