Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 16:32:39 (5540)

1997-04-21 16:32:39# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., EgJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:32]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur um margt verið málefnaleg en það vekur líka eftirtekt að aðalþrýstingurinn við fyrri umr., um að byggja upp hafnir, kemur af suðvesturhorni landsins (Gripið fram í: Og þó er ég ekki byrjaður.) Við vonum að svo verði nú ekki. Út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt við það. En það er kannski full ástæða til þess svo að umræðan sporðreisist nú ekki alveg í upphafi að vekja athygli á því að býsna miklar þarfir eru annars staðar á landinu og tilfærsla í þessum efnum er ekki neitt sérstaklega auðveld. Ég minni á það sérstaklega t.d. að ég held að stærsti hluti af þeim virðisauka sem hefur orðið í þessu þjóðfélagi núna á allra síðustu árum kemur að landi í Austfjarðahöfnum. Það væri hægt að telja mörg atriði upp í sambandi við nauðsynlegar hafnarframkvæmdir á Austurlandi sem sýndu fram á það að vegna þessara breytinga þyrfti að huga sérstaklega að hafnarframkvæmdum þar. Ég minni á í þessu sambandi að eitt fullkomnasta fiskiskip landsins hefur ekki viðlegurými í heimahöfn og ég get líka minnt á að í öðru byggðarlagi þar sem útgerð hefur reyndar eflst á síðustu árum --- þar hefur m.a. verið byggð upp aðstaða fyrir loðnu og síld --- er ástandið þannig að skip með þá ristu sem þarf til að sigla þar að bryggju er ekki fyrir hendi. Það þarf auðvitað að huga að þessum málum og ég vænti þess að það gerist nú í meðferð og umfjöllum þessa máls í samgn. Ég treysti nú reyndar vel forustu formanns okkar í þeim efnum.

Ég tek hins vegar sérstaklega undir það sem hefur komið fram í þessari umræðu. Ég held að hv. þm. Magnúsi Stefánsson hafi einna skýrast gert grein fyrir því þar sem hann fjallaði um breytingar og breytta tíma í samgöngumálum í landinu. Auðvitað tek ég undir það að kannski væri góður kostur að gera eina samfellda áætlun yfir samgöngumálin í heild sinni en ég held að það mundi ekki leysa þau á þessu stigi málsins. Aftur á móti hlýtur það að vera ekki aðeins eðlilegur heldur nauðsynlegur kostur að menn meti nokkuð aðstæður úti á landsbyggðinni með tilliti til þeirra gífurlegu fjárfestinga sem eru áformaðar, góðu heilli, hér á suðvesturhluta landsins. Og ef menn meina eitthvað með talinu um að koma þar eitthvað á móti þá verður það ekki gert öðruvísi en að treysta samgöngur á hvaða vettvangi sem er.

Það er kannski ekki síst af þessari ástæðu sem menn vilja líta á þessi mál nokkuð heildstætt um þessar mundir. Ég trúi því að afgreiðsla þeirra hér í þinginu, þá á ég við flugmálaáætlun, hafnaáætlun og vegáætlun, muni bera þess vott að þar sé að finna áherslur sem hægt er að líta þannig á að þar hafi menn meiningar og ásetning um að treysta byggðina í landinu. Þetta er mikið grundvallaratriði og þessar áætlanir sem hér eru fyrir og ég hef tilgreint, koma að þessu leyti hér til umræðu á mikilli ögurstund. Ég trúi því og treysti að þær verði afgreiddar þannig að þar komi fram vilji Alþingis til þess að fólkið í landinu geti tekið sér búsetu með tilliti til þess að árangur sjáist í þeim mikilvæga málaflokki sem samgöngumálin eru.