Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 16:26:07 (5537)

1997-04-21 16:26:07# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:26]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það má vera að hæstv. ráðherra hafi sagt að þetta kæmi niður á öðrum framkvæmdum en hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði að það þyrfti nýtt fé vegna þessarar sérstöku stóru framkvæmdar, að það þyrfti sérstakt nýtt fjármagn frá ríkisstjórninni vegna þessarar einu framkvæmdar. Ég álít að það þurfi ekkert endilega frekar að útvega nýtt fjármagn vegna þessarar framkvæmdar en vegna allra annarra framkvæmda sem farið hefur verið út í á vegum Alþingis eða ríkisstjórnarinnar sem hv. þm. þekkir mætavel að hafa verið mjög stórar framkvæmdir á öðrum stöðum landsins.

Ég hef ekki tekið saman hve mikið fjármagn hefur runnið til annarra kjördæma í hafnamálum á undanförnum 22 árum. En ef við mundum skoða hafnir á Vestfjörðum þá hygg ég að við mundum finna ansi háar tölur ef við færum að leggja saman síðustu 20--30 árin og mæla það síðan með verðbólgustiginu á því tímabili. Ég held samt að það þjóni ekki neinum tilgangi að munnhöggvast um það hve mikið hefur farið í hafnir eftir kjördæmum á síðustu 22 árum. En við vitum samt að aðstaða til hafnargerðar er afskaplega misjöfn eftir landsvæðum. Það gefur auga leið að það er dýrt að vera með hafnir á útnesjum þar sem öldurót og ölduhæð er gríðarleg eins og t.d. fyrir utan Grindavík þar sem ölduhæðin mælist allt upp í 8--10 metra rétt fyrir utan höfnina. En nálægð þessara hafna við fiskimiðin, við dýrmæt fiskimið, hefur fyrst og fremst gert þær verðmætar og mun gera það áfram.