Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 16:12:02 (5533)

1997-04-21 16:12:02# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:12]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara fagna þessum sinnaskiptum hv. þm. Hann dregur hér hratt og örugglega í land eins og vænta mátti þegar hann gaumgæfir þessi mál og skynjar það auðvitað og skilur og veit að útgerð og fiskvinnsla á sér sögulegar rætur og gegnir þar miklu hlutverki í nágrannabyggðum eins og víða um land. Það er engin tilviljun að Hafnarfjörður heitir Hafnarfjörður svo ég segi nú ekki meira.

Hitt er auðvitað að þetta er feikilegt vandaverk og eins og hv. þm. Jón Kristjánsson kom inn á áðan þegar hann gerði með nokkrum orðum grein fyrir þeim breytingum sem eru að verða á hlutverki hafnanna víðs vegar um landið þar sem safnhafnir eru að verða til og menn eru að nota vegina meira og minna til þess að aka á milli. Þá eru menn hins vegar að komast á það erfiða stig að ákveða hvort halda eigi áfram þeirri stefnu að byggja upp og endurbæta og viðhalda að öllu leyti höfnum alls staðar þar sem þær hafa verið. Menn eru með öðrum orðum að komast á það stig, sem er mjög sársaukafullt og vandmeðfarið, að meta hvort það séu einhverjir staðir þar sem þannig er um hnútana búið að menn eigi jafnvel að einhenda sér í það að fækka höfnum í ljósi reynslunnar og þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað varðandi flutninga allt í kringum landið. Þetta er auðvitað mjög erfitt mál og mér dettur ekki í hug að ég geti eða vilji frekar en nokkur hér inni nefna einhverjar einstakar hafnir í því sambandi. En þetta er nú samt veruleiki sem við okkur blasir. Ég ætla mér ekki að hafa forustu í því. Það verða aðrir að gera og hæstv. ráðherra ber auðvitað mestan þungann og ábyrgðina í þeim efnum.