Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 16:47:42 (5542)

1997-04-21 16:47:42# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:47]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að víkja að nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi vil ég leiðrétta misskilning hjá hv. 5. þm. Vestf., Kristni H. Gunnarssyni, þegar hann talar um að ákvörðun hafi verið tekin á ríkisstjórnarfundi um framkvæmdir sem nema 700 millj. kr. nú þegar og að til standi að endurgreiða eða standa undir öllum þessum greiðslum á næstu fjórum árum. Þetta er misskilningur. Sú framkvæmd sem ráðist er í er aðeins hluti af dýpkuninni. Það hafði verið gert ráð fyrir að verkið mundi kosta 140 millj. kr. Nú hefur það verið boðið út og niðurstaðan er sú að það verður nokkru dýrara eða sem nemur 170 millj. kr. þegar tekið er tillit til hönnunarkostnaðar og annars slíks. Hlutur ríkissjóðs er 90% af þessum fjármunum en gert hafði verið ráð fyrir því að 130 millj. kr. eða svo yrðu greiddar Grindavíkurbæ á árunum 1999 og 2000. Það hafði ekki verið gert ráð fyrir að á hafnaáætlun yrði lagt til hliðar fé til þess að mæta því sem upp á vantar. Til þess eru ekki efni nú. En ég vil líka minna á að forsendan fyrir því að Grindavíkurbæ var leyft að fara út í hafnarframkvæmdir nú á þessu ári var sú að þeir frestuðu öðrum framkvæmdum sem næmi svipaðri fjárhæð og gekk Grindavíkurbær inn á það. Þannig að þar var mikill vilji fyrir því að dýpka höfnina. Og komum við nú raunar að því sem ýmsir þingmenn hafa vikið að, m.a. hv. þm. Egill Jónsson, að með breyttum skipastóli eftir að uppsjávaraflinn varð jafnmikill og nú er og eftir að búið er að endurnýja þau skip og með stærri og djúpristari flutningaskipum hefur víða reynst nauðsynlegt að dýpka hafnir meira en ráð hafði verið fyrir gert og jafnframt að ráðast í viðlegukanta sem ekki hafði verið möguleiki til að sjá fyrir áður.

Eins og hv. þm. Magnús Stefánsson, hv. 3. þm. Vesturl., vék réttilega að í ræðu sinni, voru skuldir ríkissjóðs við einstakar hafnir um síðustu áramót um 728 millj. kr. og er gert ráð fyrir að þær verði greiddar á þessu áætlunartímabili, á fjórum árum. Það er nauðsynlegt að minna á það í þessu sambandi að ef sveitarstjórn eða höfn tekur ákvörðun um að vinna fram fyrir sig með þessum hætti verður hún að standa undir vöxtum og verðbótum af viðkomandi láni þangað til það fæst greitt úr ríkissjóði. Þannig að nokkur áhætta er hjá sveitarfélögunum að standa þannig að verki sem á að geta tryggt að þau leggi ekki fyrir fram í hafnarmannvirki nema þörfin fyrir þau sé veruleg. Jafnframt er það alveg skýrt að ég hef a.m.k. ekki skuldbundið mig fyrir fram til að greiðslur fyrir slíkar framkvæmdir berist á tilteknum tíma með sérstökum samningi eins og stundum er gert í sambandi við skólabyggingar, þannig að það er ekki um slíkar skuldbindingar að ræða. Það er laukrétt hjá hv. þm. Magnúsi Stefánssyni að Ríkisendurskoðun hefur fundið að því að svo skuli staðið að verki. Ríkisendurskoðun hefur jafnframt kveðið upp þann úrskurð að ef ekki sé kveðið á um það í hafnaáætlun hvert skuli vera greiðsluhlutfall ríkisins fyrir slíkar framkvæmdir skuli við það miðað hvernig málin standi þegar framkvæmdir eru unnar og hefur fært skuldir upp með þeim hætti. Ég hef að vísu gagnrýnt þá málsmeðferð en hlýt að verða að lúta úrskurði Ríkisendurskoðunar í þessum efnum.

Ég hygg að hv. þm. sé ljóst að sjávarútvegur er það mikilvæg atvinnugrein hér á landi að ekki er hægt að stilla sveitarfélögum upp við vegg á þann hátt að þeim sé bannað að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir vegna breyttra útgerðarhátta eða af einhverjum sambærilegum ástæðum vegna þess að hafnargarðar hafa skemmst í ofviðrum eða eitthvað því líkt sem komi niður á þeim vinnslufyrirtækjum sem eru á viðkomandi stöðum. Ríkisvaldið getur illa staðið þannig að verki. Því er nauðsynlegt fyrir sveitarfélögin og ríkisvaldið að finna einhverjar þær leikreglur sem unnt er að búa við og hægt er að standa á. Ég hygg raunar að flestir þingmenn hafi einmitt komið að þessum málum á þann hátt.

Magnús Stefánsson, hv. 3. þm. Vesturl., og raunar tveir þingmenn Austurl. ræddu um nauðsyn þess að gerð yrði samfelld samgönguáætlun þar sem reynt yrði að standa þannig að verki, í flugmálum, hafnamálum og vegamálum, að horft yrði á samgönguþáttinn í heild sinni. Þetta er auðvitað gott markmið en þá er líka nauðsynlegt að muna hitt að helstu flugvöllum landsins hefur þegar verið ákveðinn staður og búið er að byggja þá upp þannig að það er of seint að velta því fyrir sér hvort hægt hefði verið að draga úr einhverjum slíkum kostnaði með því að flýta vegagerð.

