Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 16:28:15 (5538)

1997-04-21 16:28:15# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:28]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins útskýra hvers vegna ég set fram þá skoðun að ríkisstjórninni beri að leggja til auknar fjárveitingar í þennan málaflokk úr því að Grindavíkurhöfn er tekin inn. Það er vegna þess að eftir að málið á undirbúningsstigi hefur farið fyrir umsagnaraðila, hafnarstjórnir og hafnaráð og aðra slíka sem að þessu máli koma á undirbúningsstigi, þá liggur fyrir ákveðin tillaga. Það liggur fyrir ákveðið plan um næstu fjögur ár. Menn hafa ákveðið hversu mikið fé á að leggja í þetta og nokkurn veginn liggur fyrir hvernig á að dreifa því milli hafna og í hvaða framkvæmdir. Þegar málið stendur svona tekur ríkisstjórnin þá ákvörðun á fundi sínum 14. janúar að setja Grindavíkurhöfn inn í áætlunina. Það er útskýrt hér á bls. 15 í athugasemdum við þessa þáltill. Ríkisstjórnin tekur þá ákvörðun að setja þessa stóru framkvæmd inn í hafnaáætlun. Þess vegna segi ég: Þá ber ríkisstjórninni líka að koma með tillögur um að leggja til við Alþingi að hækka fjárveitinguna í þennan málaflokk þannig að hægt sé að vinna við þessa framkvæmd án þess að ýta öðrum framkvæmdum út eins og hefur væntanlega verið gert þó ég hafi ekki séð það plagg sem lá fyrir þegar ríkisstjórnin tók sína ákvörðun. En m.a. vegna þess sem kom fram hjá hæstv. samgrh., þá hlýtur þetta að bitna á öðrum framkvæmdum. Það gefur auga leið. Þess vegna held ég þessu fram, virðulegi forseti, að fyrst ríkisstjórnin greip svona inn í málið þá verði hún líka að fylgja því til enda.