Við höfum einnig á síðustu árum verið að flýta vegagerð yfir Hálfdán og tengt saman hafnirnar þar vestra, sem m.a. var forsenda fyrir því að Bíldudalur og Patreksfjörður gátu sameinast í eitt sveitarfélag og þar með sjálfkrafa auðvitað í einn hafnarsjóð. Þannig hefur verið reynt að vinna á öðrum stöðum. Af sama toga eru göngin fyrir vestan. En það er víðast hvar þannig að þar sem upp á vantar góða vegi, að viðunandi framkvæmdir til að bæta vegasambandið eru mjög kostnaðarsamar og skiptir þá ekki máli hvort við erum að horfa til tengingar milli Neskaupstaðar og Seyðisfjarðar, eins og hugmyndir hafa verið uppi um, eða hvort við veltum fyrir okkur að ráðast í jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. En á öðrum stöðum er auðvitað hægt að koma til móts við þessi sjónarmið og er það sjálfsagt.

Ef vikið er sérstaklega að Snæfellsnesi þá sjáum við fyrir okkur að með nútímalegum vegi um Búlandshöfða og með því að ljúka við vegagerðina frá Snæfellsnesi vestur í Ólafsvík eru komnar allt aðrar aðstæður en nú eru fyrir sjávarplássin á þessum stöðum til að vinna saman og er auðvitað nauðsynlegt að reyna að standa vel að því.

Ég talaði um það áðan í minni framsöguræðu að rétt væri að velta því fyrir sér hvernig hægt væri að koma til móts við það ákvæði hafnalaga að skerða ef til vill framlög í samræmi við tekjur og efnahag einstakra hafna. Í hafnalögum er gert ráð fyrir því að í hafnaáætlun sé kveðið á um hvert skuli vera greiðsluhlutfall ríkissjóðs. Nú er það engan veginn einfalt mál að gera sér grein fyrir því hver sé afkoma einstakra hafna og hvernig sanngjarnlega sé að slíku máli staðið. Það liggur t.d. alveg ljóst fyrir við Eyjafjörð að ef til þess kemur að sameina allar hafnir við Eyjafjörð, hvort sem við tökum Siglufjörð með eða ekki inn í þá mynd, yrðu tekjur þeirrar Eyjafjarðarhafnar mjög miklar borið saman við önnur hafnasamlög eða einstakar hafnir þó svo að verulegt óhagræði yrði áfram af því að hafa svo langt á milli þeirra sem raun ber vitni. Á hinn bóginn eru annars staðar aðstæður sem ættu að hvetja til þess að hafnirnar sameinuðust og yrðu reknar sem ein heild og er þá auðvelt að ræða annars vegar um Stór-Reykjavíkursvæðið og líka hægt að velta fyrir sér hvernig á því geti staðið að hafnirnar á Reykjanesi skuli ekki hugsa meira um það en raun ber vitni hvaða kostir fylgja því að þær sameinist. Það sem ég er að tala um er að ef einungis er miðað við brúttótekjur hafna eða hafnasamlags við skerðingu hafna gæti niðurstaðan orðið sú að það ynni á móti eðlilegri þróun og verkaskiptingu milli einstakra hafna.

Aðeins til að rifja upp hverjar séu brúttótekjur þeirra hafna sem mestar hafa tekjurnar. Reykjavík er með 680 millj. kr. tekjur á árinu 1995, Hafnarfjörður er í öðru sæti með 131 millj. kr., síðan koma Vestmannaeyjar með 111 millj. kr., Akureyri með 90 millj. kr. Þó svo að Hjalteyri og Grenivík yrði bætt við mundi það ekki breyta myndinni nema um rétt rúmar 1,3 millj. kr. Á Hjalteyri eru það 100 þús. kr. og ekki ein einasta króna á Svalbarðseyri, Grenivík 1.197 þús. kr. Í fimmta sæti yrði Þorlákshöfn með 58 millj. kr. og síðan kæmi Reykjanesbær með 50 millj. kr. Raunar gleymdi ég Ísafirði sem yrði í fimmta sæti. Ísafjörður hafði á þessum árum 64 millj. kr., Þingeyri, Flateyri og Suðureyri samtals 15 millj. eða með öðrum orðum rétt tæpar 80 millj. kr. sem er verulegt ef við berum saman tekjur einstakra hafna en á hinn bóginn er auðvitað óhagræði að því fyrir Ísafjarðarbæ að hafnir skuli reknar á svo mörgum stöðum.

[17:00]

Ég tek undir með hv. 3. þm. Austurl., Agli Jónssyni, að tilfærsla milli einstakra hafna á hafnaáætlun er ekki sérstaklega auðveld. Þó kemur það fyrir einstaka sinnum að hlutfall breytist nokkuð milli kjördæma, stundum vegna þess að einhver ein framkvæmd kemur til sögunnar sem verulega hækkar hlutfall eins kjördæmis. Auðvitað hafa slíkar hreyfingar alltaf þær afleiðingar að það minnkar á öðrum höfnum ef mjög mikið fer til einnar. Það er af þeirri einföldu ástæðu að við skiptingu hafnafjár verður að miða við þá fjárhæð sem á fjárlögum er og hún er afmarkandi um það hvernig skiptingin fer fram. En á hinn bóginn er ekki unnið þannig að fyrst sé reynt að gera sér grein fyrir því hverjar þarfirnar eru fyrir nýjar hafnaframkvæmdir og fjárhæðin síðan afgreidd eftir á. Þannig hefur það aldrei verið og er ekki.

En það er rétt sem hv. þm. segja að því miður hefur það verið svo þar sem við höfum verið að vinna að því að reka ríkissjóð án halla að fé til hafnarframkvæmda hefur nokkuð dregist saman miðað við það sem áður var og það er líka skýringn á því að skuldir hafa safnast upp sem ríkissjóður verður að reyna að standa skil á á næstu árum.